Halldór Vilhjálmsson fæddist 9. september 1933 á Seyðisfirði. Hann lést í Reykjavík 25. desember 2023.

Foreldrar Halldórs voru Vilhjálmur Jónsson, framkvæmdastjóri á Seyðisfirði, f. 11. mars 1899, d. 22. ágúst 1981, og kona hans, Guðlaug Pálsdóttir húsfreyja, f. 12. maí 1900, d. 22. ágúst 1968.

Systkini Halldórs voru Guðrún Pálína, f. 1919, d. 1983, Ingibjörg, f. 1923, d. 2005, Einar Jón, f. 1928, d. 2022, og Hörður, f. 1930, d. 2022.

Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Alevtina Druzina, f. 1938. Þau giftu sig í Leníngrad árið 1972.

Dóttir Alevtinu og stjúpdóttir Halldórs er Tanya Zharov, f. 1966, eiginmaður hennar er Lárus Jóhannesson, f. 1964. Börn þeirra eru Mikael Jóhannes, f. 2001, Katrín Anna, f. 2002, og Sofia Lára, f. 2007.

Börn Halldórs og Alevtinu eru: 1) Nathalía, f. 1974, eiginmaður hennar er Ingi Rafn Ólafsson, f. 1971. Börn þeirra eru Elísabet, f. 2001, Pétur Óli, f. 2007 og Halldór Ari, f. 2010. 2) Hlín, f. 1978, eiginmaður hennar er Gylfi Gylfason, f. 1977. Sonur þeirra er Garpur, f. 2005. 3) Valþór, f. 1978, eiginkona hans er Ásdís Jörundsdóttir, f. 1979. Börn þeirra eru Freyja, f. 2014, og Magni, f. 2018.

Halldór fæddist á Seyðisfirði og ólst þar upp. Hann stundaði nám í þýsku, norsku og dönsku í Þýskalandi og við Háskóla Íslands. Halldór kenndi við MT 1970-1973 og við MR 1971-2002. Hann vann einnig við þýðingar á bókum og þýddi fjölda smásagna og greina fyrir blöð og tímarit. Í hjáverkum var hann stórtækur skógræktandi austur á fjörðum.

Útför Halldórs hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Meira á

https://mbl.is/andlat

Elsku pabbi.

Takk fyrir alla samveruna, sögurnar og ljóðin, spaugið, sprellið og sönginn. Takk fyrir fróðleikinn og spekúlasjónirnar og spilamennskuna. Takk fyrir að kynna okkur fyrir náttúrunni, fuglunum, trjánum og sveitinni. Takk fyrir að kenna okkur að taka sjálf okkur og lífið mátulega alvarlega. Takk fyrir að koma okkur á legg og gera okkur að manneskjum. Takk fyrir mennskuna.

Takk fyrir allt.

Valþór.

Pabbi hefur nú fengið hvíldina eftir langa og góða ævi.

Pabbi var einstakur maður, ákveðinn og fastur fyrir en á sama tíma ljúfur og nærgætinn. Hann var strangur og gerði kröfur en var samt sanngjarn og skilningsríkur.

Hann var uppfullur af fróðleik og vel að sér um alls kyns málefni enda duglegur að lesa sér til og hafði mikið dálæti á bókum.

Fyrir mér var hann óskeikull og alvitur viskubrunnur sem alltaf var hægt að leita til ef svör vantaði við einhverjum hugleiðingum eða bara til að spjalla um daginn og veginn og málefni líðandi stundar.

Þær eru eftirminnilegar árlegu ökuferðirnar austur á land í Lagarfellið, þangað sem farið var til sumardvalar, en þær tóku að meðaltali hálfan sólarhring því aldrei fór pabbi upp fyrir 70 km hraða á Lödunni góðu, sama hversu löng röð af bílum var fyrir aftan okkur á veginum. Hann lét eins og hann heyrði ekki hávært flautið frá hinum bílunum og hunsaði með öllu illt augnatillit bílstjóranna þegar þeir brunuðu fram úr okkur, margir með hnefana steytta, brjálaðir yfir þessum ökumanni sem leyfði sér að keyra svona hægt. Pabbi lét þetta ekkert á sig fá, enda almennt ekki viðkvæmur fyrir áliti annarra.

Þessar löngu ökuferðir nýtti pabbi til ýmis gagns, svo sem til ítarlegrar landafræðikennslu, ljóðaflutnings og tónleikahalds. Hann kenndi okkur ljóð og vísur sem hann lét okkur síðan flytja, helst af innlifun og með leikrænum tilburðum, og oft og iðulega var líka sungið hátt og snjallt í bílnum, mögulega vegna þess að útvarpið í Lödunni var bilað, eða mögulega því það var svo gaman, hver veit. Alltaf var tími til að stoppa á áhugaverðum stöðum á leiðinni, labba upp að fossi eða borða nesti við fallegan læk. Við vorum aldrei á hraðferð og það var aldrei neitt at, einungis nógur tími og tækifæri til þess að vera bara og njóta.

Fyrir austan lágu ræturnar hans pabba og þær lágu djúpt. Pabbi var ákaflega stoltur af því að vera Austfirðingur og talaði alltaf fallega og af virðingu um heimabæ sinn, Seyðisfjörð, þar sem gott hafði verið að alast upp. Í Lagarfelli í Fellabæ áttum við síðan dásamlegan sumardvalarstað og þar var alltaf gott að vera, í friði og ró og laus við stress og hraða höfuðborgarinnar. Í Lagarfellinu leið pabba best.

Pabbi var glaðlyndur að eðlisfari og yfirleitt var létt yfir honum. Hann var mikill húmoristi og hafði ákaflega gaman af því að stríða en passaði sig yfirleitt á því að vera ekki illkvittinn, sérstaklega ef hann fann að fólk var viðkvæmt fyrir. Hann þoldi sjálfur stríðni vel sem var hentugt þar sem hann arfleifði okkur börnin að sínum sótsvarta húmor sem við notuðum á hann óspart.

Síðustu æviárin var heilsan farin að gefa sig og líkaminn að bila en aldrei kvartaði pabbi. Hann hélt andlegri reisn sinni allt fram á síðasta dag og kvaddi þessa jarðvist friðsæll og fagur, umvafinn ástvinum sínum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, ég mun ávallt sakna þín.

Þín

Hlín.

• Fleiri minningargreinar um Halldór Vilhjálmsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.