Hjónin Bjarni og Sigríður í sjötugsafmæli Bjarna árið 2009.
Hjónin Bjarni og Sigríður í sjötugsafmæli Bjarna árið 2009.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Þjóðleifsson fæddist á Akranesi þann 29. janúar 1939. Foreldrar hans voru Guðrún Bjarnadóttir og Þjóðleifur Gunnlaugsson. Þau byggðu sér hús að Skólabraut 19 og bjuggu þar frá árinu 1936 og ólst Bjarni þar upp

Bjarni Þjóðleifsson fæddist á Akranesi þann 29. janúar 1939. Foreldrar hans voru Guðrún Bjarnadóttir og Þjóðleifur Gunnlaugsson. Þau byggðu sér hús að Skólabraut 19 og bjuggu þar frá árinu 1936 og ólst Bjarni þar upp. Árið 1953 reistu þau einnig húsið að Skólabraut 23 og ráku þar verslun með húsgögn, fatnað og raftæki, fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Bjarni var sendur í sveit tvö sumur að Melum í Melasveit og síðar til ættmenna á Litla Vatnshorni í Dölum. Á bernskuárunum tefldi hann mikið, var virkur í fótbolta og skátastarfi, lærði á orgel og var organisti í stúku. Hann vann í bæjarvinnu og við önnur störf á sumrin.

Eftir nám í barnaskóla Akraness lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri þar sem Bjarni lauk stúdentsprófi vorið 1959. Hugurinn stóð til að lesa bókmenntir og sótti hann um námsvist í Edinborg en reyndist of seinn og var boðið að koma til náms haustið 1960. Móðir hans vildi að hann færi í læknisfræði og það varð úr og átti að vera millileikur á meðan beðið var eftir skólavist í Edinborg. Fyrsta árið í Læknadeild reyndist hins vegar skemmtilegt svo ekki varð aftur snúið.

Eftir útskrift í febrúar 1966 tók við kandídats- og síðar aðstoðarlæknisvinna á hinum ýmsu deildum sjúkrahúsanna, námsdvöl í Aberdeen, aðstoðarlæknisstaða á Sauðárkróki, þar til haldið var til framhaldsnáms í almennum lyflækningum og meltingarsjúkdómum í Dundee í Skotlandi í október 1970. Hann lauk sérfræðiprófi í lyflækningum (Member of the Royal College of physicians, M.R.C. Phys.) í Glasgow janúar 1973 og svo PhD. frá University of Dundee 5. desember 1975. Einnig starfaði hann með Sheila Sherlock á Royal Free í London í eitt ár til að öðlast meiri þekkingu á lifrarsjúkdómum.

Við heimkomu hóf Bjarni störf á Landspítalanum og varð yfirlæknir meltingasjúkdómadeildar 2002. Hann fékk dósentstöðu við Háskóla Íslands í almennri lyflæknisfræði 1976 og frá 1983 var hann prófessor.

Bjarni var útnefndur félagi í Konunglega læknafélaginu í Edinborg 1994 (FRCP). Hann hefur ritað fjölda ritrýndra vísindagreina, víða haldið fyrirlestra um niðurstöður rannsókna sinna og verið leiðbeinandi margra nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands, auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir háskólann og Landspítala, m.a. sem formaður Vísindaráðs Landspítala og formaður framhaldsmenntunarráðs Háskóla Íslands. Þessu til viðbótar sinnti Bjarni mörgum trúnaðar- og ábyrgðarhlutverkum s.s.: fulltrúi læknadeildar í CINDI – heilsa fyrir alla árið 2000 á vegum WHO, formaður heilbrigðishóps í framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun á vegum forsætisráðuneytisins, en afrakstur þeirrar vinnu birtist í bókinni Gróandi þjóðlíf. Einnig var hann ritstjóri Læknablaðsins og sat í orðanefnd um árabil.

