Umdeildur Jónas frá Hriflu (til hægri) heilsar upp á Jóhannes Kjarval listmálara á sýningu hans árið 1961.
Umdeildur Jónas frá Hriflu (til hægri) heilsar upp á Jóhannes Kjarval listmálara á sýningu hans árið 1961. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Fáir menn voru meira milli tannanna á fólki á þriðja, fjórða og fimmta áratugi síðustu aldar en Jónas Jónsson, þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, iðulega kenndur við fæðingarstað sinn, Hriflu. Ekki þurfti heldur að fletta Morgunblaðinu lengi á þessum árum til að rekast á nafn hans. Enda fóru sjónarmið og áherslur Jónasar og blaðsins sjaldnast saman.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Fáir menn voru meira milli tannanna á fólki á þriðja, fjórða og fimmta áratugi síðustu aldar en Jónas Jónsson, þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, iðulega kenndur við fæðingarstað sinn, Hriflu. Ekki þurfti heldur að fletta Morgunblaðinu lengi á þessum árum til að rekast á nafn hans. Enda fóru sjónarmið og áherslur Jónasar og blaðsins sjaldnast saman.

Sumarið 1934 stóðu fyrir dyrum alþingiskosningar og var Morgunblaðið í nokkru uppnámi vegna gjörða Jónasar fáeinum dögum fyrir kosningar en hann hafði þá, að sögn blaðsins, haft undarleg afskipti af hugmyndafræðilegum átökum í Rangárvallasýslu. Sjálfur var Jónas landskjörinn þingmaður 1922 en frá og með 1934 var hann þingmaður Suður-Þingeyinga. Hann var formaður Framsóknarflokksins frá 1934-44.

En alla vega. Í nafnlausri fréttaskýringu í Morgunblaðinu 20. júní var Jónas tekinn föstum tökum.

„Jónas Jónsson frá Hriflu biðlar ákaft til Rangæinga við þessar kosningar. Hann skrifar hverja greinina af annari til þess að reyna að vjela Rangæinga til að kjósa að þessu sinni tvo grímuklædda sósíalista, þá Helga Jónasson lækni og síra Sveinbjörn Högnason. RangárvalIasýsla er eitt af þeim fáu kjördæmum, þar sem flokkaskiftingin er hrein og ákveðin.“

Ekki nema nafnið tómt

Að vísu var það svo, að fjórir flokkar höfðu þar frambjóðendur við þessar kosningar. En það var þó ekki nema nafnið tómt, að dómi Morgunblaðsins. „Öllum ber saman um, að frambjóðendur Alþýðuflokksins og Bændaflokksins hafi ekkert fylgi í sýslunni. – Utanflokka frambjóðandann þarf ekki að nefna; framboð hans mun nánast mega skoða sem grín. Stefnur þær, sem um er barist í Rangárvallasýslu eru því aðeins tvær: Stefna Sjálfstæðisflokksins annars vegar og hinsvegar hin grímuklædda sósíalistastefna, sem Tímamenn bjóða.“

Þið veitið því athygli að Morgunblaðið talar hér um Tímamenn en ekki Framsóknarmenn enda tókust blöðin gjarnan hressilega á á þessum árum.

Morgunblaðið las það út úr stöðunni að Jónas frá Hriflu reyndi að telja sjálfum sér trú um, að æskan í Rangárþingi myndi fylgja hinni grímuklæddu sósíalistastefnu að þessu sinni.

„Hví skyldi æskan gera þetta?“ spurði blaðið enda væri það einkenni æskunnar, að hún hataði ófrelsið, í hvaða mynd sem það kæmi fram. „Öll skerðing á persónulegu frelsi er því andstætt hugarfari æskunnar. Sama verður ofan á í þjóðmálunum. Æskan getur ekki unað í þeim flokki, þar sem ófrelsi og kúgun ríkir. Þar vill hún einnig hafa frelsi.“

Morgunblaðið sagði Tímamenn ákaflega úti á þekju, héldu þeir að æskan í landinu fylgdi þeim að málum við þessar kosningar. „Skyldi æskan vera búin að gleyma því, að það voru Tímamenn, sem börðust gegn því með hnúum og hnefum, að nokkur leiðrjetting fengist á hinu rangláta og úrelta kosningafyrirkomulagi, sem hjer var ríkjandi? Stjórnarskráin nýja færði æskumönnunum kosningarjett. – Hve margir skyldu þeir verða, æskumennirnir, sem nota þann rjett til þess að auka vald „handjárna“ herrans frá Hriflu?“

