Stuðlaberg Flottar peysur fyrir stóra krakka.
Stuðlaberg Flottar peysur fyrir stóra krakka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir höfðu talað um að það vantaði uppskriftir að peysum fyrir grunnskólakrakka, frá 6 til 14 ára, svo við óðum í verkið, fórum að hanna munstur og snið í þeim stærðum og úr varð þessi bók,“ segir Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir, ein þeirra…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Margir höfðu talað um að það vantaði uppskriftir að peysum fyrir grunnskólakrakka, frá 6 til 14 ára, svo við óðum í verkið, fórum að hanna munstur og snið í þeim stærðum og úr varð þessi bók,“ segir Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir, ein þeirra fjögurra kvenna sem skipa hópinn Prjónafjelagið, en þær gáfu nýlega út bókina Skólapeysur, sem inniheldur prjónauppskriftir þeirra fyrir grunnskólakrakka.

„Við reyndum að hafa munstur og snið eins tímalaus og hægt væri, með örlitlum útúrdúrum, enda erum við fjórar misjafnir hönnuðir, en það gerir uppskriftirnar bara fjölbreyttari. Ein okkar, hún Dagbjört, á Litlu prjónabúðina og er fyrir vikið með puttann á púlsinum í því hvar klassíkin liggur. Þar fyrir utan eiga þrjár okkar börn á þessum skólaaldri og vitum hvað þau vilja, mín börn nota peysurnar sem ég gerði fyrir þessa bók og börnin hennar Evu og Sigurlaugar gera það líka, sem eru ákveðin meðmæli. Ég nota reyndar líka sjálf stærstu peysurnar,“ segir Heiðrún og bætir við að fyrirsæturnar í bókinni séu m.a. börn þeirra vinkvenna. „Þau tóku líka að sér módelstörf í fyrri bókum okkar með leikskólafötum, þegar þau voru yngri, en Skólapeysur eru fjórða bókin sem Prjónafjelagið sendir frá sér, hinar fyrri hafa komið út í Noregi og Finnlandi.“

Skemmtir sér í fjallabruni í útlöndum

Heiðrún er orkumikil kona og mikill utanvegahjólagarpur, hún ætlar til Kanarí og Skotlands í vor til að njóta fjallahjólreiða og down-hill-fjallabruns. „Ég er frekar ör manneskja og mér finnst vont að gera ekki neitt, ég þarf alltaf að fylla upp í tímann og ég prjóna til að hafa eitthvað að gera þegar það eru dauðar stundir. Ég vil hafa nóg að gera, ég fékk mér til dæmis hund, þótt ég eigi annan fyrir, hvaða rugl er það? Ég á líka fjögur börn og tvo ketti,“ segir hún og hlær. „Þegar ég prjóna þá gengur mér allra best að hlusta á sögur, þá tengist eitthvað. Ég held að þetta sé dæmigert taumhald á ákveðinni tegund af ADHD. Ég tek líka prjónana oft með í vinnuna en við Eva, sem líka er í Prjónafjelaginu, prjónum mikið saman í vinnunni. Við erum báðar flugumferðarstjórar og í okkar vinnu þurfum við að fara eftir reglugerð og megum ekki sitja nema ákveðið lengi í einu í vinnustöðu, þá þurfum við að hvíla. Að sjálfsögðu nýtum við það hlé til prjónastunda, svo þessi hálftíma hvíld nýtist nú örugglega,“ segir Heiðrún sem byrjaði að prjóna að einhverju ráði á meðgönu með sitt fyrsta barn árið 2003. „Mér finnst gaman að margir hafa áttað sig á hversu frábært prjónið er, og virkilega gaman að sjá hvað aðrir eru að gera og hvað fólk er klárt í þessu öllu saman.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir