Halldór Árnason fæddist í Reykjavík 29. janúar 1970. Hann varð bráðkvaddur 3. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Árni Guðjónsson, f. 23. október 1928, d. 1. september 2003, og Steinunn Finnborg Gunnlaugsdóttir, f. 17. maí 1939, d. 23. júlí 2023.

Halldór var yngstur fimm systkina. Hin eru: Sigríður, f. 2. febrúar 1959, gift Ara Gunnarssyni. Börn Sigríðar úr fyrra hjónabandi eru Steinunn Arna, Guðjón Örn og Anna. Börn Sigríðar og Ara eru Þórey Björk og Guðrún Gígja; Elísabet, f. 18. ágúst 1960, gift Bjartmanni Elíssyni. Börn Elísabetar úr fyrra hjónabandi eru Árni Stefán, Rebekka Dagmar og Vilhjálmur; Guðjón, f. 15. júlí 1964, kvæntur Sólveigu Pétursdóttur. Börn þeirra eru Hulda, Árni, Ingi Freyr og Þórey; Árdís Gunnur, f. 20. mars 1966. Börn hennar eru Einar Ágúst, Atli Steinn og Sigurður Árni. Barnsfaðir Árdísar Gunnar er Stefán Jóhann Baldvinsson.

Halldór var ókvæntur og barnlaus.

Halldór bjó í austurbæ Kópavogs frá fæðingu og fram á háskólaár. Á sumrin var hann í sveit hjá föðurfjölskyldunni á Neðri-Þverá í Fljótshlíð. Halldór gekk í Digranesskóla og síðar Víghólaskóla. Hann hóf nám í MR árið 1985 og lauk stúdentsprófi 1989 af eðlisfræðibraut I. Halldór tók tvisvar þátt í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema með frábærum árangri sem tryggði honum þátttöku á Ólympíuleikunum í stærðfræði, í Ástralíu 1988 og Vestur-Þýskalandi 1989.

Halldór hóf nám við Háskóla Íslands árið 1989 og lauk lokaprófi í byggingarverkfræði 1993. Hann hlaut Valle-styrk til meistaranáms við umhverfis- og byggingarverkfræðideild University of Washington í Seattle. Hann hlaut MSCE-gráðu árið 1995 og hóf þá doktorsnám í straumfræði við sama háskóla. Halldór brautskráðist með doktorsgráðu árið 2005. Hann starfaði við rannsóknir og kennslu á námsárunum í Seattle, þar sem hann bjó í 12 ár.

Að loknu námi flutti Halldór heim. Árið 2006 hóf hann störf á VST, síðar Verkís, og starfaði þar síðan. Hann varð hluthafi í Verkís árið 2008. Halldór vann sem sérfræðingur í straumfræði og varð fljótt einnig sérfræðingur í kostnaðarfræðum.

Halldór var virkur innan Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ). Hann var stjórnarmaður í sjúkrasjóði VFÍ frá 2011, formaður frá 2017. Þá var hann varamaður í stjórn Lífsverk 2015-2018 og Lífeyrissjóðs verkfræðinga 2013-2014 og 2010-2011. Hann sat í stjórn kjaradeildar VFÍ 2011-2016, var varaformaður 2015-2016. Halldór var stundakennari í kostnaðarfræðum við Háskólann í Reykjavík 2011-2013.

Halldór átti mörg áhugamál. Hann safnaði bókum og átti mikið bókasafn. Ættfræði var Halldóri hugleikin og byggði hann upp gagnasafn um ættir sínar. Halldór naut ferðalaga um Ísland og hafði lokið markmiðum sínum um að heimsækja alla þéttbýlisstaði og keyra alla skráða vegi. Hann var byrjaður að kanna hálendisslóða. Halldór var leikhúsáhugamaður og hélt bókhald yfir sóttar leiksýningar frá 2006. Halldór átti miða á 472. sýninguna þegar hann féll frá.

Útför Halldórs fer fram frá Digraneskirkju í dag, 29. janúar 2024, klukkan 13.

