Opinberir starfsmenn eiga ekki að hafa hag af að koma sök á fólk

Ríkisvaldið á ekki að koma fram við borgarana með offorsi og yfirgangi. Það ætti að gefa augaleið. Þessi hugsun virðist af einhverri ástæðu ekki eiga upp á pallborðið hjá skattinum. Þar fá menn greiddan bónus fyrir að standa sig vel í skattheimtunni.

Þetta fyrirkomulag kom fjármálaráðherra í opna skjöldu. „Við höfum óskað eftir upplýsingum frá skattinum,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þegar hún var spurð um þetta mál. „En ég hef sagt og ítreka að það væri einfaldlega ekki í lagi að skatteftirlit væri háð einhvers konar kaupaukum.“

Sagt var frá því í ViðskiptaMogganum í vikunni að starfsmenn skattsins ættu kost á sérstökum viðbótarlaunum eða bónusgreiðslum fyrir að skila sérstöku eða framúrskarandi vinnuframlagi fyrir skattinn. Í framhaldi spurðist Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins fyrir um málið á Alþingi og sagði Þórdís Kolbrún að hún teldi þetta óeðlilegt og ekki ganga upp ef rétt reyndist. Væri málið til skoðunar í ráðuneyti hennar. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að þetta er rétt og að um töluverðar fjárhæðir er að ræða.

Í frétt Morgunblaðsins í gær var einnig vitnað í Sigurð G. Guðjónsson hæstaréttarlögmann, sem sagði á félagsmiðli að bónuskerfi skattsins væri á skjön við sannleiksregluna, sem snerist um að opinberir starfsmenn, sem væru með opinbert rannsóknar- og ákvörðunarvald, hafi beina hagsmuni af því að koma sök á einstaklinga eða lögaðila í þágu sjálfra sín.

Á síðum Morgunblaðsins hefur verið sagt frá hneykslismáli, sem nú skekur breskt samfélag. Breski pósturinn eyðilagði líf mörg hundruð verktaka með því að saka þá um þjófnað og fjárdrátt. Svo kom í ljós að þeir höfðu ekkert til saka unnið, en vegna galla í nýju tölvukerfi hefði bókhaldið virst vera í ólagi. Þar munu starfsmenn einmitt hafa fengið bónus fyrir að láta sækja sem flesta til saka.

Það er ótækt að koma málum þannig fyrir að opinberir starfsmenn hafi hag af því að koma sök á annað fólk og túlka lög og reglur með ýtrasta hætti. Það er ekki heldur sanngjarnt gagnvart starfsmönnunum því það varpar rýrð á öll þeirra störf, jafnvel þótt þau séu unnin af fullkomnum heilindum.

Ættu bónusar einhvers staðar rétt á sér hjá hinu opinbera væri það fyrir að sýna ráðdeild í meðferð almannafjár. En það verður víst seint.