„Það er mjög miður að upp úr kjaraviðræðum hafi slitnað í bili. Ég ætla mér samt að vera hóflega bjartsýn á að deiluaðilarnir nái að setjast aftur við samningaborðið og halda áfram að reyna að ná saman, því það er tómt mál að tala um aðkomu…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er mjög miður að upp úr kjaraviðræðum hafi slitnað í bili. Ég ætla mér samt að vera hóflega bjartsýn á að deiluaðilarnir nái að setjast aftur við samningaborðið og halda áfram að reyna að ná saman, því það er tómt mál að tala um aðkomu ríkisins á meðan engir samningar eru í hendi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Hún var spurð að því hvort hún deildi þeirri skoðun með Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra að fyrirsjáanleg fjárútlát vegna hamfaranna í Grindavík myndu hafa áhrif á getu ríkissjóðs til þess að koma að lausn yfirstandandi kjaradeilu með fjárhagslegum ívilnunum, þ.e. að leggja mikla fjármuni inn í tilfærslukerfin.

Katrín segir að það liggi fyrir og engin breyting hafi orðið á þeirri afstöðu að ríkisstjórnin og stjórnvöld séu reiðubúin að greiða fyrir kjarasamningum.

„Kjarasamningum sem styðja við þau markmið að hér náist verðbólga niður og unnt verði að fara að lækka vexti. Að sjálfsögðu hlýtur umfang slíkra aðgerða allt að miðast við heildarmyndina. Það finnst mér sjálfgefið, það er ljóst til að mynda að þeir atburðir sem orðið hafa í Grindavík fela það í sér að 1.200 fjölskyldur leita nú að nýju húsnæði. Þessir atburðir hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn, svo dæmi sé tekið.

Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því að ef svo fer að deiluaðilarnir ná saman um kjarasamninga sem styðja við þau markmið að ná niður verðbólgu, þá beiti stjórnvöld sér með tilteknum hætti. Þær aðgerðir miðast að sjálfsögðu við heildarmyndina. Þær miðast líka við þær kröfur sem heildarsamtök á opinbera markaðinum hafa lagt fram, svo við þurfum alltaf að taka tillit til margra þátta í okkar aðgerðum,“ segir Katrín.

„Okkar aðgerðir miðast alltaf við heildarmyndina, það hefur engin breyting orðið á þeirri afstöðu að við erum tilbúin til að greiða fyrir kjarasamningum sem styðja við verðbólgumarkmiðin,“ segir Katrín Jakobsdóttir.