Hraun Flestra mat er að Grindavík verði aldrei sami staðurinn og hann var eftir hinar miklu náttúruhamfarir þar og í nágrenni á síðustu misserum.
Hraun Flestra mat er að Grindavík verði aldrei sami staðurinn og hann var eftir hinar miklu náttúruhamfarir þar og í nágrenni á síðustu misserum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Í Grindavík fann ég þjóðarsálina. Í núverandi ástandi tel ég mikilvægt að koma til móts við fólk þar, meira en bara vegna eignatjóns og húsnæðismála. Mikilvægt er líka að halda í stoðir samfélagsins,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í Grindavík fann ég þjóðarsálina. Í núverandi ástandi tel ég mikilvægt að koma til móts við fólk þar, meira en bara vegna eignatjóns og húsnæðismála. Mikilvægt er líka að halda í stoðir samfélagsins,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Vegna náttúruhamfara eru málefni Grindavíkur – hins yfirgefna bæjar – ofarlega á baugi nú. Margir hafa tengsl við staðinn, Ólafur Ragnar þar á meðal. Í bókinni Rætur – á æskuslóðum minninga og mótunar segir hann frá rækt sinni við Grindavík. Samfélagsgerð þar hefði svipað til æskuslóða sinna á Þingeyri og Ísafirði. Af því hefðu tengingar myndast. Morgunblaðið ræddi við Ólaf Ragnar um samfylgd hans með Grindvíkingum.

Grindvíkingar höfðu alltaf á réttu að standa

„Á sínum tíma var ég þingmaður fyrir Reykjaneskjördæmi sem þá var, en til þess töldust þéttbýlisstaðirnir í nágrenni Reykjavíkur og Suðurnes. Þegar ég fór svo að mæta í Grindavík sem þingmaður, ráðherra og forseti fann ég þar taug æskuslóða minna,“ segir Ólafur Ragnar og heldur áfram:

„Í Grindavík greindi ég hvernig umræðan væri á vinnustöðum, í fiskvinnslunni og niður við höfn og af því var hægt að taka mið. Ef ég þurfti, sér í lagi í forsetatíð, að taka örlagaríkar ákvarðanir sem voru óvinsælar í ýmsum herbúðum, hikaði ég ekkert væri Grindavík fylgjandi málinu. Vissi að þjóðin væri sömu skoðunar, að minnsta kosti að meirihluta til. Að njóta í áratugi þessar leiðsagnar voru mikil forréttindi. Grindvíkingar höfðu alltaf á réttu að standa.“

Stóðu alltaf saman

Í tímans rás segist Ólafur Ragnar hafa lagt sig eftir að sækja viðburði í Grindavík, til dæmis íþróttaleiki og sjómannadaginn. Að mæta á bryggjuna eða fara í kaffi á vinnustöðum og spjalla þar við fólk um daginn og veginn hafi verið sér dýrmætt.

„Auðvitað hafa í bænum verið átök milli fólks í ólíkum stjórnmálaflokkum sem breyttu því þó ekki að Grindvíkingar stóðu alltaf saman þegar á reyndi. Kannski réði þar nálægðin við hafið og miklar fórnir sem voru færðar þegar bátar fórust og með þeim fjölskyldufeður, bræður og synir. Í þeirri sorg var sem samstaða efldist. Að fara á heimaleiki í boltaleikjum og sjá hvernig allt plássið mætti til að styðja sína menn var líka merkilegt. Þarna sátu hægri menn og vinstri - íhald og kommúnistar – saman og hrópuðu hvatningarorð. Hve langt Grindvíkingar hafa náð í mörgum greinum íþrótta er eftirtektarvert.“

Í aðgerðum vegna hamfaranna í Grindavík segir Ólafur Ragnar mikilvægt að finna leiðir svo samstaða sem einkennandi hafi verið í bænum glatist ekki. „Fyrir þjóðina væri mikill skaði ef samfélagið sundraðist vegna hræðilegra atburða síðustu vikna og mánaða. Ég vona því að menn nái saman um félagslega þáttinn, ekki bara aðgerðir í þágu þeirra sem eiga hús og mannvirki eða eru með atvinnustarfsemi í Grindavík.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson