Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Gylfadóttir kynna aðgerðir til stuðnings Grindvíkingum í skála Alþingis. Því ótengt fór Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í veikindaleyfi síðar um daginn.
Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Gylfadóttir kynna aðgerðir til stuðnings Grindvíkingum í skála Alþingis. Því ótengt fór Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í veikindaleyfi síðar um daginn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun voru útlendingar 75% þeirra sem hófu gæsluvarðhaldsvist á liðnu ári og um helmingur þeirra sem hófu afplánun. Þeir komu frá 41 ríki, flestir frá Póllandi, Albaníu og Spáni

20.1.-26.1.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun voru útlendingar 75% þeirra sem hófu gæsluvarðhaldsvist á liðnu ári og um helmingur þeirra sem hófu afplánun. Þeir komu frá 41 ríki, flestir frá Póllandi, Albaníu og Spáni.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir í óefni komið í málefnum hælisleitenda. Ríkisvaldið mokaði inn fólki í þúsundatali og eftirléti sveitarfélögum að þjónusta það.

Frumvarp um lokað búsetuúrræði fyrir útlendinga, sem eiga eða gætu þurft að sæta brottvísun af landinu, var birt af Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.

Reykjavíkurborg leggst gegn niðurrifi illa farinna húsa til þess að rýma fyrir nýbyggingum, sem hamlað getur þéttingu byggðar.

Haukur Ágústsson, fv. skólastjóri og prestur, lést 86 ára.

Við kortlagningu á sprungum á Reykjanesskaga og hreyfingu á þeim kom í ljós tilfærsla svo nærri höfuðborgarsvæðinu sem í Heiðmörk.

Gríðarlega hefur fjölgað í stofni hnúfubaks við landið, sem vekur spurningar um áhrif þess á loðnustofninn. Loðna þykir hnúfubaknum herrahvalsmatur.

Á þorrablóti þjóðfræðinga var hins vegar brugðið frá hinu þjóðlega trosi og kræsingar úr hinum siðmenntaða heimi á boðstólum.

Gísli Hinrik Sigurðsson stofnandi Garðheima lést 79 ára.

Á mánudagsmorgun birtust loks viðbrögð Svandísar Svavarsdóttur við áliti umboðsmanns Alþingis um hvalveiðibann hennar. Ráðherrann taldi þær aðfinnslur engu skipta og boðaði breytingar á hvalveiðilögum. Óhætt er að segja að þau viðbrögð hafi ekki sefað gagnrýnendur hennar.

Í sama mund og þingfundir hófust á ný eftir jól, greindi Svandís frá því að hún hefði greinst með krabbamein og færi í tafarlaust veikindaleyfi til þess að komast fyrir meinið.

Ríkisstjórnin kynnti fyrirætlanir í samráði við stjórnarandstöðuna um aðgerðir fyrir Grindvíkinga. Þar er ekkert klappað og klárt ennþá, en Katrín Jakobsdóttir sagði m.a. til skoðunar að kaupa upp allt íbúðarhúsnæði í bænum. Fram undan væru tvö meginviðfangsefni: að eyða óvissu Grindvíkinga hér og nú og að meta hvort Grindavík verði byggileg til framtíðar.

Breiðfylking verkalýðshreyfingarinnar sagði „boltann“ hjá Samtökum atvinnulífsins hvað kjaraviðræður þeirra áhrærði. Samtalið í Karphúsinu þótti hafa stirðnað.

Björn Zoëga greindi frá því að hann léti af störfum sem forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Ekki liggur fyrir hvað hann mun taka sér fyrir hendur, nema hvað hann segist ekki á heimleið, hvað þá til Bessastaða, enda kærir hann sig sennilega ekki um illa launuð störf hjá hinu opinbera.

Reynir Sveinsson, fréttaritari Mbl. í Sandgerði, lést 75 ára.

Pétur Ágústsson, skipstjóri í Stykkishólmi, lést 77 ára.

Bónusgreiðslur til starfsmanna Skattsins fyrir framúrskarandi vinnuframlag við skatteftirlit sættu harðri gagnrýni, en mögulega eru öll skattamál undanfarin misseri í uppnámi, ef sýnt þykir að starfsmennirnir hafi átt hagsmuna að gæta við úrlausn mála hjá embættinu.

Samtök iðnaðarins telja að Orkustofnun hafi brugðist hlutverki sínu við að veita traustar upplýsingar um stöðu orkumála, eins og m.a. sjáist á orkuskortinum sem nú gerir vart við sig. Eins hafi markmið ríkisstjórnarinnar um orkuskipti byggst á röngum upplýsingum þaðan.

