Nú er ég niðurlútur. Miður mín, jafnvel. Ástæðan er óvænt tilkynning Jürgens Klopps knattspyrnustjóra Liverpool um að hann láti af störfum eftir tímabilið. Flestir stuðningsmenn Liverpool hafa eflaust ekki verið undirbúnir fyrir þessa tilkynningu,…

Gunnar Egill

Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Nú er ég niðurlútur. Miður mín, jafnvel. Ástæðan er óvænt tilkynning Jürgens Klopps knattspyrnustjóra Liverpool um að hann láti af störfum eftir tímabilið.

Flestir stuðningsmenn Liverpool hafa eflaust ekki verið undirbúnir fyrir þessa tilkynningu, ekki síst þar sem samningur Klopps átti að renna út sumarið 2026 og gengið hefur verið gott á yfirstandandi tímabili.

Mér þykir vænt um Þjóðverjann, finnst eins og hann sé hluti af fjölskyldu minni. Ég hugsa að Klopp sé sú fræga manneskja sem ég hef mest dálæti á og líklegastur til að valda stjörnustjarfa hjá mér.

Ástríðan, brjálæðisköstin og flestar bestu stundir sem ég hef upplifað sem stuðningsmaður liðsins hafa þar mikið að segja. Stærsta ástæðan er samt hversu sönn og góð manneskja Klopp virðist sannarlega vera.

Hann hefur svo góðan skilning á öllu því sem Liverpool stendur fyrir. Jürgen Klopp er Liverpool. Það er vont að missa holdgerving félagsins.

Nú fer í hönd eins konar sorgarferli hjá stuðningsmönnum Liverpool um allan heim. Einhverjum kann að þykja slík viðbrögð fulldramatísk en sá hinn sami áttar sig þá einfaldlega ekki á hversu nærri þessi ensku lið standa svo mörgum.

Ummæli Bills Shanklys, sem stýrði einnig Liverpool, útskýra þetta ágætlega: „Sumt fólk telur knattspyrnu vera upp á líf og dauða. Ég fullvissa ykkur um að hún er miklu alvarlegri en það.“

Þetta er alvöru lasleiki sem margir glíma við. Hvernig sem tímabilið endar þakka ég Klopp fyrir allt saman. Hans verður óskaplega sárt saknað.