Suðurland Grímur Hergeirsson lögreglustjóri og Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri hér saman á vaktinni.
Suðurland Grímur Hergeirsson lögreglustjóri og Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri hér saman á vaktinni.
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nýmæli í starfi Lögreglunnar á Suðurlandi er að sólarhringsvakt verður framvegis á lögreglustöð á Hvolsvelli. Nú gilda þar 24 stundir en með þessu stækkar verulega sá hluti umdæmis Suðurlandslögreglunnar þar sem sólarhringsvöktun er, en slík var til skamms tíma einungis á Selfossi. Eftir þessa breytingu eru varðsvæði lögreglunnar á Suðurlandi þrjú; vestursvæði, miðsvæði og austursvæði.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nýmæli í starfi Lögreglunnar á Suðurlandi er að sólarhringsvakt verður framvegis á lögreglustöð á Hvolsvelli. Nú gilda þar 24 stundir en með þessu stækkar verulega sá hluti umdæmis Suðurlandslögreglunnar þar sem sólarhringsvöktun er, en slík var til skamms tíma einungis á Selfossi. Eftir þessa breytingu eru varðsvæði lögreglunnar á Suðurlandi þrjú; vestursvæði, miðsvæði og austursvæði.

Frá Svínahrauni í Lón

Vestursvæði, sem svo er kallað, nær frá Svínahrauni austur undir Eyjafjöll. Um leið og sólarhringsvakt á Hvolsvelli er sett á felur breytingin einnig í sér aukinn stuðning inn á miðsvæði embættisins, sem nær frá Mýrdal austur á Skeiðarársand, með stöðvum í Vík og á Klaustri. Þótt ekki sé svigrúm til að hafa sólarhringsvakt á miðsvæði eins og sakir standa verður með sólarhringsvakt á Hvolsvelli styttra viðbragð til stuðnings inn á það svæði ef upp koma stærri verkefni þar eystra til dæmis að nóttu til. Þriðja varðsvæði Lögreglunnar á Suðurlandi er svonefnt austursvæði, sem nær frá Skaftafelli austur í Lón. Því svæði er sinnt frá Höfn í Hornafirði.

„Hér hefur lengi verið stefnt að sólarhringsvakt á Hvolsvelli og við töldum best að gera það með því að breyta varðsvæðum,“ segir Grímur Hergeirsson lögreglustjóri.

Samfélag í örri þróun

Suðurland var gert allt að einu lögregluumdæmi með lögum sem tóku gildi hinn 1. janúar 2015 en þar undir er um þriðjungur flatarmáls Íslands. Í raun má svo segja að með bættum samgöngum sé vestursvæði Suðurlands orðið eitt samfélag; svæði sem er í örri þróun og telst eitt atvinnusvæði. Íbúum fjölgar hratt og með fjölgun ferðamanna og mikilli uppbyggingu í þjónustu, einkum ferðaþjónustu, hefur samhliða aukist álag á lögreglu. Umferðareftirlit og viðbrögð vegna óhappa og slysa eru þar stór þáttur.

„Talningar á bílum og fólki á helstu ferðamannasvæðum liggja fyrir. Markmið okkar er alltaf að stýra mönnun á þau svæði þar sem álag er mest hverju sinni. Má í þessu samhengi nefna dæmi um fjölsótta ferðamannastaði í umdæminu, svo sem Þingvelli, Gullfoss, Geysi, Reynisfjöru og Jökulsárlón. Þá eru á Suðurlandi um 8.000 sumarhús: mikil umferð tengist þeim og fólk hefur þar jafnvel búsetu. Vegna alls þessa þarf lögreglan að vera í færum til að sinna skyldum og veita þá þjónustu sem henni ber. Áherslubreytingar okkar nú taka meðal annars mið af þessu og við erum afskaplega ánægð með að ná þessum áfanga,“ segir Grímur.

Bæta þjónustu og viðbragð

Víða af Suðurlandi hefur verið kallað eftir því að þjónusta viðbragðssveita á helstu ferðamannastöðum verði bætt, sem og ýmsir fleiri innviðir. Þessi sjónarmið tekur Grímur undir og tekur Öræfasveit sem dæmi; þaðan sé langt í allar bjargir. Því sé lögreglan áfram um að efla þjónustu og viðbragð á svæðinu eftir því sem kostur er. Í fyrrasumar var í gangi tilraunaverkefni þar sem sjúkraflutningamaður var staðsettur tímabundið í Skaftafelli og það hafi reynst vel. Þá hefur lögreglan á Suðurlandi síðustu ár bætt við sérstöku umferðareftirliti í Öræfum yfir sumarmánuðina sem lögreglumenn á austursvæði umdæmisins hafi sinnt. Þetta hafi verið mikilvæg viðbót við löggæslu á Suðurlandi og stefnt er að því að halda áfram á sömu braut.

„Við erum sífellt að rýna okkar vinnu og skipulag og leita leiða til að bæta þjónustu og viðbragð. Að hafa náð að stækka það svæði umdæmisins sem hefur sólarhringsvakt er gleðilegur áfangi,“ segir Grímur Hergeirsson að síðustu.