Guðlaug Halldóra Guðmundsdóttir fæddist 18. júlí 1931 á Berserkjahrauni í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hún lést á Dvalarheimilinu Fellaskjóli í Grundarfirði þann 4 . janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson, f. 26. ágúst 1887, d. 24. september 1946, og Kristín Pétursdóttir, f. 24. ágúst 1887, d. 6. desember 1976. Systkini Guðlaugar, öll látin, voru Halldór Lárus, Sigurður, Ingvi, Guðrún, Sigríður Inga, María, Pétur Breiðfjörð, Andrea, Jón og Sveinsína.

Guðlaug giftist 13. september 1952 Herði Pálssyni frá Hömrum í Grundarfirði. Börn þeirra eru: 1) Páll Guðfinnur, f. 6. júlí 1954, kvæntur Magatte Gueye og eiga þau tvo syni, Markús Örn og Pál Ólaf. Fyrir átti hann Hörð, Tinnu, Hrund, Sigrúnu og Þórarin sem lést skömmu eftir fæðingu. Páll á átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Hilmar Þór, f. 1. desember 1956, sambýliskona hans Unnur Jónsdóttir. Fyrir átti hann Helgu Maríu, Guðlaugu og Hafdísi. Hilmar á átta barnabörn. 3) Óskírður sonur, f. 31. október 1961, d. 31. október 1961. 4) Hrönn, f. 20. júlí 1963, gift Sigurði Erni Hektorssyni. Fyrir átti hún Hrannar Pál og Grétar Þór. 5) Kristmundur, f. 21. október 1964, d. 12. desember 2009. Börn hans og Kolbrúnar Haraldsdóttur eru Berglind Ósk, Birna sem lést 2023 og Brynjar. Barnabörnin eru tvö. 6) Hlynur, f. 21. febrúar 1966, kvæntur Valborgu Hlín Guðlaugsdóttur og er Fanndís Hlín dóttir þeirra. Stjúpsonur Hlyns, sonur Valborgar, er Guðlaugur Már. Fyrir átti hann Davíð Frey og Tómas Inga. Barnabörnin eru fjögur.

Guðlaug ólst upp á Berserkjahrauni í Helgafellssveit en fór eftir unglingsárin til Reykjavíkur og gætti barna eldri systra sinna. Hún stundaði nám á húsmæðraskólanum að Löngumýri í Skagafirði. Síðan lá leiðin til Grundarfjarðar sem ráðskona til Páls Þorleifssonar og Ólafar Þorleifsdóttur þar sem hún kynntist syni þeirra og verðandi eiginmanni sínum, Herði. Þau hófu svo búskap á Hömrum þar sem þau bjuggu alla sína starfsævi. Þar ólu þau upp börn sín og byggðu upp myndarlegt bú þar sem snyrtimennskan var í fyrirrúmi. Þegar Hörður dó 2017 bjó Guðlaug áfram á Hömrum en flutti síðan í þéttbýlið í Grundarfirði. Fyrst í eigin íbúð en síðan á dvalarheimili aldraðra, Fellaskjól.

Guðlaug stundaði búskap með manni sínum ásamt heimilisstörfum og barnauppeldi. Þegar börnin uxu úr grasi vann hún utan heimilisins bæði við fiskvinnslu og sem matráðskona ásamt mörgu öðru. Þá rak hún byggingarvöruverslunina Hamra í Grundarfirði um árabil.

Guðlaug var sannkallaður listamaður í allri handavinnu og liggja mörg verk eftir hana hjá vinum og vandamönnum. Þá var hún mikil garðyrkjukona og gróðursetti bæði tré og blóm og kom sér upp fallegum garði á Hömrum. Guðlaug hafði gaman af allri tónlist, spilaði á harmonikku og söng í kirkjukórnum. Þá var hún ötull félagi í kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði. Öllum góðum málum lagði Guðlaug lið og var hún ávallt boðin og búin til að hjálpa þeim sem á þurftu að halda.

Útför Guðlaugar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 27. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku mamma ofurkona, takk fyrir allt, ég mun halda fast í allar góðu minningarnar.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði‘ og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla‘á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)

Guð geymi þig.

Þín

Hrönn.

„Hún mamma mín er besta mamma í heimi,“ segja börnin. Þegar ég var að alast upp á Hömrum var hún mamma mín allt í öllu. Sama hversu snemma var farið á fætur alltaf var mamma á undan öðrum og búinn að taka til morgunmat og hvaðeina. Meðan aðrir stauluðust syfjaðir um var hún með allt á hreinu og passaði að enginn gleymdi neinu. Þegar hún kvaddi okkur á skóladegi voru allir með sitt – mamma passaði það. Hún passaði líka að við stæðum okkur í heimanáminu. Metnaðinn fyrir okkar hönd vantaði ekki. Sumar sem vetur brunaði hún um á Willis-jeppa, en þá var ekki algengt að konur væru með bílpróf. Á vorin í sauðburðinum hljóp hún á öllum tímum sólahringsins út í fjárhús til að hjálpa kindum sem voru að bera og áttu í erfiðleikum. Mörg lömbin áttu hennar nettu en styrku hönd lífið að launa.

Flestöll störf í sveitinni voru unnin á höndum og margir í heimili og allir alltaf svangir. Það var morgunmatur, morgunkaffi, hádegismatur, miðdagskaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi.

