Benedikt Pétur Guðbrandsson fæddist í Hofshreppi 20. ágúst 1962 og ólst upp í Engihlíð, Skagafirði. Hann lést 19. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Oddný Angantýsdóttir, f. 15. ágúst 1930, d. 6. febrúar 2016, og Guðbrandur Þórir Bjarnason, f. 5. október 1928, d. 5. september 1991.

Systkini hans eru Anna Margrét, f. 1954, d. 2022, Elín Petra, f. 1955, Sólveig, f. 1957, Jóhann, f. 1957, Bjarni, f. 1960, d. 1991, og Björn Snær, f. 1965.

Benedikt kvæntist Elínu Ingu Arnþórsdóttur árið 1992 en þau voru skilin að borði og sæng. Börn þeirra eru: 1) Helena, gift Tim Cole og eiga þau eina dóttur saman, Khalan Lilju. 2) Birkir, í sambúð með Heiðu Mareyju Magnúsdóttur. 3) Bjarki, í sambúð með Valdísi Þórðardóttur.

Benedikt var stýrimaður að mennt og sinnti því námi á Dalvík og í Reykjavík. Í mörg ár stundaði hann sjómennsku frá Grindavík, byrjaði 16 ára sem kokkur og síðustu árin í sjómennskunni sem stýrimaður. Hann hóf störf hjá álverinu í Straumsvík 31. maí 1997 og vann þar til æviloka.

Útför Benedikts fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 29. janúar 2024, kl. 13.

Elsku besti pabbi okkar. Við trúum því ekki ennþá að þú sért farinn og bíðum við ennþá eftir því að þú labbir inn um dyrnar eða hringir í okkur til að tala um daginn og veginn. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur öll, hvort sem það var að laga bíla, hús, hjálpa okkur fjárhagslega eða gefa okkur lífsins ráð. Ekki varstu bara góður að laga hluti því duglegur varstu líka að laga mat. Hver á núna að elda saltkjöt fyrir Bjarka, eða fiskirétti fyrir Helenu sem þú veiddir sjálfur? Það var alltaf svo gott að vera í návist þinni, hvort sem það var að vera úti í ævintýraferðum um fallega landið okkar, allar ferðirnar í Engihlíð, allar sjóferðirnar eða bara heima að horfa á bíómynd og borða ís. Við munum varla eftir því að þú hafir verið reiður við okkur eða æst þig yfir einhverju, svo jafnlyndur varstu. Við gerðum alltaf mikið grín að tæknikunnáttu þinni og þurftum við að hafa mikla þolinmæði þegar það þurfti að kenna þér eitthvað nýtt, en nú munum við sakna þess að fá að tæknivæða þig eða aðstoða þig við að taka sjónvarpið af mute. Þitt uppáhald í tækninni var að senda okkur Snapchat um allt og ekkert og myndum við gera allt til þess að fá þau aftur. Þú varst okkar helsti stuðningsmaður í íþróttum og stór ástæða hversu langt við náðum á okkar íþróttaferli. Þú gekkst svo langt að búa til handboltamark í svefnherbergi strákanna svo þeir gætu fengið útrás heima fyrir. Það var svo margt sem við áttum eftir að bralla saman en nú verðum við systkinin að vera dugleg að gera þessa hluti saman og minnast þín. Við vonum að þú fáir nú að hvílast og vakir yfir okkur alla tíð.

Helena, Birkir og Bjarki.

Föstudagskvöldið 19. janúar fékk ég símhringingu, Benni er dáinn. Tíminn fraus í smá stund. Besti vinur minn, sem jafnframt var bróðir minn, var farinn. Tómarúm. Mér varð hugsað til krakkanna hans sem hann var svo stoltur af. Kletturinn sem þau treystu á. Mikill er þeirra missir.

Við Benni spjölluðum flesta daga um hvaðeina sem var í gangi hjá okkur. Hvort sem það var jákvætt eða neikvætt. Ræddum um börnin okkar með stolti og hvaða skref þau voru að taka í lífinu.

Það gladdi þig mikið að vera orðinn afi, þú varst að rifna úr stolti. Ég á eftir að sakna þessara samtala.

En lífið heldur áfram hversu ósanngjarnt sem okkur finnst það stundum vera. Hvíl í friði brósi. Við tökum upp spjall þó síðar verði.

Björn Snær.

Það var óvænt harmafrétt að bróðir minn og mágur Benedikt Pétur Guðbrandsson væri fallinn frá. Við eigum ekkert nema góðar minningar af Benna, eins og hann var alltaf kallaður, og erum þakklát fyrir allar samverustundir sem við áttum með honum.

Einn af hans sterku eiginleikum var skapgerðin sem einkenndist af rólyndi og yfirvegun. Benni er eftirminnilegur maður. Það var mjög gott að vinna með honum hvort sem var á sjó eða landi. Var góður sjómaður og hafði stundað ýmiskonar sjómennsku í gegnum tíðina, þar á meðal grásleppuveiðar með okkur um tíma. Nú síðast veiddi hann fisk á kajaknum sínum og verkaði m.a. úrvals harðfisk.

Benni var laginn og útsjónarsamur verkmaður. Spáði í það sem gera þurfti og fór svo í verkið fumlaust og ákveðinn. Hann sat aldrei auðum höndum. Þegar við fréttum af honum var hann alltaf að fást við einhver verkefni hjá sjálfum sér eða öðrum. Laga eitthvað, búa eitthvað til, byggja hús, veiða eða sinna einhverjum. Benni var í vikutíma að hjálpa okkur við að byggja nýtt íbúðarhús á Hvalnesi og munaði heldur betur um hann. Þegar Benni þurfti að yfirgefa okkur og fara suður að vinna sáum við mikið eftir honum og yfirsmiðurinn, sem þekkti hann ekkert áður, spurði af hverju Benni þyrfti að fara, af hverju hann vildi ekki bara halda áfram að byggja með okkur. Þetta sýndi vel hvernig Benni vann á með góðri nærveru, verklagni og vinnusemi.

