Kvika kann að vera tekin að safnast saman í jarðskorpunni undir Húsfellsbruna, víðáttumiklu hrauni á milli Bláfjalla og Heiðmerkur. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að skjálftahrina undanfarinna daga sé til…

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Kvika kann að vera tekin að safnast saman í jarðskorpunni undir Húsfellsbruna, víðáttumiklu hrauni á milli Bláfjalla og Heiðmerkur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að skjálftahrina undanfarinna daga sé til marks um að eldstöðvakerfið sem kennt er við Brennisteinsfjöll hafi virkjast.

Í síðustu goshrinu Reykjanesskagans var Húsfellsbruni það hraun sem næst rann Reykjavík. Þorvaldur segir það geta gerst aftur og að hraun gæti jafnvel farið lengra, fari svo að það gjósi á umræddum stað.

Að hans mati er það mjög mikilvægt að ráðast af alvöru í fyrirbyggjandi aðgerðir og áætlanir. „Og það þýðir ekkert að setja það á sem eitthvert aukaverkefni,“ segir eldfjallafræðingurinn.

Óþreyja og jafnvel reiði

Á meðal Grindvíkinga gætir vaxandi óþreyju og jafnvel reiði, segir Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og Grindvíkingur til 40 ára.

Gert er ráð fyrir að Grindvíkingar fái í dag og næstu daga að vitja eigna sinna í bænum, gegn ströngum takmörkunum, en þeir munu þar sæta eftirliti og gæslu.

Hamfarirnar í Grindavík eru sérstakar og flóknari en þær sem við höfum áður þurft að takast á við, segir Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, sem ritar um hamfarirnar og næstu skref í blaðinu í dag.

Höf.: Skúli Halldórsson