Hugvekjandi „Þetta er hugvekjandi kvikmynd, að hluta til ádeila á valdbeitingu í nafni réttlætis og frelsis, kvikmynd sem spyr spurninga fremur en að taka afstöðu,“ segir í gagnrýni um Diskóstrák í leikstjórn Giacomos Abbruzzeses.
Hugvekjandi „Þetta er hugvekjandi kvikmynd, að hluta til ádeila á valdbeitingu í nafni réttlætis og frelsis, kvikmynd sem spyr spurninga fremur en að taka afstöðu,“ segir í gagnrýni um Diskóstrák í leikstjórn Giacomos Abbruzzeses.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Disco Boy ★★★★· Leikstjóri og handritshöfundur: Giacomo Abbruzzese. Aðalleikarar: Frank Rogowski, Morr Ndiaye, Laëtitia Ky, Leon Lucev, Matteo Olivetti, Robert Wieckiewicz og Michal Balicki. Frakkland, Belgía, Pólland og Ítalía, 2023. 91 mínúta.

Kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Disco Boy, eða Diskóstrákur, er fyrsta kvikmynd ítalska leikstjórans Giacomos Abbruzzeses í fullri lengd og fjölþjóðleg framleiðsla. Aðalpersóna myndarinnar er ungur maður frá Belarús, Aleksei, leikinn af hinum þýska Frank Rogowski. Aleksei er fámáll og harður af sér, það er ljóst frá upphafi myndar sem hefst á ferðalagi hans og vinar hans frá heimalandinu yfir landamærin til Póllands í þeim tilgangi að fylgjast með fótboltaleik. Þaðan fara þeir ólöglega alla leið til Frakklands en ferðin reynist ekki hættulaus og lætur félagi hans lífið.

Aleksei skráir sig í Frönsku útlendingahersveitina til að fá franskt vegabréf og við tekur sársaukafull herþjálfun. Að henni lokinni er Aleksei sendur með hersveit til Nígeríu með það að markmiði að verja ósa árinnar Níger. Þar fléttast saga hans við hina aðalpersónu sögunnar, Jomo, leiðtoga uppreisnarhóps sem hefur tekið nokkra útlendinga í gíslingu. Er verkefni Alekseis og hersveitar hans að frelsa gíslana. Jomo og systir hans, Udoka, eru auðþekkjanleg af mislitum augum. Þetta sérkenni kemur endurtekið við sögu í myndinni og seinna í henni er augnliturinn yfirfærður á Aleksei í draumkenndum atriðum sem skilja má sem ofskynjanir eða martraðir.

Bæði Aleksei og Jomo eiga sér drauma um betra líf. Jomo nefnir í samtali við félaga sína að hefði hann fæðst á öðrum og betri stað væri hann líklega dansari, diskóstrákur, og þaðan kemur titill myndarinnar. Aleksei hefur sérstakt dálæti á rauðvíni frá Bordeaux og teygar það þegar hann fær frí frá hermennsku. Hann verður svo, undir lok myndar, diskóstrákur líkt og sá sem Jomo dreymdi um að verða. Udoka, systir Jomos, hefur þá umbreyst í þokkafulla diskóstelpu.

Trylltur dans í París og Nígeríu

Diskóstrákur er um margt óvenjuleg kvikmynd og opin fyrir ólíkum túlkunum. Flakkað er milli draum- og martraðarkenndra upplifana og atriða, ýmist í París eða Nígeríu, og sjá má tengingu á milli þeirra í skærum neonlitum þar sem hitamyndavélar eru m.a. notaðar í myrkum skógi. Önnur tenging er svo á milli þess tryllta dans sem stiginn er á diskótekinu og í skóginum og þeirrar vímu sem dansarar leita í með ólíkum efnum. Hermennirnir og uppreisnarmennirnir eiga fleira sameiginlegt en þeir gera sér grein fyrir sjálfir.

Aleksei er ekki samur eftir að hann snýr aftur með herflokki sínum frá Nígeríu. Þar hefur hann upplifað martröð sem mun fylgja honum alla ævi, að hafa drepið mann. Á stundum er líkt og hann sé aftur kominn á vígvöllinn í Nígeríu, týndur í skóginum og augu hans verða þá mislit, líkt og í systkinunum Jomo og Udoku. Virðist sem andi Jomos ásæki hann og Udoka birtist honum einnig en það er áhorfandans að ákveða hvort hún sé raunveruleg eða ekki, líkt og fleira í myndinni.

Martraðarkennd sýn leikstjórans Abruzzeses er ekki síst áhrifamikil fyrir þá frábæru tónlist sem heyra má í myndinni en hana samdi Pascal Arbez-Nicolas sem gengur undir listamannsnafninu Vitalic. Tónlist hans passar fullkomlega við myndina, diskóskotin raftónlist sem minnir stundum á tónlist Vangelis og hvet ég lesendur til að hlusta á hana líka eina og sér, til dæmis á Spotify.

Einnig ber að nefna sérstaklega kvikmyndatökuna sem var í höndum Héléne Louvart en hún er að sama skapi áhrifamikil og gott dæmi um hvernig oft má finna fegurð í hinu ljóta.

Diskóstrákur sé fyrsta kvikmynd Giacomos Abruzzeses er nokkuð merkilegt því halda mætti að hér færi margreyndur og -verðlaunaður kvikmyndaleikstjóri með nokkrar myndir á ferilskránni. Þetta er hugvekjandi kvikmynd, að hluta til ádeila á valdbeitingu í nafni réttlætis og frelsis og kvikmynd sem spyr spurninga fremur en að taka afstöðu.