Það er erfitt að hugsa til þess að Halldór frændi minn sé dáinn. Hann fæddist 29. janúar 1970, fimm dögum á undan mér, en þegar ég fæddist á Ísafirði fékk Stenný mamma hans og móðursystir mín fréttirnar suður á fæðingardeildina að það væri komin stelpa fyrir vestan. Í gegnum lífið lágu leiðir okkar saman í fjölskylduhittingum en ég á mjög ljúfa minningu um þegar ég var send í sveit í Kópavoginn eitt sumarið og við Halldór gátum dundað okkur úti að leika allan daginn. Gengum á sandkassabrúninni og einn hringur þýddi eitt ár og svo spunnum við alls konar ævisögur eftir því sem við náðum hærri aldri og sá vann sem komst fleiri hringi.

Halldór var afskaplega vel lesinn, rólegur með afskaplega þægilega nærveru. Það var alltaf gaman að spjalla við hann um allt mögulegt. Ég leitaði líka til hans þegar ég var að spá í eitthvað faglegt því það var öruggt að þar fékk ég góð ráð og hlutlausa skoðun á málum. Það var svo 2018 sem við ákváðum að fara út að borða í tilefni af afmælinu okkar og stefnan var að gera það að árlegum viðburði. Hins vegar settu heimsviðburðir smá strik í þann reikning. Við ræddum það fyrir jólin að endurvekja afmælishittinginn en óraði nú ekki fyrir að það yrði jarðarför á afmælinu hans.

Stenný og Halldór komu ófáar ferðirnar vestur í sumarbústaðinn okkar í Útlegð, en það var einmitt Halldór sem fékk þá hugmynd að það væri mjög viðeigandi nafn á bústað í Haukadal í Dýrafirði. Í Útlegð var mikið spilað og spilaglaðir í fjölskyldunni nutu þess að fá þau í heimsókn en það voru alltaf notalegar stundir.

Við hittumst reglulega síðustu árin á hinum ýmsu viðburðum þar sem systurnar hittust en mikill samgangur hefur alltaf verið hjá þeim systkinum. Síðasta sumar kvöddum við mömmu hans og töldum okkur eiga góðan tíma fram undan en það verða ekki fleiri hringir hjá Halldóri til að spinna sína ævisögu. Ég kveð góðan vin og frænda með söknuði og þakklæti.

Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Það er enn þá óraunverulegt að Halldór frændi sé farinn. Það var bara síðasta sumar sem við Halldór sátum saman hjá ömmu Steinunni á Landakoti, hennar síðustu ævidaga, og við ræddum saman um lífið og tilveruna. Engan hefði grunað að hann yrði næstur í fjölskyldunni til að kveðja, 53 ára gamall. En lífið er hverfult og við kveðjum nú ástkæran vin og frænda allt, allt of snemma.

Halldór var yngsti bróðir mömmu og bara nokkur ár á milli okkar í aldri. Ég var mikið hjá ömmu og afa sem barn og unglingur og við Halldór tengdumst sterkum böndum og höfum átt góðan vinskap alla tíð. Lengstu símtölin voru yfirleitt við Halldór, þar sem við gátum talað um allt milli himins og jarðar, hvort sem það voru áhugamálin, fjölskyldan eða málefni líðandi stundar. Halldór var boðinn og búinn að hjálpa þegar leitað var til hans, ekki síst þegar aðstoðar var þörf við að pússa til námsritgerðir.

Hann var mikill ferðaáhugamaður og við fórum saman í ófá ferðalög um landið. Að ferðast með Halldóri gerði google eiginlega óþarft, hann var óþrjótandi viskubrunnur um staði og viðburði og þreyttist ekki á að deila með samferðafólki sögum frá þeim slóðum sem var verið að ferðast um. Hann rataði líka út um allt og þekkti landið eins og aðrir þekkja sitt nánasta umhverfi.

Við Halldór deildum áhuga á leikhúsi og það voru ófá skiptin þar sem við hittumst á aðalæfingu og ræddum verkið svo fram og til baka úti á bílaplani eftir sýningu. Halldór var líka mjög duglegur að mæta á alls kyns viðburði og sýningar og lét sig ekki vanta á viðburði hjá sínu frændfólki.

Halldór hafði alltaf gaman af því að spila og síðasta spilið okkar saman tókum við núna á jólakvöld, þegar hann kom í mat til okkar fjölskyldunnar. Þetta voru fyrstu jólin eftir að amma Steinunn dó en þau Halldór höfðu alltaf eytt jólunum saman, fyrir utan þau jól sem hann var erlendis í námi. Mér þótti því mjög vænt um að hann kæmi til okkar á jólakvöld í hangikjöt og spil og verður þessi stund okkur óendanlega dýrmæt í minningabankann.

