Árni Freyr Gunnarsson er vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Árni Freyr Gunnarsson er vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin sem situr á náttborðinu hjá mér þessa dagana er DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Ég kynntist bókum Auðar Övu seint, en las nýlega bæði Afleggjarann og Eden. Mér leið eins og ég hefði liðið í gegnum þær frekar en lesið, textinn var svo fallega mótaður og áreynslulaus

Bókin sem situr á náttborðinu hjá mér þessa dagana er DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Ég kynntist bókum Auðar Övu seint, en las nýlega bæði Afleggjarann og Eden. Mér leið eins og ég hefði liðið í gegnum þær frekar en lesið, textinn var svo fallega mótaður og áreynslulaus. Ég hef reyndar ekki upplifað sömu töfra í DJ Bamba, en ég á nóg eftir.

Ég keypti nýlega eintak af smásagnasafninu Bliss Montage eftir kínversk-ameríska rithöfundinn Ling Ma án þess að þekkja höfund eða bók. Margar sagnanna byggjast á reynsluheimi Ma, sem er dóttir kínverskra innflytjenda í Bandaríkjunum. Það er í sögunum einhver húmor og hugmyndaauðgi sem halda manni alltaf við efnið.

Bókina A Confederacy of Dunces eftir John Kennedy Toole las ég síðla árs í fyrra. Bókin segir frá Ignatiusi Reilly, sem er latasta, hrokafyllsta, fordómafyllsta, háværasta og leiðinlegasta söguhetja sem fyrirfinnst. Ignatiusi blöskrar úrkynjun samtímans umfram annað og eirir engum í reiðilestrum sínum, hvort sem það eru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir, svartir eða hvítir, mótmælendur eða kaþólikkar, og svo framvegis. Fimm stjörnur.

Líkt og með Bliss Montage renndi ég blint í sjóinn þegar ég keypti Las primas eftir Auroru Venturini. Venturini hafði skrifað 40 bækur þegar hún sló loks í gegn með Las primas árið 2007, þá 85 ára gömul. Söguhetja Las primas er kona með ótilgreinda þroskaskerðingu sem finnur sér leið út úr fátækt og hörmulegum uppvexti sem listmálari. Þetta sjónarhorn gefur bókinni ferskan blæ, því þótt það þyrmi yfir með erfiðleikum er í henni bjartsýni og glettni sem skín alltaf í gegn.

Síðasta haust erfiðaði ég við að halda einbeitingu við ritgerðaskrif og leitaði mér þjáningarbræðra í bókinni The Wandering Mind: What Medieval Monks Tell Us About Distraction eftir Jamie Kreiner. Miðaldamunkarnir veltu einbeitingunni heilmikið fyrir sér, enda var spurningin um einbeitingu við bænirnar upp á (eilíft) líf og dauða. Bókin er full af ævintýralegum lýsingum en ég upplifði mesta samkennd með þeim munkum sem glímdu við hið daglega amstur umfram annað. Og þá sérstaklega með Jóhannesi frá Dalyatha, sem orðaði reynslu sína svo: „Það eina sem ég geri er að borða, sofa, drekka, og vanrækja skyldur mínar.“