Frábær Helena Bonham Carter er hæfileikarík.
Frábær Helena Bonham Carter er hæfileikarík. — Wikipedia/David Torcivia
Helena Bonham Carter sýnir stjörnuleik í sjónvarpsmyndinni Nolly sem RÚV sýnir á miðvikudagskvöldum. Þættirnir, sem eru þrír, fjalla um bresku leikkonuna Noele Gordon sem varð fræg fyrir leik sinn í sápuóperunni Krossgötum á áttunda áratug síðustu aldar

Kolbrún Bergþórsdóttir

Helena Bonham Carter sýnir stjörnuleik í sjónvarpsmyndinni Nolly sem RÚV sýnir á miðvikudagskvöldum. Þættirnir, sem eru þrír, fjalla um bresku leikkonuna Noele Gordon sem varð fræg fyrir leik sinn í sápuóperunni Krossgötum á áttunda áratug síðustu aldar. Svo var hún óvænt rekin.

Í þáttunum er dregin upp mynd af konu sem var sannarlega erfið og duttlungafull, gríðarlega stjórnsöm prímadonna en um leið sérkennilega heillandi. Hún átti sviðið hvar sem hún var og rændi um leið orku frá öðrum því hún var frek á athygli. Kona sem lifði fyrir starf sitt og fannst tilveran kollsteypast þegar hún var skyndilega rekin. Helena Bonham Carter túlkar þessa einstöku konu á afar sannfærandi hátt. Aðrir leikarar standa sig með prýði en falla algjörlega í skuggann af henni.

Það er nóg af hversdagslegum karakterum alls staðar og þess vegna er upplífgandi að sjá mynd um konu sem var óhrædd við að fara eigin leiðir og leiddi hjá sér slúðursögur sem sköpuðust um hana. Hún var nógu sjálfstæð og sterk til að láta sér standa á sama.

Það er rík ástæða til að mæla með Nolly og enn og aftur erum við minnt á hversu góðir Bretar eru í gerð sjónvarpsmynda.