Runólfur Jóhann Sölvason fæddist í Ólafsvík 29. nóvember 1931. Hann lést 16. janúar 2024 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar hans voru Sölvi Kristinn Þórðarson, f. 22. ágúst 1900, d. 16. desember 1979, og Kristín Sigurrós Árnadóttir, f. 21. júní 1900, d. 30. maí 1967.

Systkini hans voru Guðmundur Jón, f. 1927, d. 2011, stúlka, f. 1930, d. 1930, Björg, f. 1934, d. 2010, Þórður, f. 1938, d. 1938, og Þórunn Rósa, f. 1941, d. 2010.

Runólfur kvæntist hinn 12. júlí 1958 Sveinu Maríu Sveinsdóttur, f. 14. október 1938, d. 25. mars 2022. Foreldrar hennar voru Sigurður Sveinn Sveinsson, f. 1900, d. 1941, og Herborg Anna Guðmundsdóttir, f. 1896, d. 1979.

Börn Runólfs og Sveinu Maríu eru: 1) Linda María, í sambúð með Guðna Arasyni. Börn Lindu Maríu og fyrrverandi eiginmanns Friðberts Sanders eru a) Runólfur Þór, kvæntur Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur og eiga þau Söru Björgu og Viktor Björn, b) Anna María, í sambúð með Rúnari Dór Daníelssyni og eiga þau Iðunni Evu og Ara Sigdór, c) Sigríður Eva, í sambúð með Davíð Erni Þórissyni. 2) Birgir Þór, í sambúð með Guðlaugu B. Matthíasdóttur. Sonur hennar og fóstursonur Birgis er Brynjar Örn Guðmundsson og á hann Yrju Mist. Áður átti Runólfur dótturina Önnu Kristínu. Maður hennar er Brad Zeuge og börn Önnu Kristínar eru a) Helga Bergþóra, gift Brad Croco og eiga þau Mycylu og Macie, b) Kristina Faye, gift Clayton Shallock og eiga þau Alexis og Riley, c) Philip Christopher, í sambúð með Melody Faith.

Runólfur ólst upp í Ólafsvík til 16 ára aldurs en þá flutti fjölskylda hans fyrst í Garðinn á Suðurnesjum og síðan til Keflavíkur þar sem hann bjó lengst af.

Runólfur byrjaði sinn starfsferil í fiskvinnu og á sjó en eftir það starfaði hann sem leigubílstjóri í nokkur ár áður en hann stofnaði sitt eigið fiskvinnslufyrirtæki og útgerð. Þau hjónin ráku fyrirtækið Saltver í Njarðvík í nær tvo áratugi, bæði í samstarfi með öðrum en einnig sjálfstætt. Þau hjónin fluttust svo til Bandaríkjanna árið 1981 þar sem þau bjuggu í átta ár.

Eftir að heim var komið sneru þau sér enn að sjávarútvegi og ráku í nokkur ár fiskverkun Runólfs og Garðars í Ytri-Njarðvík. Þegar þau hættu rekstri fiskverkunarinnar starfaði Runólfur við leigubílaakstur og endaði starfsferilinn þar.

Útför hans fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 29. janúar 2024, klukkan 12.00.

Í dag kveð ég elskulegan föður minn hinstu kveðju.

Pabbi var orðinn 92 ára þegar hann lést eftir skammvinn veikindi um miðjan janúar. Hann sem var búinn að vera svo hress undanfarið ár og var duglegur að koma í heimsókn til mín að maður hélt að það yrðu nokkur ár til viðbótar en svona getur lífið allt í einu tekið viðsnúning.

Pabbi var alla tíð mjög vinnusamur maður og taldi vinnusemi einn af helstu kostum fólks. Hann vildi líka leggja sterka áherslu á það í uppeldi okkar systkinanna enda vorum við snemma tekin í vinnu í fiskverkunina hjá honum á sumrin. Þegar ég var lítil stelpa og bað hann um að gefa mér pening átti hann til að segja að hann skyldi lána mér, ég gæti borgað þegar ég væri búin að vinna. Þetta var hans leið til að kenna manni að fá ekki allt upp í hendurnar.

Pabbi og mamma ráku fiskverkun og útgerð í næstum þrjá áratugi ýmist í samstarfi við aðra eða sjálfstætt. Á þeim tíma átti fyrirtækið hug hans allan nema hann leyfði sér að fara í veiðiferðir á sumrin sem var aðaláhugamálið hans. Þá fór fjölskyldan yfirleitt öll saman og var farið í tjaldferðir fyrst til að byrja með en svo með tímanum urðu það frekar veiðihús. Þetta voru mjög fjörugir og skemmtilegir tímar en pabbi gaf sér tíma til að kenna okkur systkinunum að veiða og gera ýmislegt með okkur.

