Þorvaldur Steinar Jóhannesson fæddist í Reykjavík 3. mars 1944. Hann lést á Landspítalanum 18. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Steinunn Guðný Kristinsdóttir, f. 7. júlí 1914, d. 2. maí 1988, og Jóhannes Eggertsson hljóðfæraleikari, f. 31. maí 1915, d. 20. nóvember 2020.

Systkini Þorvaldar eru: Eggert Kristinn, f. 1938, d. 2021, Halldór Helgi, f. 1939, d. 1940, Halldóra Helga, f. 1941, Pétur Guðbjörn, f. 1948, Guðbjörg Ingibjörg, f. 1950, samfeðra Guðbjörg, f. 1970.

Þorvaldur giftist Guðrúnu Tryggvadóttur, f. 12. nóvember 1944, en þau skildu stuttu síðar.

Þorvaldur giftist Jóhönnu Sigurðardóttur, f. 4. október 1942, hinn 28. febrúar 1970, þau skildu árið 1986. Synir þeirra eru: 1) Sigurður Egill, f. 1972, eiginkona hans er Ragnheiður Elíasdóttir, f. 1973. Börn þeirra eru: Elías Björgvin, f. 1997, Kristófer Dagur, f. 1998, og Jóhanna Margrét, f. 2002. 2) Davíð Steinar, f. 1977, eiginkona hans er Auður Arna Oddgeirsdóttir, f. 1981. Börn þeirra eru: Markús Steinar, f. 2000, Aðalsteinn Arnar, f. 2004, Huginn Hrafn, f. 2008, Rökkvi Freyr, f. 2015, og Fríða Karítas, f. 2018.

Þorvaldur giftist Guðfinnu Hjálmarsdóttur, f. 10. apríl 1950, hinn 20. nóvember 2004 og bjuggu þau saman í 32 ár. Börn Guðfinnu eru: 1) Sigurður Guðmundsson, f. 1969, sambýliskona hans er Linda Laufdal, f. 1974. Synir þeirra eru: Guðmar, f. 1994, og Guðmundur, f. 2003. 2) Berglind Guðmundsdóttir, f. 1974, sambýlismaður Gylfi Jens Gylfason, f. 1974. Börn þeirra eru: Róbert Örn, f. 1998, Andrea Arna, f. 2005, og Daníel Örn, f. 2011.

Þorvaldur fæddist á Laugavegi 49, í húsi sem kallað var Ljónið, en flutti í Bústaðahverfið sjö ára gamall og gekk í Laugarnesskóla og síðar Réttarholtsskóla.

Þorvaldur var lærður offsetprentari og vann í nokkur ár hjá Kassagerð Reykjavíkur, þar á eftir sem sölumaður hjólbarða hjá Heklu, en síðustu tuttugu ár starfsævinnar vann hann hjá Íslandsbanka.

Þorvaldur gekk í Frímúrararegluna í Reykjavík 1987 og var hann aðstoðarminjavörður reglunnar til fjölda ára. Þorvaldur var mikill frímerkjasafnari og vann til margra verðlauna fyrir frímerkjasöfnin sín, bæði hér heima og erlendis. Þorvaldur var einnig mikill ljósmyndari og tók þátt í nokkrum ljósmyndasýningum. Hann hafði áhuga á stangveiði og var meðlimur í Stangveiðifélagi Reykjavíkur. Þorvaldur og Guðfinna ferðuðust töluvert á meðan heilsa hans leyfði en uppáhaldsborgin var Kaupmannahöfn.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju í dag, 29. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Höggið er þungt. Missir okkar er mikill en eftir sitjum við með mikið af fallegum minningum. Fyrir þær erum við ævinlega þakklát og munum halda þeim á lofti um ókomna tíð. Minningarnar og sögurnar hrannast nú upp. Það er margs að minnast.

Þú varst einstakur maður og mikill meistari. Ró og yfirvegun þín fékk alla til að líða vel í kringum þig. Þú hafðir einstaka nærveru og barnabörnin löðuðust að þér. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér og þú varst einstaklega vel lesinn maður. Fróður um alla hluti og alltaf varst þú með svörin þegar aðrir voru komnir á gat. Hjá þér var svo alltaf stutt í grínið og húmor þinn var mjög hnitmiðaður þannig að allir höfðu gaman af.

Óhætt er að segja að þú hafir verið mikill safnari. Það kom því ekki á óvart þegar þú varst orðinn safnvörður hjá frímúrurum. Þetta var þitt áhugamál. Frímerkjasafnið þitt var einstakt og búið að lifa með þér í mörg ár. Sendir bréf út um allan heim á móttakendur sem ekki voru til og fékkst bréfin til baka. Úr varð einstakt safn sem fáir ef einhverjir eiga. Einnig sendir þú svo Jóhönnu Margréti bréf bæði til Noregs og Svíþjóðar til að stytta henni stundirnar úti og fyrir það erum við ævinlega þakklát. Það lýsir vel þínu einstaka hjarta og góðmennsku.

Minningarnar eru margar. Veiðiferðirnar eru ógleymanlegar, sama hvort það var á Þingvelli, Elliðaárnar eða annars staðar. Árin voru frábær í Álftamýrinni og er þar helst að minnast að þegar ég hélt partí heima þá voru alltaf allir komnir inn í eldhús til þín. Þú varst mikill vinur vina okkar.

Skemmtilegar voru sögurnar þegar þú varst að passa strákana og ósjaldan var teiknimyndin um Tímon og Púmba sett í tækið. Best var þó að þú kláraðir alltaf myndina þó að strákarnir væru löngu sofnaðir.

Betri föður, tengdaföður og afa gætum við ekki hugsað okkur. Takk fyrir allt gamli. Hvíl í friði.

