Skatturinn Starfsstöðvar embættisins eru á Höfðatorgi í Reykjavík.
Skatturinn Starfsstöðvar embættisins eru á Höfðatorgi í Reykjavík. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upplýsingafulltrúi skattsins segir embættið bundið trúnaði um heilsu starfsmanna. Því tjáir embættið sig ekki um hvort það beri á kulnun. „Hvað varðar spurningar tengdar veikindum starfsfólks þá ræðir embættið ekki um slík mál á opinberum…

Baksvið

Baldur Arnason

baldura@mbl.is

Upplýsingafulltrúi skattsins segir embættið bundið trúnaði um heilsu starfsmanna. Því tjáir embættið sig ekki um hvort það beri á kulnun.

„Hvað varðar spurningar tengdar veikindum starfsfólks þá ræðir embættið ekki um slík mál á opinberum vettvangi,“ sagði í svari upplýsingafulltrúans við fyrirspurn blaðsins.

Tilefnið er að atvinnurekandi hafði samband við Morgunblaðið og kvartaði undan hægagangi hjá skattinum við afgreiðslu á virðisaukaskattsskýrslum. Kvaðst hann hafa fengið þau svör að tafirnar skýrðust af kulnun hjá starfsfólki.

Sagði atvinnurekandinn þetta hafa valdið fyrirtæki sínu miklum óþægindum enda væri um töluverðar fjárhæðir að tefla. Þ.e.a.s. vegna tafa á að virðisaukaskattur væri endurgreiddur.

Tölfræðin hins vegar birt

Vegna þessarar ábendingar sendi Morgunblaðið fyrirspurn á skattinn.

Sem áður segir kveðst embættið bundið trúnaði um líðan starfsfólks. Hins vegar fengust upplýsingar um afgreiðslur tengdar virðisaukaskatti og eru þær endurbirtar í grafinu hér til hliðar. Jafnframt fylgdi með eftirfarandi útskýring frá embættinu:

„Varðandi afgreiðslutíma í virðisaukaskattsdeild innan álagningarsviðs þá gefur hér að líta eftirfarandi gögn sem sýna afgreiðslutíma á útgáfu virðisaukaskattsnúmera sem og afgreiðslu virðisaukaskattsskýrslna sem lokið var á árunum 2022 og 2023.

Fleiri mál en árið áður

Á árinu 2023 voru opnuð 4.513 virðisaukaskattsnúmer samanborið við 4.464 á árinu á undan. Vakin er athygli á að upplýsingar um eldri ár má nálgast í ársskýrslu skattsins eða ríkisskattstjóra eftir því sem við á.

Nú þegar hafa verið mótteknar 159.874 virðisaukaskattsskýrslur vegna ársins 2023 en á árinu 2022 voru mótteknar 172.840 virðisaukaskattsskýrslur. Þar sem gjalddagi fyrir uppgjörstímabilið nóvember til desember 2023 er þann 5. febrúar nk. þá liggja endanlegar tölur ekki fyrir [árið 2023],“ sagði í svari upplýsingafulltrúans.

Úr 19 dögum í 14 daga

Á grafinu hér má meðal annars sjá að afgreiðslutími vsk-númera styttist milli áranna 2022 og 2023, úr 19 dögum í 14 að meðaltali.

Sömuleiðis styttist afreiðslutími virðisaukaskattsskýrslna úr að meðaltali 60 dögum 2022 í að meðaltali 48 daga 2023.

Ekki sátt um skilgreiningu

Á Vísindavefnum er að finna lýsingu á kulnun og einkennum hennar:

„Hugtakið kulnun í starfi, út-bruni (burn-out), kom fram í kringum árið 1974. Á undanförnum áratugum hefur verið mikil gróska í rannsóknum á kulnun í starfi og margar greinar birst um það efni. Það hefur þó staðið rannsóknum nokkuð fyrir þrifum að kulnun í starfi hefur verið skilgreind á nokkra mismunandi vegu, og ekki hefur verið allsherjar sátt um hvernig skilgreina ætti fyrirbærið.

Mörg einkenni hafa verið tengd kulnun í starfi. Lykileinkennin eru þau að starfsmaðurinn finnur til örþreytu, er úrvinda, hann finnur til firringar með tilliti til vinnu og starfslöngunar, hefur streitueinkenni og minnkaða vinnufærni. Öll eru einkennin vinnutengd,“ segir þar en höfundur er Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins.