Sigurmark Liðsmenn Manchester City fagna sigurmarkinu í gær.
Sigurmark Liðsmenn Manchester City fagna sigurmarkinu í gær. — AFP/Glyn Kirk
Manchester City er komið áfram í 16-liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir dramatískan 1:0-útisigur á Tottenham í stórleik í Lundúnum í gærkvöldi. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði varnarmaðurinn Nathan Aké af stuttu færi á 88

Manchester City er komið áfram í 16-liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir dramatískan 1:0-útisigur á Tottenham í stórleik í Lundúnum í gærkvöldi.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði varnarmaðurinn Nathan Aké af stuttu færi á 88. mínútu og tryggði Englandsmeisturunum sæti í næstu umferð, en City er ríkjandi bikarmeistari eftir að liðið vann þrefalt á síðasta tímabili.

City var eina liðið sem tryggði sér sæti í 16-liða úrslitunum í gærkvöldi. Í bikarnum þarf annan leik ef liðin skilja jöfn í þeim fyrsta og jafntefli varð niðurstaðan í öllum hinum þremur leikjum gærkvöldsins.

Jafnt í úrvalsdeildarslag

Chelsea og Aston Villa gerðu markalaust jafntefli á Stamford Bridge í Lundúnum og mætast þau aftur á Villa Park.

Bristol City úr B-deildinni náði í markalaust jafntefli á heimavelli gegn Nottingham Forest úr úrvalsdeildinni og fær heimaleik gegn Forest-liðinu í verðlaun.

Þá skildu Sheffield Wednesday og Coventry jöfn, 1:1, í Sheffield í B-deildarslag. Victor Topr kom Coventry yfir á 45. mínútu en Djeidi Gassama jafnaði á 84. mínútu og þar við sat. Þau mætast aftur í Coventry.

Þrír úrvalsdeildarslagir verða á dagskrá í bikarnum í dag, laugardag. Everton og Luton mætast í Liverpool, Sheffield United og Brighton mætast á heimavelli Sheffield-liðsins og Fulham og Newcastle mætast í Lundúnum.

Liverpool og Norwich mætast á sunnudag, sem og Newport County og Manchester United.