[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um daginn sá ég uppkast að texta sem ætlaður var ungu fólki sem notar samfélagsmiðla. Þetta var fræðslutexti sem skýrði út fyrir upprennandi áhrifavöldum hvernig þeir kæmust „í samstörf“ með stórum fyrirtækjum – og ég staldraði við fleirtölumyndina samstörf

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Um daginn sá ég uppkast að texta sem ætlaður var ungu fólki sem notar samfélagsmiðla. Þetta var fræðslutexti sem skýrði út fyrir upprennandi áhrifavöldum hvernig þeir kæmust „í samstörf“ með stórum fyrirtækjum – og ég staldraði við fleirtölumyndina samstörf. Nokkru neðar var að auki mælt með því að setja „fyrri samstörf“ á ferilskrána, það hljómaði ennþá rangt í málfræðideild heilans – þó sjónarmun réttara í þeirri deild heilans sem reynir að skilja ungmennamál. „Fyrri samstarfsverkefni“ reyndist nefnilega ekki tæk leiðrétting því það merkir ekki alveg það sama.

Ég lét höfundi textans eftir að taka ákvörðun en hristi enn á ný höfuðið yfir „fljótandi“ máltilfinningu auglýsingabransans, minnug þeirra daga þegar ég og kollegar mínir í textadeild vaskrar auglýsingastofu héldum úti þrotlausu stríði gegn fleirtölumyndinni verð, þoldum ekki þegar auglýst voru góð verð og fórum alveg af hjörunum þegar afslættir voru líka orðnir margir. „Þetta eru eintöluorð … eintöluorð …“ kjökruðum við föl og niðurbrotin eftir hvern dag þar til skúringameistarar veiddu okkur upp af gólfinu og stjökuðu oss inn í lyftu.

Og bittinú, stríðið við verðin og afslættina er ekki fyrr tapað en stríðið við samstörf upphefst! Ég veit ekki hvað skal gera, líklega lúffa bara strax, ég orka í það minnsta ekki að taka fleiri dæmi.

Eða jú, annars. Ég skal taka dæmi um orð sem ég hélt lengi vel að væru eingöngu fleirtöluorð. Gleðilega páska, t.d. „Hva, er það þá páski í eintölu?“ hló ég. Og buxur. „Það er þá varla buxa, ha?“ Og rimlar til að klifra í. „Kannski rimill, eða?“ Allt þetta fannst mér fyndið og fjarstæðukennt, þegar ég var lítil, en viti menn: Það er einmitt rimill í eintölu, og buxa merkir buxnaskálm og páski er líka til, t.d. í orðalaginu litli páski, sem aðrir kalla annan í páskum. Stundum hefur maður bara aldeilis ekki heyrt allt, hvort sem maður er lítill eða stór.

Þess vegna ætla ég ekkert að gera mál út af þessum samstörfum, sérstaklega. Ég ætla í staðinn að benda á staðreynd sem varðar eintölu og fleirtölu og getur jafnvel orðið til skemmtunar: Að ganga þvert á vana eykur stundum áhrif. Hljómsveitin Grýlurnar er sniðugt nafn því við erum vön því að Grýla sé bara ein og stök. Hljómsveitarnafnið Geirfuglarnir er sneddí á sama hátt því við tölum sjaldnast um þá fuglategund nema til að syrgja „síðasta geirfuglinn“, í eintölu. Að breyttu breytanda er nafn hljómsveitarinnar Risaeðlan líka snjallt, því venja er að tala um risaeðlurnar, allar saman, þegar þær voru uppi. Heitin snúa upp á vanann og eru þess vegna svona ágæt.

Þannig er nú það og á sama máta tek ég undir með rithöfundinum Einari Má Guðmundssyni sem segir alla jafna, þegar einhver á afmæli, við hinn sama: „Til hamingju með daginn, og dagana!“ Það er nefnilega tvennt ólíkt, en um leið tvennt jafn satt.