Í uppvextinum leit ég mjög upp til pabba og tók mjög mikið mark á hvað hann sagði. Hann lagði áherslu á að ég skyldi vera sjálfstæð og svara fyrir mig. Hann kenndi mér líka vinnusemi og vandvirkni við störf. Heima hjá okkur var fólk alltaf metið eftir dugnaði, ef verið var að tala um einhvern sem pabba líkaði við þá fylgdi alltaf að hann kæmi af duglegu fólki.

Eftir að ég eignaðist börnin mín voru þau mikið í pössun hjá Sveinu ömmu og Runna afa þegar þau voru á leikskólaaldri. Þegar afi þeirra var heima spilaði hann gjarnan við þau á spil. Það var þá ekkert verið að leyfa þeim að vinna, eins og fullorðnir gera venjulega. Nei, það átti sko að kenna þeim hvernig var spilað í alvöru og þau þurftu að læra að tapa alveg eins og að vinna. Hann var líka alltaf að spyrja þau út í reikningsdæmi eða bókstafi til að athuga hvað þau kunnu mikið.

Pabbi var mikill keppnismaður sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Þegar hann var að keyra leigubíl á efri árum hélt hann sig mest uppi í Leifsstöð og var þá aðalmálið að ná sem flestum Reykjavíkurtúrum yfir daginn og keppti hann við sjálfan sig um hve marga hann fékk daglega. Hann spilaði mikið billiard á tímabili og til að verða betri þá æfði hann mikið ásamt því að horfa á billiard í sjónvarpinu til að sjá hvað hann gæti gert betur. Hann hafði líka mjög gaman af að spila bridge og tefla og var hann ágætis skákmaður. Þegar hann var ungur maður spilaði hann körfubolta með fyrsta körfuboltaliðinu sem stofnað var á Suðurnesjum, IKF, og urðu þeir Íslandsmeistarar 1952. Hann var alltaf mjög stoltur af því.

Ég kveð þig, pabbi, með söknuði og þakka þér fyrir alla umhyggjuna sem þú sýndir mér og börnum mínum.

Hvíl í friði.

Linda.

Elsku afi minn er fallinn frá. Fyrsta minning sem kemur upp í hugann er afi að kenna mér að reikna löngu áður en ég byrja í skóla. Hann, mikill rekstrarmaður sjálfur, lagði á það mikla áherslu á að ég kynni að reikna. Sem krakki tók ég þetta mjög alvarlega og passaði vel upp á að standa mig alltaf vel í stærðfræðinni. Er ég ekki frá því að þetta hafi haft nokkur áhrif á það hvaða braut ég valdi í lífinu.

Afi keypti handa mér mína fyrstu veiðistöng og kenndi mér að veiða á mínum barnsárum. Þegar ég varð eldri og byrjaði í mínum eigin veiðihópi var hann sjálfur að draga sig í hlé í veiðinni og ákvað að gefa mér flugustöngina sína, vöðlur og aðrar græjur. Fyrir háskólanemann kom þetta sér mjög vel.

Á háskólaárum mínum fór ég alltaf til ömmu og afa að læra fyrir lokaprófin, þar sem ég gat lokað mig af án truflunar. Afi var hættur að vinna á þessum tíma og sat oft í sófanum að horfa á heimildarþætti. Ein dýrmætasta minning sem ég á með afa mínum er frá þessum tíma en ég hafði það sem reglu að taka mér pásu frá lærdómnum á um klukkutíma fresti og fór þá fram að spjalla við afa. Pásurnar urðu svo alltaf lengri og lengri því ég hafði svo mikið gagn og gaman af því að spjalla við afa, heyra hans reynslu og lífsskoðanir á hlutunum. Fyrir mig var þetta ekki síðri lærdómur en það sem stóð í bókunum. Þessar góðu samræður okkar afa héldu svo áfram í öllum fjölskylduhittingum og er ég mjög þakklátur fyrir þessar stundir okkar.

Elsku afi, ég kveð þig með söknuði en þakklátur fyrir þann tíma sem við áttum saman.

Runólfur Þór.

Ég er kominn aftur til Íslands að vetri til. Nú til að fylgja Runólfi Sölvasyni sem var giftur móðursystur minni Sveinu Maríu sem alltaf var kölluð Stúlla. Runólfur var mér sem faðir eftir að faðir minn féll frá þegar ég var þriggja ára. Hann er í minningunni hlýr og kær, studdi mig sem faðir allt lífið. Eftir að ég flutti sjö ára til Bandaríkjanna kom ég oft til Íslands og dvaldi hjá þeim hjónum. Fékk mína fyrstu vinnu í Saltverki hjá Runólfi og má segja að hann hafi kennt mér að vinna. Sú reynsla hefur enst allt lífið. Hann leiðbeindi og var mér fyrirmynd og ég fann að honum þótti vænt um mig og fyrir það vil ég þakka.

Hann og Stúlla eiga stóran þátt í því að mér finnst ég alltaf vera Íslendingur. Ég votta afkomendum innilega samúð.

Tóný Mercede.