[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil aukning er á skipaumferð til Húsavíkur í ár miðað við árið í fyrra. Annars vegar hefur mikil fjölgun orðið á skipakomum í tengslum við starfsemi kísilvers PCC á Bakka en það framleiðir nú á fullum afköstum á ný eftir að hafa keyrt á hálfum afköstum á síðasta ári

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikil aukning er á skipaumferð til Húsavíkur í ár miðað við árið í fyrra. Annars vegar hefur mikil fjölgun orðið á skipakomum í tengslum við starfsemi kísilvers PCC á Bakka en það framleiðir nú á fullum afköstum á ný eftir að hafa keyrt á hálfum afköstum á síðasta ári. Hins vegar er útlit fyrir mikla fjölgun á komum skemmtiferðaskipa. Í fyrra kom 41 skemmtiferðaskip til Húsavíkur en í ár er gert ráð fyrir að þangað komi 54 slík. Nemur aukningin á milli ára 32%.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi, segir í samtali við Morgunblaðið að hvort tveggja séu gleðitíðindi. Skipakomurnar auki tekjur hafnarinnar og auki umferð ferðamanna um svæðið. Sú umferð styrki svo þjónustufyrirtækin á svæðinu.

„Stór hluti þeirra ferðamanna sem komið hefur með skemmtiferðaskipum til Akureyrar hefur hoppað beint upp í rútu og farið í hringferð um Þingeyjarsýslu og jafnvel í hvalaskoðun á Húsavík. Nú sýnist mér að meiri áhugi sé að koma bara hingað beint,“ segir hún.

Á síðasta ári var talsverð umræða um komur skemmtiferðaskipa og mengun af þeirra völdum. Vildu margir sjá færri skipakomur hingað, til að mynda á Ísafjörð og Akureyri. Katrín segir þessi skemmtiferðaskip hvort eð er á siglingu um landið og því sjái hún ekkert því til fyrirstöðu að þau komi við á Húsavík. Hún bendir jafnframt á að talsvert fleiri skipakomur hafi verið á t.d. Ísafjörð og Akureyri heldur en á Húsavík.

„Mér finnst mjög jákvætt að við séum að fjölga skipakomum hingað. Það vilja margir fara Demantshringinn og sjá það sem er í boði hér í kring. Svo er verið að horfa til þess möguleika að fólk komi í land á Húsavík en fari svo aftur um borð á Raufarhöfn. Það gæti verið góður kostur enda margt skemmtilegt að sjá á þeirri leið.“