Sigurður Egill,
Ragnheiður,
Elías Björgvin,
Kristófer Dagur og
Jóhanna Margrét.

Þegar ég var 17 ára var ég svo heppin að mamma mín eignaðist kærasta sem seinna varð eiginmaður hennar, hann elsku Þorvald. Það er afskaplega sárt að þurfa að horfast í augu við það að hann sé nú farinn frá okkur. Hann var afskaplega rólegur og ljúfur maður sem gerði mömmu mína virkilega hamingjusama. Fyrst um sinn bjuggu þau hvort á sínu heimilinu en svo kom að því að Þorvaldur flytti inn til okkar mæðgna. Þrátt fyrir að ég hafi verið á unglingsaldri gekk sambúðin vel og ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma verið ósátt við nýja manninn á heimilinu. Hann var einhvern veginn alltaf til staðar fyrir mig en leyfði mömmu bara að fást við uppeldið á unglingnum. Ég var líka svo heppin að fá ekki bara nýjan stjúppabba heldur fylgdu honum einnig tveir stjúpbræður þannig að ég fór úr því að eiga einn bróður yfir í að eiga þrjá. Hópurinn stækkaði svo enn meir þegar við bættust makar okkar systkinanna og svo afa- og ömmubörnin þeirra þrettán. Þorvaldur reyndist börnunum mínum alveg einstakur afi og þau hugga sig nú við allar góðu minningarnar á þessum erfiða tíma. Það var ekki sjaldan sem þau gistu hjá ömmu og afa í Efstasundi og alltaf þótti þeim það jafn gaman. Stundum var jafnvel erfitt að ná þeim heim aftur því það var dekrað svo við þau. Afi Þorvaldur, eða afi Goggi eins og þau kölluðu hann stundum þar sem hann sagðist vera fyrirmyndin að Georgs-sparibauk Íslandsbanka, var ekki mikið fyrir að reyna að ala upp afabörnin heldur naut hann þess bara að dekra við þau og vera til staðar ef þau þurftu á honum að halda.

Þær voru ófáar sumarbústaðaferðirnar, veiðiferðirnar og dagsferðirnar sem farnar voru með Þorvaldi og mömmu þó svo að þeim hafi fækkað mikið síðustu árin þar sem heilsa hans var ekki orðin nógu góð og hann orðinn bundinn af því að komast í nýrnavélina nokkrum sinnum í viku. Í staðinn tóku við ísbíltúrar og ferðir á kaffihús. Það var afskaplega gaman að ferðast með Þorvaldi því hann var mikill grúskari og var svo fróður um margt og hann var alltaf til í að miðla fróðleik sínum.

Elsku Þorvaldur minn, þín verður sárt saknað en eftir situr þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Þú varst yndislegur stjúpi og enn betri afi.

Berglind Guðmundsdóttir.

Mikið söknum við elsku afa Þorvaldar.

Það var alltaf svo gaman að vera hjá honum og ömmu. Þegar við vorum í pössun þá gátum við treyst á að fá engjaþykkni í morgunmat eða sprengjuþykkni eins og hann kallaði það. Afi var alltaf að bulla í okkur varðandi hvað hlutir og staðir hétu. Hann kallaði Gróttuvitann til dæmis oftast Hálfvitann og sagðir yfirleitt að fyrsti jólasveinninn héti Símastaur en ekki Stekkjastaur. Hann kallaði Línu langsokk líka alltaf Línu stuttsokk. Þegar við vorum að keyra fram hjá Sundahöfn þá sagði hann að hún héti Hundahöfn. Það var ekkert lítið sem okkur fannst hann fyndinn.

Það voru margir bíltúrarnir sem við fórum í með afa og ömmu. Flestir þeirra voru miklar sögustundir því afi var að segja okkur fá öllu sem við keyrðum frá hjá hvort sem það voru staðir eða byggingar. Okkur fannst hann fróðasti maður í heima og okkur fannst hann vita allt. Afi var algjör ískall þannig að hann var duglegur í að fá okkur í lið mér sér í bíltúrunum í að suða í ömmu um að stoppa í ísbúð. Ísbúðin í Laugalæknum varð þá ansi oft fyrir valinu. Við gátum líka alltaf treyst á að það væri til ís í frystinum heima hjá þeim.

Afi var rosalega mikill safnari og okkur fannst virkilega gaman að vera í bókaherberginu hans en þar eru ýmsar gersemar sem okkur þótti gaman að skoða. Mikið klæjaði okkur oft í puttana að fikta í dótinu hans eins og litlu fornbílunum eða litlu fallbyssunum. Við vissum samt betur og létum okkur það oftast duga að horfa bara á gersemarnar og leika með það sem var leyfilegt. En samt ekki alltaf.

Afi var ekki mikið að liggja í gólfinu og leika með okkur. Hann lét ömmu um það en róleg nærvera hans var ómetanleg og við vissum að hann væri alltaf til staðar fyrir okkur ef við þyrftum að spjalla eða fá rautt Opal.

Eftir að afi fór að eiga í veikindunum sínum og orkan hans fór að minnka þá gat maður treyst á að þegar við komum í heimsókn þá var hann í skrifborðsstólnum sínum inni á skrifstofu að dunda sér í tölvunni, meðal annars við að horfa á fróðleg youtube-myndbönd.

Við gætum talað endalaust um allar minningarnar sem við eigum um afa, eða afa Gogga eins og við kölluðum hann stundum, sérstaklega þegar hann var kominn í kjólfötin sín og mamma sagði að hann væri eins og mörgæs. Hann sagði þá að hann væri fyrirmyndin af Georg sparibauk Íslandsbanka og var mjög ánægður með það.

Elsku afi, takk fyrir allt.

Þín afabörn

Róbert Örn, Andrea Arna og Daníel Örn.