Átök Bandaríski herinn hefur gert árásir á Húta á svæðum sem eru undir stjórn uppreisnarmannanna í Jemen.
Átök Bandaríski herinn hefur gert árásir á Húta á svæðum sem eru undir stjórn uppreisnarmannanna í Jemen. — AFP
Þrír bandarískir hermenn féllu og 25 eru særðir eftir drónaárás á bækistöð bandaríska hersins í Jórdaníu í gær. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að draga gerendurna til ábyrgðar og lofar því að hefna þeirra sem létust

Kári Feyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Þrír bandarískir hermenn féllu og 25 eru særðir eftir drónaárás á bækistöð bandaríska hersins í Jórdaníu í gær. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að draga gerendurna til ábyrgðar og lofar því að hefna þeirra sem létust.

Þetta er í fyrsta skipti sem bandarískir hermenn eru drepnir í árás á Mið-Austurlöndum síðan stríð Ísraels og Hamas-samtakanna hófst á Gasa-svæðinu í október. Tíðindin eru talin til þess fallin að auka enn frekar spennuna sem er fyrir hendi á svæðinu og ýta undir víðtækari átök sem tengjast Íran beint.

Skilaboð til Bandaríkjanna

Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas-hryðjuverkasamtakanna, sagði dráp hermannanna vera skilaboð til bandarískra stjórnvalda. „Ef mannfalli óbreyttra borgara á Gasa-svæðinu linnir ekki gætu Bandaríkin staðið frammi fyrir allri [múslima]þjóðinni.“

Árásin hefur vakið mikla reiði meðal Bandaríkjamanna. Biden var í opinberri heimsókn í Suður-Karólínu þegar hann tjáði sig um árásina. „Við áttum erfiðan dag í gær í Mið-Austurlöndum. Við misstum þrjár hugrakkar sálir í árás á eina af bækistöðvum okkar,“ sagði Biden. Eftir nokkra stund bætti hann við: „Og við munum svara.“

Í yfirlýsingu frá Biden segir að þrátt fyrir að verið sé að safna saman staðreyndum um árásina sé vitað að hún var framin af „róttækum vígahópum sem studdir eru af Íran og starfa í Sýrlandi og Írak“.

Biden sagði Bandaríkin „munu draga alla ábyrga til ábyrgðar þegar og á þann hátt sem við kjósum“.

Þá sagði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, frá því í yfirlýsingu að hann væri „reiður og sorgmæddur yfir dauðsföllum og meiðslum bandarískra hermanna“.

Muhannad Mubaidin, talsmaður Jórdaníustjórnar, sendi samúðarkveðjur til Bandaríkjanna vegna fórnarlamba árásarinnar. Hann sagði ekkert mannfall hafa orðið vegna árásarinnar í jórdanska hernum.

Átökin í Mið-Austurlöndum þykja fela í sér áskorun fyrir Biden en gengið verður til forsetakosninga vestanhafs seinna í ár. Ýmsir stjórnmálamenn, einkum repúblikanar, hafa notað árásina til að koma höggi á Biden. Sagði Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og núverandi frambjóðandi, ástandið vera „afleiðingu veikleika Joe Bidens og uppgjöf“. Hann segir Biden bera ábyrgð á þessum „hræðilega degi“.

Að sögn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafa bandarískar hersveitir og bandamenn í Írak og Sýrlandi verið skotmark í meira en 150 árásum síðan um miðjan október. Margar af árásunum hafi verið framdar af íslömsku andspyrnuhreyfingunni í Írak. Hreyfingin samanstendur af hópum sem tengjast Íran og eru andvígir stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael í stríðinu á Gasa-svæðinu.

Hreyfingin sagði í gær að miðað hefði verið á bandaríska hermenn með drónum á þremur staðsetningum í Sýrlandi, þar á meðal tvær bækistöðvar nálægt landamærum Íraks, Sýrlands og Jórdaníu.

Spenna í Mið-Austurlöndum

Nýjasta lotan í átökum Ísrael og Hamas-hryðjuverkasamtakanna hófst þegar hryðjuverkasamtökin gerðu árás 7. október sem leiddi til dauðsfalla 1.140 óbreyttra borgara.

Frá árásinni í október hafa Bandaríkin veitt Ísrael hernaðaraðstoð. Ísraelar hafa staðið fyrir linnulausri hernaðarsókn æ síðan sem hefur kostað fjölda óbreyttra borgara lífið. Dauðsföll þeirra hafa vakið reiði um allt svæðið og ýtt undir ofbeldi hjá hópum sem njóta stuðnings Írans í Líbanon, Írak, Sýrlandi og Jemen.

Hluti átakanna í Líbanon hefur verið takmarkaður við næstum dagleg skipti á skotum milli Hisbollah og Ísraels, en bandarískar hersveitir eiga beinan þátt að átökunum í Írak og Sýrlandi, þar sem þær hafa sætt ítrekuðum árásum, sem og í Jemen.

Uppreisnarmenn úr röðum Húta, sem eru studdir af Íran, hafa yfir tveggja mánaða skeið framið árásir á skipaflutninga á Aden-flóa. Hópurinn segist ráðast á skip sem tengjast Ísrael til stuðnings Palestínumönnum á Gasa-svæðinu.

Þessu hafa Bandaríkjamenn og Bretar svarað með tveimur sameiginlegum árásum gegn Hútum. Þá hafa bandarískar hersveitir jafnframt gert loftárásir gegn uppreisnarmönnunum sem hafa lýst hagsmunum Bandaríkjanna og Bretlands sem „lögmætum skotmörkum“.

Vaxandi ofbeldi í mörgum hlutum Mið-Austurlanda hefur vakið ótta við víðtækari átök í heimshlutanum.

Höf.: Kári Feyr Kristinsson