Árið 1969 giftist Bjarni Ingigerði Þóreyju Guðnadóttur og sama ár eignuðust þau þríbura og má segja að lífið hafi þá breyst mikið. Þegar þríburarnir voru á fyrsta ári fór fjölskyldan norður á Sauðárkrók þar sem Bjarni var aðstoðarlæknir. Þar kynntust þau heiðurshjónunum Ólafi Sveinssyni og Ástu Karlsdóttur. Það var svo Ólafur sem tók hann með í veiði í Blöndu sem var upphafið að mörgum veiðiferðum þangað og víðar, alltaf í góðum félagsskap.

Fjölskyldan lagði síðan aftur land undir fót og flutti til Dundee í Skotlandi. Eins og gefur að skilja var það nokkurt átak. Þríburarnir vöktu mikla athygli og foreldrarnir höfðu í nógu að snúast. Frá Dundee flutti fjölskyldan svo til London áður en hún sneri aftur til Íslands árið 1976. Eftir heimkomu settust þau að í Fossvogi og þar bættist sonurinn í hópinn.

Bjarni tók að spila golf af miklum krafti á miðjum aldri. Þær eru ófáar golfferðirnar innanlands og utan. Skvassi kynntist hann á námsárum sínum í Bretlandi og var með þeim fyrstu sem stundaði íþróttina hér á landi og það gerði hann reglulega með sama hópi um árabil. Einnig tefldi hann þegar tækifæri gáfust m.a. í hópi sem Davíð Gíslason hélt úti.

Í seinni tíð jókst svo áhugi á útivist og göngum og var hann m.a. í sex manna gönguhóp sem gekk víða um land og bætti svo um og fór í tvær hjólaferðir til Frakklands.

Fjölskylda

Eiginkona Bjarna er Sigríður Sigtryggsdóttir, f. 24.10. 1953, bókasafnsfræðingur. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar Sigríður voru hjónin Unnur Pálsdóttir, f. 1913, d. 2011, húsfreyja, og Sigtryggur Klemenzson, f. 1911, d. 1971, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og síðast seðlabankastjóri.

Fyrri eiginkona Bjarna var Ingigerður Þórey Guðnadóttir, f. 29.12. 1940, d. 17.12. 1982, handavinnukennari. Foreldrar hennar voru hjónin Þóranna Lilja Guðjónsdóttir, f. 1904, d. 1970, húsfreyja og Guðni Guðmundsson, f. 1904, d. 1947, verkamaður.

Börn Bjarna og Ingigerðar eru 1) Guðrún, f. 29.10. 1969, náttúrufræðingur og eigandi Hespuhússins í Árbæjarhverfi við Selfoss; 2) Gerður, f. 29.10. 1969, kjóla-og klæðskerameistari, kennari við Tækniskólann. Maki: Kristján Ari Arason. Dóttir þeirra er Ingigerður Úlla, f. 31.1. 2018; 3) Hildur, f. 29.10. 1969, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands. Maki: Ólafur Sveinn Gíslason. Dætur þeirra eru tvíburarnir Salka Sigrún og Urður Inga, f. 26.7. 2019; 4) Brjánn Guðni, f. 8.1. 1980, sjóðstjóri og fluguveiðimaður. Maki: Sandra Karlsdóttir. Börn hans eru Brynhildur Þórey, f. 20.4. 2007, og Hrafnkell Gauti, f. 13.7. 2009. Móðir þeirra er Karen Amelía Jónsdóttir.

Bræður Bjarna voru Jón Otti, f. 18.5. 1937, d. 21.6. 1944, og Davíð, f. 23.3. 1942, d. 23.2. 2011, kennari og verslunarmaður.

Foreldrar Bjarna voru Guðrún Bjarnadóttir, f. 22.8. 1912 á Augastöðum í Hálsasveit, d. 15.6. 2009, kaupakona og húsfreyja á Akranesi, og Þjóðleifur Gunnlaugsson, f. 2.10. 1896 á Ytri Þorsteinsstöðum í Haukadal, d. 16.8. 1972, rafstöðvarstjóri og kaupmaður á Akranesi