80 ára Ágúst Ingiþórs og Ingvi Ingiþórs slitu barnsskónum í Keflavík. Ágúst stundaði sjómennsku sem ungur maður frá Keflavík og lauk Stýrimannaskólanum 1975. Ágúst gekk inn í útgerð föður síns og sóttu þeir feðgar sjóinn á Erling KE 20 í nokkur ár

80 ára Ágúst Ingiþórs og Ingvi Ingiþórs slitu barnsskónum í Keflavík. Ágúst stundaði sjómennsku sem ungur maður frá Keflavík og lauk Stýrimannaskólanum 1975. Ágúst gekk inn í útgerð föður síns og sóttu þeir feðgar sjóinn á Erling KE 20 í nokkur ár. Upp úr 1976 flutti Ágúst til Noregs með tilvonandi eiginkonu sinni. Hann hóf nám í radíótæknifræði og lauk því með ágætum. Að námi loknu hóf Ágúst störf hjá Electrolux í Noregi sem fólst aðallega í stjórn vélmenna. Verksmiðjan var lögð niður upp úr 2006 vegna harðrar samkeppni við austurblokkirnar sem voru að ganga inn í Evrópusambandið. Starfslok voru því hjá fyrirtæki sem framleiddi loftræstikerfi sem nýttu endurnýjanlega orku.

Ingvi er véltæknifræðingur frá Tækniskóla Álaborgar. Haustið 1971 hóf Ingvi störf hjá HF. Raftækjaverksmiðjunni Hafnarfirði (RAFHA) og tók við forstjórastarfinu 1979. Nú er ný kynslóð tekin við stýrinu, börnin hans þrjú, Egill Jóhann sem framkvæmdastjóri, Sólveig Heiða sem bókari og gjaldkeri og Kristinn Þór sem stjórnarformaður.

Ingvi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir JC Hafnarfjörð þar á meðal ritari, gjaldkeri og lögsögumaður fyrir landsstjórn JC Island á árunum 1973 til 1984. Ingvi var sæmdur Senator JCI 1988 sem er æðsta viðurkenning hreyfingarinnar. Ingvi var formaður Tæknifræðingafélags Íslands 1981-1982 og formaður Félags raftækjasala 1988-2004. Hann sat líka í aðalstjórn samtakanna svo og í Samtökum verslunar og þjónustu.


Fjölskylda Maki Ágústs er Borgný Seland, f. 1946. Börn: Karl Ove, f. 1978, Elín Edda, f. 1980, og Kristin, f. 1980. Barnabörnin eru sex. Börn Ingva með fv. eiginkonu, Sigríði Jónu Egilsdóttur, f. 1947, eru Sólveig Heiða f. 1966, Kristinn Þór, f. 1969, og Egill Jóhann, f. 1979. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin fjögur. Foreldrar Ágústs og Ingva voru hjónin Ingi Þór Jóhannsson, f. 1916, d. 2010, útgerðarmaður í Keflavík, og Sigríður Narfheiður Jóhannesdóttir, f.1914, d. 2003, húsmóðir.