Halldórs verður sárt saknað en minning um einstakan mann lifir í hjörtum okkar allra.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Steinunn Arna
og fjölskylda.

Það eru forréttindi að eiga góðan vin sem leita má til um stórt sem smátt í leik sem starfi. Vin í skóla sem leysir með þér verkefni, reiknar með þér gömul próf, les yfir íslenskuritgerðina, skrifar glósur af töflunni og þú eftir honum þar til þú sérð ekki lengur á blöðin hans og verður að fá þér gleraugu. Vin sem keyrir þig í skólann þegar þú ert fótbrotinn, hjólar með þér í skólann, fer með þér í bíó, kemur um langan veg í heimsókn og er alltaf tilbúinn að hlusta á endalausu aulabrandarana þína.

Halldór Árnason var þessi góði vinur minn.

Halldór og ég sóttum sama grunnskóla, Digranesskóla. Við urðum þó fyrst vinir þegar við byrjuðum í menntaskólanum, völdum báðir stærðfræðideild og síðan eðlisfræði I, X bekk. Halldór var góður námsmaður, sterkur í stærðfræði, keppti á Ólympíuleikum, skarpur, rökfastur, fróður, með einstaklega gott minni og keppti í Gettu betur.

Í 3. bekk vorum við reknir úr skólanum. Þannig var að bekkurinn okkar tók þátt í fótboltamóti. Þeir sem ekki kepptu töldu sig hafa fengið frí til að hvetja sína menn. Þegar við mættum í næstu kennslustund tilkynnti yfirkennarinn að allur bekkurinn væri rekinn fyrir skróp. Okkur til léttis var brottreksturinn gleymdur næsta dag. Síðar höfðum við gaman af að rifja upp að hafa verið reknir úr skóla fyrir íþróttaáhuga.

Eftir stúdentspróf skráðum við okkur báðir í byggingarverkfræði við HÍ og vorum sem fyrr miklir og góðir félagar. Þá fórum við oft í kvikmyndahús. Helst voru valdar spennumyndir af ýmsu tagi. Í lok kvikmyndar var spurt »Hver var svo boðskapurinn með þessari mynd?», á eftir fylgdi þögn svo gengum við út úr bíósalnum.

Halldór naut sín í verkfræðinni bæði í náminu og með bekkjarfélögum. Hann hafði ánægju af rökræðum, ekki síst við glaðbeittan kennara. Halldór hafði gaman af lýsingu á sér sem kom fram þegar samnemandi hafði beðið um að munurinn á þver og normal í sambandi við kraftvigra yrði útskýrður. Háskólakennarinn gaf Halldór sem dæmi: «Halldór er þver en langt frá því að vera normal».

Frá HÍ útskrifuðumst við með lokapróf vorið 1993. Þá um haustið hélt Halldór, með Valle-skólastyrk til Seattle í meistaranám og síðan áfram í doktorsnám, en ég hélt annað í nám. Við héldum traustu sambandi og hittumst oft í fríum.

Að loknu doktorsnámi hóf Halldór störf hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, síðar Verkís. Við vorum þar með orðnir samstarfsmenn. Halldór varð fljótt ómissandi og mikilvægur ráðgjafi á stofunni. Við Halldór unnum stundum í sömu verkefnum en einnig var gott að leita til hans almennt. Það var hægt að treysta á Halldór hvort sem var um að ræða hans sérsvið, kostnaðaráætlanir og óvissugreiningu eða annað. Halldór var varkár í orðum, íhugull og vandaði svör sín. Væri hann ekki viss, beið hann með svar þar til hann hafði skoðað málið og kom þá fljótt aftur með niðurstöðu.

Halldór var vinur minn og fjölskyldunnar. Hann var guðfaðir barna okkar Fjólu. Það er þungt að missa traustan vin. Halldór Árnason er kvaddur með söknuði.

Við vottum fjölskyldu Halldórs samúð okkar.

Eggert Vilberg Valmundsson.

Með djúpum söknuði kveð ég kæran vin minn Halldór Árnason er nú hefur lagt í síðustu ferðina. Ég kynntist Halldóri fyrir 27 árum þegar við vorum í framhaldsnámi og við urðum fljótt góðir vinir. Hefur sú vinátta haldist og vaxið. Halldór var viðræðugóður og skemmtilegur. Hann var fróður um hin fjölbreyttustu mál og með þekkingu á heimsmælikvarða á sínum sérsviðum. Oft hef ég rætt við hann svo tímunum skiptir.

