Þegar straumur hælisleitenda tífaldast sjá allir að eitthvað mikið er að

Viðtal við Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra í Dagmálum í liðinni viku var sláandi og er óhætt að mæla með því. Þar koma fram upplýsingar um vandann sem við er að fást í útlendingamálum hér á landi og hvernig sá vandi hefur margfaldast án þess að til fullnægjandi aðgerða hafi verið gripið. Jón bendir á að á árunum 2003 til 2016 hafi samtals borist um 1.380 umsóknir um vernd frá útlendingum, en frá þeim tíma hafi þessar umsóknir tífaldast og verið orðnar nær fjórtán þúsund síðastliðið haust.

Jón vekur athygli á því að Vinstri-grænir hafi í ríkisstjórn beitt því sem hann kallar tafapólitík til að koma í veg fyrir að hægt væri að taka á þessum málum. Hið sama má segja um þrjá stjórnarandstöðuflokka, Pírata, Samfylkingu og Viðreisn, sem hafa líka sýnt mikið ábyrgðarleysi í þessum efnum og jafnvel tekið þátt í að snúa út úr fyrir þeim og ófrægja þá sem bent hafa á vandann.

Morgunblaðið hefur lengi vakið athygli á að í óefni stefni en það er ekki fyrr en nú, þegar enginn sem sýnast vill ábyrgur getur lengur látið eins og allt sé með felldu, sem viðhorf virðist vera að breytast meðal sumra stjórnmálamanna. Og augljóst er að almenningur er búinn að átta sig á að taka þarf í taumana og styður aðgerðir sem duga í þessum efnum.

Þar sem lausatökin hafa fengið að viðgangast of lengi verður töluvert átak að laga til í þessum málaflokki, en það er afar brýnt að það takist. Engum vafa er undirorpið að það að hafa aðrar reglur hér en annars staðar á Norðurlöndum, eins og Jón Gunnarsson fór yfir í fyrrnefndu viðtali, veldur því að fjöldi útlendinga kemur hingað til að spila á kerfið.

Það sem gera þarf er að stöðva strax þennan straum sem verið hefur inn í landið og afgreiða með hraði mál þeirra sem hingað eru komnir til að tryggja að þeim fækki sem hér eru og þar með að kostnaðurinn lækki og álagið á samfélagið minnki.

Núverandi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur sýnt vilja til að taka á í þessum málum, en hún þarf stuðning á þingi til að koma málum í gegn, bæði innan ríkisstjórnar og meðal stjórnarandstöðu, sem getur haft mikil og slæm áhrif í þessum efnum ef hún heldur áfram ómálefnalegum málflutningi. Ábyrgðin á þessu er allra þingmanna og þeir þurfa ekki að efast um að þjóðin mun fylgjast með framgöngu þeirra.