Í tímaritinu Són, sem barst fyrir fáum dögum inn um lúguna, kennir ýmissa grasa. Það er helgað óðfræði og ljóðlist og gefið út af Óðfræðifélaginu Boðn. Forvitnilegt er að fræðast um ljóð sem lesin eru og sungin á leikskólum, en mörg þeirra kannast…

Í tímaritinu Són, sem barst fyrir fáum dögum inn um lúguna, kennir ýmissa grasa. Það er helgað óðfræði og ljóðlist og gefið út af Óðfræðifélaginu Boðn.

Forvitnilegt er að fræðast um ljóð sem lesin eru og sungin á leikskólum, en mörg þeirra kannast eldri kynslóðir við úr vísnabókinni góðu, sem Símon Jóhannes Ágústsson prófessor tók saman og myndskreytt var svo skemmtilega af Halldóri Péturssyni.

Í ítarlegri umfjöllun Önnu Þorbjargar Ingólfsdóttur kemur fram að bæði í rafrænu og útprentuðu efni frá kennurum sem dreift er til barnanna njóta enn mestra vinsælda ljóð á borð við Krummi svaf í klettagjá, Krummi krunkar úti, Fljúga hvítu fiðrildin, Afi minn fór á honum Rauð og Það á að gefa börnum brauð. Svo er þar vísan góða eftir Hjallalands-Helgu:

Litla Jörp með lipran fót

labbar götu þvera.

Hún mun seinna á mannamót

mig í söðli bera.

Þá má lesa umfjöllun um nýjustu bókina í ritröðinni Austfirsk ljóðskáld, en þar fjallar Ragnar Ingi Aðalsteinsson um systkinin frá Heiðarseli og eiga þau öll ljóð í bókinni. Ein þeirra var Arnheiður Guðjónsdóttir og sagði hún í viðtali 1993 að í Heiðarseli var „sú eldavél sem lengst hefur komist frá sjó hér á landi“. Meitluð er þessi staka Arnheiðar:

Sumra logar beiskju-bál

þótt brosið kviki á vörum.

Er sem leynist eitrað stál

undir hægum svörum.

Einar bróðir hennar kveður um hlutskipti lítilmagnans í vísunni Kona í fortíð:

Þegar dags var dvínuð rún,

dáin glóð í stónum,

kuldabólgnum höndum hún

hugði að slitnu skónum.

Þá er þessa skammdegisvísu Hallveigar að finna í bókinni:

Inni geymt er orf og spik,

ærnar ná ei bíta.

Jörðin er eins og liðið lík

í líninu sína hvíta.

Skáldið Tómas Guðmundsson var ánægður með hvernig honum tókst til í þessari vísu:

Hárin mér á höfði rísa

hugsi ég um vænleik þinn.

Þetta er annars ágæt vísa

einkum seinni parturinn.