Halldór hafði gaman af sögum og kunni því best þegar maður færði daglega viðburði í söguform. Hann var meistari í að segja frá einföldustu þáttum lífs síns í formi sagna þar sem endirinn kom iðulega á óvart. Halldór hafði áhuga á bókmenntum, átti margar bækur og var vel að sér. Hann kunni ógrynni íslenskra ljóða og lagatexta. Oft lékum við þann leik að ég nefndi lítið brot, iðulega það eina sem ég mundi, og hann tók við og flutti allt ljóðið.

Halldór fékk brennandi áhuga á leiklist. Hann sótti leikhús landsins, stór og smá, af miklu kappi. Ég mun aðeins hafa farið með honum á 78 sýningar samkvæmt nákvæmri talningu Halldórs. Þá hafði Halldór gaman af hvers kyns skoðunarferðum, gönguferðum, hjólaferðum, bílferðum og flugferðum, innan lands sem utan. Hann fór í margar ferðir með fjölskyldu, vinum og samstarfsfólki, en líka oft einn.

Minnist ég skemmtilegra daga með Halldóri og óteljandi málsverða, sem nú virðast of fáir. Margt áttum við eftir. Allt bíður það uns við hittumst á betri stað.

Halldór var traustur vinur. Hann var góðhjartaður og næmur fyrir fólki, fylginn sér og rökfastur, með mikla réttlætiskennd. Halldór var ötull, minnisgóður og nákvæmur. Halldór sagði helst já þegar til hans var leitað, hvert sem tilefnið var. Missirinn er mikill. Ég þakka fyrir vináttu Halldórs og allar þær stundir sem gáfust. Ég sendi fjölskyldu Halldórs, vinum hans og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur og óska þeim Guðs blessunar.

Guðmundur Freyr Úlfarsson.

Halldór Árnason var bekkjarbróðir minn í MR og í byggingarverkfræði við HÍ, samstarfsmaður á Verkfræðistofunni og vinur. Halldór var góðum gáfum gæddur og minni hans óbrigðult. Hann var snjall stærðfræðingur, góður íslensku- og málamaður. Áhugamál hans voru fjölbreytt og setti hann sér markmið um þau sem annað sem var honum mikilvægt. Halldór var hlédrægur á skólaárunum, en fljótt kom í ljós einstaklega fróður og skemmtilegur bekkjarbróðir. Hann naut sín betur í fámenni en fjölmenni, en var félagslyndur og tók þátt í flestum viðburðum skóla sem vinnustaðar. Hann naut virðingar og vinsælda þeirra sem hann þekktu.

Á háskólaárunum hjóluðum við þrjú saman í skólann frá Kópavogi í Háskóla Íslands um Fossvog. Á þeim tíma ferðuðust fáir á hjóli að vetri til. Við Eggert klæddumst útivistarfötum með skólabækurnar í bakpoka. Halldór hjólaði í leðurjakka og gallabuxum. Undan leðurjakkanum gægðist lopapeysa. Halldór bar ekkert á bakinu en mjólkurferna var kyrfilega fest á bögglaberann. Einn pottur af mjólk var lágmarksdagskammtur sveitamanns úr Fljótshlíðinni.

Síðari tvö árin í verkfræðinni var árgangurinn með fasta stofu vel búna skrifborðum. Halldór sat við enda fremstu borðaraðar. Hann sneri sér jafnan á hlið og hafði þá ýmist góða sýn yfir allan bekkinn eða á kennarann og töfluna. Í minningunni fór Halldór í gegnum háskólanámið með mjólkurglas í hendi og bakið í kennarann. Það truflaði þó ekki námsárangur sem hann fékk viðurkenningar fyrir frá verkfræðideildinni. Hann var ásamt bekkjarfélaga með hæstu meðaleinkunn í bekknum á lokaprófi í byggingarverkfræði. Þegar Halldór hélt í framhaldsnám til Bandaríkjanna skildi leiðir um sinn. Við héldum sambandi með tölvupóstum sem síðar var safnað í eitt skjal „Viðauka X við endurminningarnar“. Skjalið á ég innbundið.

