Miðbakki Fjöldi leiðangursskipa lagðist að bryggju í Gömlu höfninni í fyrra.
Miðbakki Fjöldi leiðangursskipa lagðist að bryggju í Gömlu höfninni í fyrra. — Morgunblaðið/sisi
Faxaflóahafnir munu á næstunni setja upp á austurbakka Gömlu hafnarinnar þrjá afgreiðslustaði fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn. Staðirnir verða snjallvæddir að danskri…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Faxaflóahafnir munu á næstunni setja upp á austurbakka Gömlu hafnarinnar þrjá afgreiðslustaði fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn. Staðirnir verða snjallvæddir að danskri fyrirmynd þar sem skip og bátar geta tengst rafmagni og vatni með sjálfsafgreiðslu.

Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna segir að þetta sé gríðarlega mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið þar sem verið er að stíga stór skref í átt að grænni og skilvirkari höfnum. „Það er sérlega ánægjulegt að það skuli vera hér í Gömlu höfninni okkar í hjarta höfuðborgarinnar,“ bætir Sigurður Jökull við.

Hafnargerðinni í Reykjavík lauk fyrir rúmri öld, eða árið 1917. Austurhöfnin er eins og nafnið bendir til austasti hluti hafnarinnar. Við Austurbakka standa nýbyggð hús með íbúðum, verslunum og veitingastöðum. Þar stendur einnig lúxshótelið Reykjavík Edition.

Faxaflóahafnir hófu nýlega framkvæmdir í austurhöfninni. Lagðar verða lagnir úr dreifistöð rafmagns á Faxagarði að nýjum tengipunkti landtengingar á Miðbakka.

Áætluð verklok eru í maí 2024. Faxaflóahafnir geta þar með boðið upp á landtengingar fyrir skemmtiferðaskipin, bæði á Miðbakka sem og á Faxagarði.

Jafnframt verður boðið upp á afhendingu á heitu vatni á Miðbakka sem gæti nýst til hitunar um borð í skemmtiferðaskipum meðan þau liggja við bakka. Byrjað var að bjóða upp á landtengingu rafmagns á Faxagarði í fyrrasumar.

Í fyrrasumar komu samtals 148.615 farþegar leiðangursskipa til Reykjavíkur. Þeir komu til Keflavíkurflugvallar og stigu um borð í skipin í Reykjavík. Að siglingu lokinni héldu þeir til síns heima með flugi. Smærri leiðangursskipin lögðust að Miðbakka og Faxagarði, þar sem farþegaskiptin fóru fram.

Í framtíðinni er stefnt að því að skemmtiferðaskip leggist einnig að Austurbakkanum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson