Ásdís Þula „Þetta er kannski ein mesta konseptsýning, ef svo mætti kalla, sem ég hef sett saman.“
Ásdís Þula „Þetta er kannski ein mesta konseptsýning, ef svo mætti kalla, sem ég hef sett saman.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sýningin Ár•farvegur, sem stendur yfir í Þulu í Marshallhúsinu, er samsýning fjögurra listamanna. Þeir eru: Kristinn E. Hrafnsson, Anna Maggý, Hrafnkell Sigurðsson og Vikram Pradhan. Spurð um titil sýningarinnar segir Ásdís Þula Þorláksdóttir…

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Sýningin Ár•farvegur, sem stendur yfir í Þulu í Marshallhúsinu, er samsýning fjögurra listamanna. Þeir eru: Kristinn E. Hrafnsson, Anna Maggý, Hrafnkell Sigurðsson og Vikram Pradhan.

Spurð um titil sýningarinnar segir Ásdís Þula Þorláksdóttir eigandi gallerísins: „Titillinn er tvískiptur, með punkti á milli. Þetta er skemmtilegt orð: ár – tengir okkur við bæði tímann og vatnið og svo farvegurinn sem við erum öll að skapa okkur og flæða eftir á sama tíma og farvegur jarðar og tíma flæðir í öðrum rásum. Þannig að titillinn er leikur að orðum og snýr að innihaldi sýningarinnar.“

Fallegt samtal

Listamennirnir eru ólíkir en Ásdís Þula segir verk þeirra skapa fallegt samtal. „Anna Maggý, Vikram og Hrafnkell sýna ljósmyndir. Anna Maggý sýnir vídeóverk og Kristinn er með tvo skúlptúra. Í þessum ýmsu miðlum kanna listamennirnir hvað það er að deila tímanum með umhverfi okkar. Árþúsundir og augnablik kallast á og vekja spurningar um samband mannsins við jörðina sem hann býr á. Æviskeiðin ólík en þó mætumst við öll í sekúndubrotum þar sem við eigum samleið.“

Spurð af hverju hún hafi valið þessa listamenn saman segir hún: „Það er langt síðan haldin hefur verið samsýning í galleríinu og mig langaði að skoða tengingu milli kynslóða og ólíkra listamanna og skapa samtal þar á milli. Hrafnkell og Kristinn eru búnir að starfa lengi en Anna Maggý og Vikram eru af yngri kynslóð. Listamennirnir vinna mjög ólíkt en hafa öll skapað sér mjög sterka listræna rödd og myndheim, svo það var gaman að fá verk frá hverjum og einum sem skapa tengingar þar á milli. Þetta er kannski ein mesta konseptsýning, ef svo mætti kalla, sem ég hef sett saman, þar sem unnið er með hugmynd sem flæðir saman við verkin og skapar þarna eina stóra heild.“

Ekki eyland

Galleríið Þula flutti úr miðbænum í Marshallhúsið á Granda í júní 2023. Ásdís Þula er himinlifandi með húsnæðið. „Þetta er dásamlegt, það er svo gaman að vera ekki eyland. Svo er líka sérstaklega skemmtilegt samfélag í Marshallhúsinu, þar sem eru i8, Kling&Bang og Nýlistasafnið, auk La Primavera, þessa fína veitingastaðar á fyrstu hæð. Við fengum auðvitað gott og fallegt rými, sýningarsalurinn er frábær og þetta hefur verið mjög jákvæður tími hingað til og ég er viss um að framtíðin býður upp á meira af því sama.“