Hlýddu einræðisherranum

Frambjóðendurnir í Rangárvallasýslu, Helgi læknir og sr. Sveinbjörn, höfðu, að sögn Morgunblaðsins, undirgengist að hlýða í einu og öllu boði einræðisherrans frá Hriflu. „Þeir hafa í auðmýkt og undirgefni látið setja á sig hin pólitísku „handjárn“ Framóknarflokksins. Þegar Jónas frá Hriflu segir þessum þægu þjónum sínm, að nú sje tími til kominn að fara með alt liðið yfir til sósíalista, verða þeir góðu börnin – og hlýða umsvifalaust. Og þá eiga bændur í Rangárþingi möglunarlaust að lúta forsjá Hjeðins [væntanlega Valdimarssonar] og annara spákaupmanna rauðliða. Þeir verða – með góðu eða illu – neyddir til að afhenda óðul sín og lúta í einu og öllu allsherjarráði því, sem rauða fylkingin velur til þess að hafa með höndum yfirbústjórnina á jörðunum. Skyldu þeir vera margir, bændasynirnir, sem æskja þess að gerast á þann hátt þjónar Hjeðins eða annara burgeisa rauðliða?“

Hér var, eins og þið sjáið, tekist á um grundvallarhugmyndafræði í þessu lífi.

Sjáfstæðisflokkurinn, undir forystu Jóns Þorlákssonar, var ótvíræður sigurvegari kosninganna með 42,4% atkvæða og 24 menn kjörna, Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn fengu tæp 22% og 15 menn kjörna hvor. Bændaflokkurinn hlaut rúm 6% og fimm menn en Kommúnistalokkurinn kom ekki manni á þing. Ekki heldur Þjóðernissinnar. Einn maður náði kjöri utan flokka.

Eftir kosningarnar mynduðu Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn það sem kallað var Stjórn hinna vinnandi stétta undir forsæti Hermanns Jónassonar, þingmanns Framsóknar. Þetta var í fyrsta skipti sem verkamannaflokkur átti aðild að ríkisstjórn á Íslandi. Jónas frá Hriflu tók ekki sæti í ríkisstjórninni – enda umdeildur innan flokks sem utan.

Hinn mesti vaðall

Morgunblaðið hafði orð á þessu í forystugrein daginn eftir að stjórn Hermanns tók við völdum:

„Jónas Jónsson ritar 12 dálka grein í Tímann í gær. Aðrir komast þar ekki að. Ætlar hann auðsjáanlega að sýna með því svart á hvítu, að honum sje ekki bolað frá Tímanum, þó samherjar hans hafi bolað honum frá landstjórn. Greinin er að sjálfsögðu hinn mesti vaðall.“

Nema hvað? Þetta skýrir kannski hvers vegna blaðið talaði meira um Tímamenn en Framsóknarmenn hér að framan.

Áfram hélt leiðarahöfundur Morgunblaðsins: „Í neðanmálsgrein skýtur hann [Jónas] fram þeim huggunarorðum til sjálfs sín, að Jón Þorláksson myndaði ekki stjórn 1924. En mikið má vera, ef sú huggun nær langt, því J.J. man, að Jón Þorláksson var sterkasti maður stjórnarinnar, sem þá var mynduð, og er áhrifamesti maður flokks síns enn í dag. Þá sendir J.J. þeim ráðherradrengjum, uppeldissonum sínum Hermanni og Eysteini [Jónssyni], kaldar kveðjur í þessari grein sinni, þar sem hann segist í öndverðu hafa sagt þeim, að hin núverandi stjórnarsamfylking „þyldi ekki deilur“. Og „innan skamms yrðu kosningar“. Er þar önnur huggun þessa hrelda fyrverandi foringja hins fyrverandi bændaflokks, að brátt muni hin nýskipaða landstjóm sósíalista velta af stóli.“

Ekki gekk það eftir; Stjórn hinna vinnandi stétta hélt velli í kosningum 1937 og staða Framsóknar styrktist enda bætti flokkurinn við sig fjórum mönnum meðan Alþýðuflokkurinn tapaði tveimur.

Jónas frá Hriflu var áfram utan stjórnar.