Tíu erlend flugfélög neita að fara að lögum um afhendingu farþegaskrár til stjórnvalda í upphafi flugs hingað. Lögbundin greining á þeim fari því ekki fram og ekki sé unnt að stöðva brotamenn eða aðra þá sem ekki eiga að koma til landsins. Meðal lögbrjótanna eru flugfélög á borð við Lufthansa, Austrian Airlines og Finnair, en innviðaráðherra vill að reynd séu vægari viðurlög en afturköllun lendingarleyfa.

Lögregla varðist allra frétta um ISIS-liðann, sem hafði komið sér praktuglega fyrir í einbýlishúsi á Akureyri á kostnað skattgreiðenda, ásamt eiginkonu, sex börnum og tveimur karlmönnum, sem ekki hafa verið sögð nánari deili á.

Lítið þokaðist í samningaátt í Karphúsinu, þar sem ríkissáttasemjari ber kaffi og kaldar kleinur í aðila vinnumarkaðarins, enda hefur hann lítið annað hlutverk lengur.

Átök á Gasa eru í uppnámi eftir að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kvað óákveðið hvort Ísland tæki þátt í Söngvakeppni Evrópu, sem fram fer í Gautaborg í vor. Ýmsir hafa krafist þess að Ísland hætti þátttöku í keppninni nema gyðingum verði úthýst úr henni.

Ekkert verður ákveðið um þátttöku í keppninni í Svíþjóð fyrr en eftir úrslit í íslensku söngvakeppninni, enda vill útvarpsstjóri ekki undir nokkrum kringumstæðum verða af auglýsingatekjum af henni.

Starfsemi Kópavogslaugar hefur truflast vegna vatnsleka.

Nemendum og kennurum við Fjölbrautaskólann í Breiðholti var talin stafa ógn af mönnum fyrir utan skólann, í vígklæðum með byssueftirlíkingar. Voru nemendur í varúðarskyni lokaðir inni í stofum sínum en ekki greint frá yfirvofandi hættu. Fyrrverandi nemandi við skólann hótaði því einnig að koma í skólann og beita alvarlegu ofbeldi. Sérsveit lögreglunnar var kölluð til og þrír handteknir í kjölfarið, en bæði skólinn og lögregla eru naum á upplýsingar.

Hafró fann svo lítið af loðnu að sennilega verður engin loðnuvertíð í ár. Það mun kosta þjóðarbúið um 20-40 milljarða í útflutningsverðmæti.

Breiðfylking verkalýðsfélaga vísaði kjaradeilu við SA til ríkissáttasemjara, en samningar renna út í komandi viku.

Lög og regluverk úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar eru gulli slegin og Gulli sleginn. Í minnisblaði ráðherrans til ríkisstjórnar kemur fram að alsiða hafi verið að gera EES-innleiðingar meira íþyngjandi en Evrópulöggjöfin krefst.

Karlalandsliðið í handbolta endaði í 10. sæti Evrópumótsins í Þýskalandi. Af því tilefni mun barnaráðherrann í refsiskyni kynna byggingu þjóðarhallar tíu sinnum í viðbót.

Lögregluþjónar hafa í auknum mæli sætt hótunum, sem rakið er til vaxandi umsvifa í skipulagðri glæpastarfsemi. Hafa sumir þeirra jafnvel þurft að flýja heimili sín. Þessi aukna harka í undirheimunum er rakin til aðkomumanna.

Grindavíkurbæ var heimilað að fella niður fasteignaskatta á þessu ári.

Sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af mislingafaraldri hér líkt og vart hefur orðið í Evrópu, en af einhverjum ástæðum er almenningur tregari til bólusetninga en áður.

Alfreð Árnason erfðafræðingur lést 85 ára.

Hvalur hf. telur ljóst að fyrirtækið eigi skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna ólöglegs hvalveiðibanns Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og óskar viðræðna um það við ríkislögmann með aðkomu stéttarfélaga. Bótakrafan kann að nema nokkrum milljörðum króna.

Fimm starfsmenn embættis héraðssaksóknara sleikja sólina í Namibíu þessa dagana en vilja ekkert segja af ferðum sínum.

Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari lést 78 ára.

— — —

Nafn mannsins, sem hvarf í sprungu í Grindavík, var mishermt hér í liðinni viku. Hann hét Lúðvík Pétursson. Fjölskylda hans og lesendur eru beðnir velvirðingar á mistökunum.