Halldór hélt sín fyrstu jól í Bandaríkjunum með okkur Eggerti sem bjuggum þá í Norður-Karólínuríki. Hann tók þátt í jólaþrifum, bakstri og bílakaupum. Á bílnum brunuðum við til Washington-borgar og skoðuðum okkur um þar. Á kvöldin skemmti Halldór okkur með upplestri úr bók sem hann hafði fengið í jólagjöf. Þegar við síðar fluttum til Noregs heimsótti Halldór okkur þangað. Minningarnar eru góðar úr þessum ferðum og öðrum með Halldóri.

Á Þorláksmessu í fyrra heimsóttum við Eggert vin okkar Halldór og höfðum með allt í síldarveislu. Halldór hafði þá í yfir tíu ár boðið fjölskyldu og vinum til hangikjötshátíðar á heimili sínu á Þorláksmessu. Hann hafði aflýst árlega boðinu vegna veikinda vikurnar á undan. Hann taldi sig þó vera að hressast og aðspurður þáði hann heimsókn. Við áttum góða stund saman. Umræðuefnið var vítt og breitt, þó með alvarlegri undirtón en oft áður. Móðir Halldórs hafði látist um sumarið og barst talið að heilsufari og fleiru því tengdu. Halldór hafði fyrir löngu, með köldu tölfræðilegu mati, spáð því hann yrði ekki langlífur. Einnig var rifjað upp margt gamalt og gott sem vakti hlátur. Þetta var okkar síðasta samverustund.

Halldór Árnason er kært kvaddur með söknuði og hlýju.

Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir.

Það var reiðarslag að hefja nýtt ár með fregnum af andláti Halldórs Árnasonar. Halldór var fastur punktur í tilveru okkar hjá Verkís. Þar hafði hann starfað í næstum 18 ár, allt frá því hann flutti heim frá Seattle. Hann hafði fullyrt að hann myndi deyja 68 ára gamall við skrifborðið sitt á Verkís og við trúðum því. Honum skeikaði yfirleitt ekki.

Og reiðarslög kalla fram óreiðukenndar hugsanir eins og hver eigi núna að óska okkur, svefndrukknum vinnufélögunum, gleðilegs mánudags.

Halldór var stálminnugur. Hann þekkti nöfn flestra samstarfsfélaga sinna 350 og maka og barna allra nánustu vinnufélaga. Tilfinningin var að skil milli vinnu og einkalífs væru ekki skörp og vinnan væri hans annað heimili. Hann hafði myndað í kringum sig ýmsa hópa. Einn hópur fór í rif fyrsta föstudag hvers mánaðar, annar í bollur í IKEA í hádeginu á miðvikudögum og enn annar í daglegt morgunkaffi. Halldór var leikhúsmaður og dró vinnufélaga með sér á sýningar og ræddi leikverk af ástríðu. Hann sat helst á fremsta bekk á leiksýningum. Með því móti taldi hann sig sjá sýninguna á undan öðrum í salnum. Síðast sá hann forsýningu á Eddu í Þjóðleikhúsinu ásamt vinum frá Verkís. Hann hafði unun af orðaleikjum, útúrsnúningum og þrautum, sér í lagi ef hann skákaði mótspilurum sínum. Nýverið lærði hann alla fána eyja í Kyrrahafinu eftir að hafa mistekist í fánaleiknum Flagle.

Leyniþjónusta HÁ viðurkenndi ekki tilvist sína en hélt úti tölfræðigreiningum, spám og upplýsingum um fyrirtækið og starfsmenn þess. Þar voru ófá excel-skjöl með afmælisdögum, hluthöfum, útreikningum á meðalaldri og kynjahlutfalli starfsmanna. Halldór rakti ættir nýrra starfsmanna og tengsl og nýtti til þess Íslendingabók og fleiri leiðir. Greiningardeild HÁ gaf út ýmsan fróðleik eins og mánaðarlega verðbólguspá og spár um úrslit kosninga og íþróttakappleikja.

