Halldór Vilhjálmsson fæddist 9. september 1933. Hann lést 25. desember 2023. Útför hans fór fram í kyrrþey.

Halldór Vilhjálmsson, þýskukennari og lífskúnstner, var enginn venjulegur pabbi. Hans verður sárt saknað en þakklætið fyrir allt það sem hann skildi eftir sig er ómælt.

Pabbi var óvenjuleg blanda af heimsborgara og sveitapilti sem hafði næmt auga fyrir því sem var fallegt, framandi og óvenjulegt og hann ræktaði með sér áhugamál og lífsstíl í takt við það. Pabbi var herramaður af gamla skólanum, listhneigður, vel lesinn og vel að sér um málefni samtímans. Hann var oft formfastur og jafnvel dálítið hátíðlegur en undir niðri var ljúflingur með listræna taug og leitandi anda en hann pabbi minn var glaðlyndur og bjartsýnn og með honum var hægt að fá svo rækileg hlátursköst að mann verkjaði. Það var þetta með húmorinn. Svartur húmor segja sumir, absúrd húmor segja aðrir en húmoristi var hann. Það var hægt að hlæja með pabba og líka að pabba. Allt fram á síðasta dag var hægt að hlæja að því sem var oft of grátbroslegt til að vera satt.

Hann var félagslyndur og hrifnæmur einfari sem undi sér vel við að grúska og sinnti sínum hugðarefnum af kostgæfni og oft þannig að aðrir fengu að njóta; bólstra húsgögn, garfa í gömlum ljósmyndum, planta trjám, rækta blómstur, þýða sögur og greinar, pæla í tónlist, pæla í myndlist og menningu framandi landa. Forvitinn og fróðleiksfús með áhuga á heiminum öllum.

Hann tók eftir því góða og fallega í kringum sig og sá líka það góða í öðrum. Hann var skilningsríkur og greiðvikinn – oft þannig að okkur fjölskyldunni þótti nóg um þegar hver ferðalangurinn af öðrum var tekinn um borð í ljósbláa Volksvagninn á leið okkar um landið. Það var nefnilega ekki nóg að skutla fólki áleiðis, oftar en ekki voru líka máltíðir og gistingar í boði fyrir þreytta ferðalanga. Óteljandi póstkort og bréf bárust pabba jafnvel árum og áratugum eftir viðkynni við fólk frá framandi slóðum sem hafði kynnst þessum óvenjulega Íslendingi á ferðalagi sínu um landið.

Það bíður okkar sem stóðum honum næst að halda minningunni á lofti, taka upp eins og einn og einn ferðalang, smella saman fingrum á rauðu ljósi til að fá grænt, fara með ljóð á þjóðveginum, skella í sultu og spesíur, dúka borð, hræra í fuglafóður, fara í fjallgöngu á spariskónum, drekka te og snaps, skoða heimsatlasinn með stækkunargleri, færa mömmum blóm, hlæja á óviðeigandi stöðum, færa í stílinn og leyfa tímanum að líða yfir góðri sögu og tebolla.

Á langri ævi skilur pabbi eftir spor um óvenjulegan mann sem vildi vel og gerði sitt besta í að sá fræjum í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku besti pabbi minn. Minningin lifir.

Þín

Nathalía.

Halldór tengdafaðir minn var einstakur maður. Hann var mér ætíð góður og áttum við oft góðar stundir saman. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi margsinnis að fá sérstakt leyfi frá honum sjálfum til að taka af honum ljósmyndir, eitthvað sem hann heimilaði ekki hverjum sem er. Hann hafði tröllatrú á mér og mínum takmörkuðu píanóhæfileikum, hvatti mig til dáða við æfingar og færði mér í sífellu nótnablöð til þess að hjálpa mér að bæta mig. Þessi nótnablöð geymi ég á góðum stað og mun halda áfram að æfa mig í hans minningu.

Halldór var mikill húmoristi og fannst gaman að gantast með barnabörnunum meðan hann hafði heilsu til og þeim þótti ákaflega vænt um afa sinn.

Halldór var mikið náttúrubarn og í garðinum í Lagarfellinu var hann á heimavelli innan um blómin og trén sem hann hafði ræktað í gegnum árin. Hann hugsaði líka alltaf vel um smáfuglana og fékk iðulega matarafganga heim með sér eftir heimboð til okkar hjóna, og nýtti þá til að útbúa veislu handa smáfuglunum þegar kaldast var. Þennan sið höfum við að einhverju leyti tileinkað okkur að hans fyrirmynd. Ég mun hugsa til Halldórs þegar við horfum á klifurjurtirnar sem við sjáum vaxa fyrir utan stofugluggann okkar. Einnig þegar páskaliljurnar stinga upp kollinum á vorin, enda prófuðum við að gróðursetja ýmislegt í garðinum að frumkvæði Halldórs, sem var duglegur að færa okkur afleggjara og lauka, sem allt ævinlega blómstaði.

Ég mun ávallt sakna hans og gera mitt besta við að halda minningu hans á lífi.

Ásdís Jörundsdóttir.