Sigurður Kári Kristjánsson
Sigurður Kári Kristjánsson
Hamfarirnar í Grindavík eru þegar orðnar þær mestu og flóknustu sem Íslendingar hafa þurft að takast á við frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973.

Sigurður Kári Kristjánsson

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með náttúruöflunum ganga nærri Grindavík og Grindvíkingum. Framtíðin er óviss og margir hafa átt um sárt að binda.

Eyðileggingin er þegar orðin mikil og enn sér ekki fyrir endann á umfangi hennar. Færustu jarðvísindamenn hafa sagt að við núverandi aðstæður sé ekki búandi í bænum enda aðstæður mjög óöruggar.

Það er erfitt að andmæla því mati.

Jörðin undir Grindavík er krosssprungin og hætturnar leynast víða. Gosið hefur innan bæjarmarkanna og svörtustu spár segja að eldsumbrotum þar sé jafnvel ekki lokið. Jörð hefur skolfið í langan tíma með tilheyrandi óþægindum og eyðileggingu.

Hamfarirnar í Grindavík eru þegar orðnar þær mestu og flóknustu sem Íslendingar hafa þurft að takast á við frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973.

Náttúruhamfaratrygging

Íslendingar eru lánsamir að hafa sýnt þá fyrirhyggju að koma á fót náttúruhamfaratryggingum í kjölfar eldgossins í Eyjum.

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) grípur fólk og kemur því til aðstoðar þegar náttúruhamfarir verða og bætir tjón sem verður á vátryggðum eignum af völdum þeirra.

Slíkt fyrirkomulag var ekki til staðar fyrir eldgosið í Eyjum.

Sterkur bótasjóður

NTÍ hefur byggt upp sterkan sjóð sem ætlað er að standa undir bótagreiðslum til þeirra sem verða fyrir tjóni.

Sjóðurinn hefur vaxið og í dag nema eignir NTÍ um 60 milljörðum króna. Þar við bætist að NTÍ hefur gert verðmæta samninga við erlend endurtryggingarfyrirtæki. Þeir geta tryggt Íslendingum 45 milljarða króna til viðbótar þegar bótaskyldir atburðir verða.

Þetta þýðir að NTÍ getur mætt afleiðingum gríðarstórra náttúruhamfara og greitt tjónþolum ríflega 100 milljarða króna í bætur, sem er fjárhæð sem um munar þegar hamfarir verða.

Hver á rétt á bótum?

Hitt er annað mál að sjóðir NTÍ verða ekki nýttir til þess að bæta hvaða tjón sem er. Almenna reglan er sú að til þess að fólk geti átt rétt til bóta úr sjóðum NTÍ þurfa eignir þess að vera brunatryggðar og hafa orðið fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara.

Bætur frá NTÍ byggjast því í grunninn á sömu sjónarmiðum og greiðslur bóta frá almennu vátryggingafélögunum Þeir sem ekki eru tryggðir eiga því ekki rétt á bótum. Það sama gildir um þá sem ekki hafa orðið fyrir tjóni. Og þú tryggir ekki eftir á.

Sérstaða hamfaranna í Grindavík

Hamfarir í Grindavík eru sérstakar og flóknari en þær sem við höfum áður þurft að takast á við.

Í fyrsta lagi hafa þær staðið í langan tíma og við vitum enn ekki hvenær þeim mun ljúka. Af þeirri ástæðu er óvíst hversu hárra bóta tjónþolar munu eiga rétt til og hvert heildartjón vegna hamfaranna verður. Reynslan sýnir að það getur breyst frá einni viku til annarrar. Þannig má telja fullvíst að í einhverjum tilvikum hafi tjón, sem NTÍ hafði metið í kjölfar jarðskjálftanna í Grindavík, aukist eftir að eldgos varð innan bæjarmarkanna.

Við slíkar aðstæður er erfitt að leggja mat á umfang tjónsins.

Í öðru lagi liggur fyrir að hluti húsa í Grindavík hefur ekki orðið fyrir skemmdum en stendur á svæði sem færustu sérfræðingar telja ekki búandi á.

Mismunandi skoðanir kunna að vera uppi um hvort þau lög sem um NTÍ gilda leiði til bótaréttar eigenda þeirra og upp að hvaða marki.

Allt hefur þetta valdið óvissu. Sú óvissa hefur eðlilega valdið óöryggi, jafnvel reiði, sem er skiljanlegt við þessar aðstæður.

Lærdóm má draga af atburðum í Grindavík

Nú hafa stjórnvöld kynnt aðgerðir í þágu Grindvíkinga. Þeim er ætlað að koma til móts við kröfur um uppkaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Þær munu koma til viðbótar við þá vernd sem NTÍ veitir.

Hvernig sem aðgerðirnar munu reynast er nauðsynlegt að draga lærdóm af atburðunum í Grindavík.

Þegar er ljóst að hamfarirnar munu ganga nærri sjóðum NTÍ. Í kjölfarið er nauðsynlegt að fjármögnun NTÍ verði tryggð svo stofnunin geti staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni, því sagan mun endurtaka sig.

Hamfarirnar ættu líka að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar um mikilvægi þess að fyrir hendi sé varasjóður, sem nefndur hefur verið Þjóðarsjóður, sem nýta má þegar tjón verður sem hvorki hefðbundnar vátryggingar né náttúruhamfaratryggingar bæta.

Nauðsyn Þjóðarsjóðs blasir eiginlega við nú þegar nauðsynlegt þykir að ráðast í uppkaup á fjölda fasteigna í Grindavík sem ekki er víst að fáist bættar, í stað þess að fjármagna kaupin úr ríkissjóði eða með sértækri skattheimtu.

Þetta reyndum við líka í covid-19-faraldrinum og í kjölfar hrunsins. Í báðum tilvikum varð þjóðarbúið fyrir meiri háttar efnahagsáföllum. Ófyrirséð röskun á samgönguinnviðum og orkuframleiðslukerfum okkar, að ógleymdum vistkerfisbreytingum, gæti í framtíðinni haft í för með sér alvarleg efnahagsleg áföll.

Slíkan sjóð mætti starfrækja til hliðar við NTÍ. Hann mætti fjármagna með afrakstri af sameiginlegum náttúruauðlindum okkar, t.d. arðgreiðslum frá Landsvirkjun eða öðrum ábata af nýtingu auðlindanna.

Reynslan sýnir að minnsta kosti að til mikils er að vinna fyrir okkur að vera vel undirbúin næst þegar áföll af þeirri stærðargráðu sem við nú upplifum dynja á okkur.

Höfundur er lögmaður og stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Höf.: Sigurður Kári Kristjánsson