Ef vinnan var hans annað heimili var brúni krúserinn og lopapeysa hans þriðja. Fyrstu jeppaferðina á krúsernum fór hann með hópi vinnufélaga inn á Fjallabak í eina af okkar hamfaraferðum, þar sem jarðfræðin var krufin, allt frá bergsteindum í víða farvegi jökulhlaupa. Í þeirri ferð var Halldór myndaður undir Halldórsfelli og fékk eldskírn í að þvera ár og tappa dekk. Önnur ferð vinnufélaga var farin á slóðir Skaftárelda með Eldrit Jóns Steingrímssonar og jarðfræðikort í farteskinu. Á sumrin þvældist Halldór víða á jeppanum og væri hann óvænt kominn upp á hálendi að kvöldlagi svaf hann einfaldlega í bílnum. Einn slíkur hálendistúr endaði í Loðmundarfirði eftir skottúr um Sprengisand. Aðrar ferðir með Halldóri voru utan landsteinanna, síðast til Króatíu vorið 2023. Yndisleg árshátíðarferð í góðra vina hópi á Adríahafsströndinni.

Halldór var fróðleiksfús, forvitinn, hæglátur, umhyggjusamur, orðheppinn og launfyndinn. Yfirbragð hans var yfirvegað, þungt og úfið en prakkaraglampi í augum og lund létt.

Kæri Halldór. Við söknum þín úr hópnum, það var gott að eiga þig að. Minningar um þig munu lifa og auðga okkar líf.

Kristín Martha Hákonardóttir, Auður Atladóttir
og samstarfsfélagar.

Með þessum minningarorðum viljum við kveðja og þakka Halldóri Árnasyni fyrir hans óeigingjarna og góða starf fyrir Verkfræðingafélag Íslands. Hann vann af einstökum áhuga fyrir félagið um árabil og við munum sakna nærveru hans og dugnaðar.

Verkfræðingafélag Íslands er stéttarfélag en sérstaða þess felst í öflugu faglegu starfi. Þar vinna margir einstaklingar ómetanlegt starf í sjálfboðavinnu, af hugsjón og áhuga. Halldór sat í stjórn Stéttarfélags verkfræðinga og síðar í stjórn kjaradeildar Verkfræðingafélagsins. Hann var lykilmaður og formaður í stjórn sjúkrasjóðs VFÍ um langt árabil. Hann var einstaklega talnaglöggur og minnugur og er skarð fyrir skildi við fráfall hans. Seta í stjórn sjúkrasjóðsins er ábyrgðarstarf og oft á tíðum vandasamt, enda er það hlutverk sjóðsins að vera bakhjarl félagsmanna þegar áföll eins og veikindi steðja að. Sterk staða sjúkrasjóðs VFÍ er ekki síst vandvirkni og samviskusemi Halldórs að þakka.

Það er sárt að sjá svo skyndilega á eftir góðum manni en minningin mun fylgja okkur um ókomna tíð.

Ástvinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Verkfræðingafélags Íslands,

Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri VFÍ, Sigrún S. Hafstein, sviðsstjóri VFÍ.

Við kveðjum í dag kæran vinnufélaga okkar Halldór Árnason.

Halldór hóf störf hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem síðar varð Verkís, í byrjun árs 2006 eftir að hafa lokið doktorsprófi sem byggingarverkfræðingur frá University of Washington með sérsvið í straum- og öldufræði. Verkefni Halldórs hjá stofunni hafa verið fjölmörg og varð hann fljótlega einn af sérfræðingum fyrirtækisins í kostnaðarfræðum þar sem hann bar ábyrgð á kostnaðaráætlunum og áhættumati kostnaðar í mörgum stórum verkefnum á sviði vatnsafls, iðnaðar og jarðvarma. Halldór varð einn af hluthöfum Verkís árið 2012.

Auk þess að vera traustur fagmaður og sérfræðingur sem samstarfsmenn leituðu gjarnan til tók Halldór virkan þátt í félagslífi stofunnar. Oft var leitað til hans til að undirbúa og stýra spurningakeppnum því hann var fróður og vel að sér á mörgum sviðum.

Halldór átti marga vini og félaga hjá Verkís. Hann lagði sig fram um að kynnast samstarfsfólki sínu, tók vel á móti nýliðum og stuðlaði almennt að góðum starfsanda innan síns nærumhverfis með hnyttnum og djúpum tilsvörum, almennum áhuga á mönnum og málefnum sem og góðri nærveru.

Halldór féll frá allt of snemma, hans er sárt saknað og skilur hann eftir sig stórt skarð hjá fyrirtækinu sem erfitt er að brúa.

Fyrir hönd Orku- og iðnaðarsviðs Verkís sendum við fjölskyldu Halldórs innilegar samúðarkveðjur.

Páll og Borghildur.