Alltaf voru til nýbakaðar kökur, smurt brauð og kleinur í kaffitímum og fiskur og kjöt á matartímum. Stórsteik svo auðvitað á sunnudögum. Enginn fór svangur frá Hömrum. Hún mamma passaði upp á það. Á jólunum, líklega um 1960, bjó mamma til ís í eftirrétt. Hann var ekki keyptur í búð því þar fékkst hann ekki. Þá var heldur enginn ísskápur til á Hömrum. Veðrið var ekki hagstætt til ísgerðar á aðfangadag þetta árið því það var hlýtt í veðri en mamma lét það auðvitað ekki stoppa sig. Hún náði sér í snjó og blandaði hann salti. Þetta var hin besta kuldablanda sem frysti svo ísinn hennar í skál sem hún legið í kuldablönduna. Í minningunni er þetta besti ís lífs míns.

´Meðfram þessu ölu gróðursetti mamma og ræktaði. Hana munaði heldur ekki um að mála jeppann í einu vetfangi á kvöldstund í góðu veðri. Morguninn efitr sáum við að fuglahópur hafði spígsporað um á blautu lakkinu. Mamma tók þessu með æðruleysi málað bara aftur næsta kvöld og setti ógnvekjandi fuglahræðu við bílinn. Af þessum lýsingum að dæma mætti halda að hún mamma mín hefði verið ofurkona, Já, það var hún svo sannarlega. Við tókum ekkert sérstaklega eftir þessu sem börn. Mamma var bara eins og fjöllin, föst fyrir á sínum stað og alltaf til taks. Þar var hægt að fá skjól hjá henni þegar á móti blés og enginn tróðst yfir hana eða velti um koll. Ekki fyrr en þungur, óstöðvandi taktur tímans tók sinn toll.

Ég kveð móður mína með trega en gleðst yfir öllu því jákvæða sem hún kom til leiðar um ævina. Hennar kynslóð byggði upp landið okkar og ætlaðist ekki til að fá hlutina upp í hendurnar. Ég er stoltur af því að hafa átt þessa konu fyrir móður.

Myndarlegur hópur afkomanda minnist hennar og eitt barnabarnið spurði: „Verða þá aldrei aftur bakaðar kleinur á Hömrum?“ Svarið var jú, jú, kannski, en hún Lauga amma þin gerir það ekki – það fer enginn í hennar spor.

Meira á www.mbl.is/andlat

Páll Harðarson.

Þetta er án efa eitt af þeim andlátum sem verður hvað erfiðast að eiga við. Allar þær stundir í æsku sem ég eyddi með ömmu verða að eilífu ógleymanlegar og svo óheyrilega mikið sem amma gaf af sér sem dugar lífið út. Fallega brosið, hláturinn og ljúfa hjartað hennar gaf mér innri frið þegar stresslífið í höfuðborginni varð of mikið, og þessi friður verður alltaf ómetanlegur. Það sem ég gæfi ekki fyrir að geta fundið lyktina hennar og heyrt röddina hennar í símanum bara einu sinni í viðbót.

Ég á óteljandi margar góðar æskuminningar um ömmu, sem allar sýna hversu hjartahlý, gjafmild og ljúf sál hún var. Alltaf beið manns fullt borð af alls kyns góðgæti þegar maður kom í heimsókn, og alltaf varð hún södd af gufunum sem mynduðust í eldamennskunni á meðan hún sá til að allir við borðið yrðu vel saddir. Þegar ég var á barnsaldri og var ein með henni hvíslaði hún reglulega í eyrað mitt að ég mætti stela af súkkulaðinu úr ísskápnum hjá henni, ég fékk alltaf að fylgja henni hvert einasta fótspor, og hún hikaði aldrei við að sauma alls kyns teppi, snyrtibuddur eða hvað sem henni datt í hug, allt handa þeim sem hún hélt nærri. Svo ekki sé nú talað um þau ótal skipti sem amma dansaði og söng Óla skans með okkur barnabörnunum. Allra fjörugasta minningin sem ég á um ömmu var þegar afi bað okkur að reka ferðamenn af landinu nálægt ánni, og ég er ekki frá því að amma hafi brosað út að eyrum eftir eltingaleikinn. Allar þessar minningar, og svo óteljandi fleiri, munu sitja djúpt í hjartanu og gefa mér smá ró á meðan ég sakna hennar og afa svo mikið og leyfi tárunum að renna.

Amma var alltaf hjarta og sál ættarinnar, en nú er hún farin og það verður aldrei hægt að fylla skarð hennar, en það er í lagi, því það mun alltaf bara vera ein Lauga amma. Ekki var hún bara frábær og ómetanleg amma, heldur einnig langamma, sem börnunum fannst alltaf svo yndislegt að heimsækja.

Ég gæti varla hafa verið heppnari en að erfa nafn ömmu, vonandi á ég eftir að gera hana og afa stolt. Ég mun alltaf halda minningunum um hana (og að sjálfsögðu afa líka) á lífi með því að segja börnunum frá öllu sem ég man um þau, baka kökurnar hennar, þyngja alla gesti um 10 kg í hverri heimsókn og leyfa mér að eyða löngum stundum í að horfa á myndir af henni.

Söknuðurinn og meðfylgjandi sorg liggja ansi djúpt í augnablikinu, en ég mun þá á sama tíma finna enn betur fyrir því hversu mikið ég elska ömmu og afa og leyfa mér að syrgja eins lengi og tíminn leyfir mér.

Hvíl í friði yndislega amma mín og nafna, megi ljósið þitt lýsa upp veg okkar hinna að eilífu.

Guðlaug Hilmarsdóttir.

• Fleiri minningargreinar um Guðlaugu Halldóru Guðmundsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.