Benni hafði sterkar skoðanir og setti þær fram skýrt og ákveðið en æsingalaust. Hann virkaði sem klettur, traustur, yfirvegaður, hreinskilinn og með þannig nærveru að manni fannst maður vita hvar maður hafði hann. Benni var sannarlega drengur góður og sínum nánustu mikil stoð. Hans verður sárt saknað. Börnum hans, Helenu, Birki og Bjarka, og fjölskyldum þeirra vottum við okkar dýpstu samúð.

Elín Petra og Bjarni, Hvalnesi.

Samstarfsfélagi okkar Benedikt Pétur Guðbrandsson, flokksstjóri á vakt 5 í steypuskála, lést á heimili sínu föstudaginn 19. janúar.

Benedikt var fæddur 20. ágúst 1962. Hann hóf störf hjá ISAL 30. maí 1997 og átti því rúm 26 farsæl ár í starfi hjá okkur.

Síðustu árin var Benedikt flokksstjóri á vakt 5 í steypuskála og sinnti hann því starfi af mikilli færni. Flokksstjóri þarf að hafa margt til brunns að bera sem manneskja, fagmaður og leiðtogi, Benedikt hafði þetta allt og meira til, það var alltaf hægt að leita til hans, sama hversu lítið eða stórt vandamálið var.

Benedikt var mannvinur mikill og mátti ekkert aumt sjá, utan vinnutíma mátti iðulega finna hann einhvers staðar að aðstoða einhvern sem þurfti á því að halda, hvort sem það var smá smíðaverk hjá ekkju sem átti engan að til þess að aðstoða sig, eða að safna pottum, pönnum og fleiru fyrir unga konu sem átti ekkert.

Benedikt var ótæmandi brunnur af upplýsingum um ýmis mál og má þar helst nefna veður, veiði og hafstrauma enda var hann mikill áhugamaður um sjóveiði og allt sem því tengist. Benedikt verkaði sinn eigin harðfisk og stundaði sjósund af mikilli elju og var duglegur að draga samstarfsmenn sína með sér í sjósund.

Benedikt skilur eftir sig stórt skarð á vakt 5 sem erfitt verður að fylla. Þekking hans á álgreiningu var gríðarleg og var hann með ótrúlegt verksvit og fann alltaf lausn á öllum vandamálum sem komu upp í vinnunni. Það er samt manngæska hans og hlýja sem við minnumst mest þegar við hugsum um Benedikt. Hann gaf fisk til fátækra, hjólaði í vinnuna með fulla tösku af rabarbara til þess að gefa samstarfsmanni, var vinur vina sinna og svo var alltaf stutt í hláturinn. Það mikilvægasta í lífi Benedikts var samt alltaf börnin hans og barnabarn. Benedikt talaði mikið um börnin sín og ljómaði af ást og stolti í hvert sinn sem eitthvert þeirra var nefnt og þegar hann varð loksins afi haustið 2023 sást það bókstaflega á honum hvað hjartað stækkaði af ást enda um lítið annað hægt að tala en gullfallega barnabarnið hans Benedikts.

Það er með mikilli sorg sem við kveðjum Benedikt og sendum við fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. vaktar 5 steypuskála,

Svandís Ólafsdóttir.

Fyrir um fjórum árum þegar við hjónin fluttum á Nýbýlaveg 58 þá var fyrsti maður sem ég hitti í húsinu hann Benni, hávaxinn, herðabreiður, þrekvaxinn, svipbjartur, hjartahlýr fúlskeggjaður Skagfirðingur, svona torfkofakarl eins og ég. Við urðum strax góðir vinir. Það sem stóð hjarta hans næst voru börnin hans þrjú, Birkir, Bjarki og Helena. Hann talaði svo oft um þau með miklu stolti og bliki í augum og barnabarnið sem kom í heiminn fyrir ekki svo löngu og hann fékk að umfaðma. Fyrrverandi konan hans og barnsmóðir var honum kær og góður vinur. Honum varð tíðrætt um fólkið sitt, foreldra og systkini. Hugurinn var oft heima í sveitinni þar sem hann vildi verða bóndi en svo kom sjómennskan sem varð bóndadraumnum yfirsterkari. Árin í álverinu í Straumsvík voru orðin 23 þar sem hann var flokksstjóri á sinni vakt. Hann var vinsæll og virtur yfirmaður sem bar hag sinna starfsmanna fyrir brjósti. Við félagarnir brölluðum margt saman og tókum húsið okkar vel í gegn og umhverfið allt. Við vorum báðir hluteigendur í bátnum Kát SKB 250 sem við notuðum í sameiningu við veiðar á fisk og fugli. Það var eiginlega alltaf ástæða til að fara á sjó, þar leið okkur báðum vel hvernig svo sem viðraði. Við drukkum mikið af tei hér heima á morgnana og leystum heimsmálin og sögðum hvor öðrum margar sögur sem sumar hverjar sem þoldu jafnvel illa dagsljósið. Fáa menn hef ég hitt betri ef þá nokkurn. Hann hafði góða lund en var samt fastur fyrir. Hag annarra bar hann ríkulega fyrir brjósti og alltaf til í að hjálpa öðrum. Elsku vinur minn góða ferð, ég veit að það var vel tekið á móti þér.

Við sjáumst síðar.

Þinn vinur,

Samúel Ingi Þórisson.