Ingimundur Guðmundsson fæddist á Kleifum á Selströnd við Steingrímsfjörð í Strandasýslu 17. ágúst 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 11. janúar 2024. Foreldrar hans voru Guðmundur Jóhannsson, bóndi á Kleifum og síðar fiskmatsmaður, f. 17.6. 1903, d. 26.10. 1977, og kona hans Ingimunda Þorbjörg Gestsdóttir, ljósmóðir, f. 23.7. 1904, d. 13.7. 1989. Systkini Ingimundar voru Jóhann, f. 4.1. 1929, d. 10.2. 2023, kvæntur Soffíu Þorkelsdóttur, Halldór, f. 20.5. 1935, d. 26.2. 2006, kvæntur Sóleyju G. Tómasdóttur, og Guðrún, f. 13.11. 1946, d. 22.12. 1995, gift Guðmundi Ragnari Jóhannssyni.

Þann 8. maí 1955 kvæntist Ingimundur Ásdísi Ólafsdóttur frá Flateyri, f. 8.12. 1932, d. 26.6. 2000. Foreldrar hennar voru Ólafur G. Sigurðsson, bóndi, kennari og hreppstjóri á Flateyri, og Valgerður Guðmundsdóttir, húsfreyja. Sambýliskona Ingimundar frá árinu 2001 til dánardægurs var Þórunn Kristín Bjarnadóttir frá Flateyri, f. 20.6. 1933. Foreldrar Þórunnar voru Bjarni Þórðarson, trésmiður og Guðríður Guðmundsdóttir, húsfreyja.

Börn Ingimundar og Ásdísar eru: 1) Ólafur Valgarð, f. 29.7. 1953, kvæntur Ingibjörgu Andreu Magnúsdóttur, þau eiga þrjár dætur og fjögur barnabörn. Ingi Guðmar, f. 19.11. 1955, kvæntur Unni Elínu Kjartansdóttur, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn, Svandís, f. 5.8. 1960, hún á eina dóttur með Stefáni Richter og tvö barnabörn, Arnar Freyr, f. 22.9.1966, kvæntur Valrúnu Valgeirsdóttur, þau eiga þrjár dætur og þrjú barnabörn. Fyrir átti Arnar dótturina Elísabetu með Guðnýju Sigurjónsdóttur, en Elísabet lést í bílslysi árið 2001. Yngst er Bryndís, f. 12.1. 1970, gift Helga Kristjónssyni, og eiga þau þrjú börn.

Ingimundur ólst upp á Kleifum og síðar á Hólmavík. Hann lauk gagnfræðanámi í Reykjaskóla í Hrútafirði, nam vélvirkjun í Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar og í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann tók sveinspróf 1952 og vélstjórapróf frá Vélskóla Íslands árið 1955 og síðar vélfræðingspróf. Hann var vélstjóri á dýpkunarskipinu Gretti í fjölmörg ár og starfaði lengst af við útgerð og vélstjórn á fiski- og farskipum eða til ársins 1988, þ.m.t. við útgerð á eigin bátum, Snarfara ST17 og Guðbjörgu ST17. Frá 1988 til starfsloka árið 2000 starfaði Ingimundur við Íþróttahús Kársnesskóla í Kópavogi.

Ingimundur og Ásdís bjuggu lengst af á Kópavogsbraut 93 og ólu börn sín upp þar utan tveggja ára er þau fluttu búferlum til Hólmavíkur þar sem Ingimundur gerði út eigin bát. Búskaparárunum með Þórunni, eftir fráfall Ásdísar, eyddu þau í Hamraborg 14 en sl. tæp þrjú ár hafa þau Þórunn notið umönnunnar á Skjóli.

Ingimundur var fjölhæfur maður og afkastamikill um ævina bæði í verklegum framkvæmdum og listum. Hann spilaði á harmonikku og píanó frá unga aldri, söng í kórum lengst af ævinnar og hittust þau Ásdís fyrst í kórastarfi. Eftir hann liggur mikið magn ljóða og tækifærisvísna auk laga. Á efri árum fór hann að mála vatnslitamyndir og hélt á þeim sýningu á Hólmavík, Drangsnesi og í Bolungarvík. Hann málaði einnig postulínsgripi og færði afkomendum sínum. Ingimundur gekk til liðs við Oddfellowstúkuna Þorgeir nr. 11, árið 1965 og var þar virkur félagi og bróðir á meðan heilsa hans leyfði.

Útför Ingimundar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 29. janúar 2024, og hefst athöfnin kl. 13. Streymt verður frá athöfninni á:

https://mbl.is/go/rbhx3

Kynjaður af köldum Ströndum

með kokkabók, sem vopn í höndum.

Sigldir vonarseglum þöndum,

suður í ókunn draumalönd.

Gæfunni þar gekkst á hönd.

Ungur tamdir ýmsar menntir,

ötull vildir, þorðir, nenntir.

Í hálfa öld þú örmum spenntir,

óska og vona þinna dís.

Hamingjan þar heilsteypt rís.

Sjóarinn hinn söngvaglaði,

sínu af hverju áorkaði.

Úti á sjó og heima á hlaði,

hvað það sem úr lagi gekk.

Hann Ingimundur fixað fékk.

Ótal stunda er að minnast,

okkur mun það löngum finnast.

Að þegar sálir saman tvinnast,

um sinna niðja gæfu og hag.

Þá hljómar fagurt lífsins lag.

Ærinn kvóta af ástarþökkum,

áttu nú hjá þínum krökkum.

Að syngi í vírum, braki í blökkum,

búast má við daginn þann,

er inn þú hífir allan hann.

Eigðu þýða efri daga,

þó enn sé margt sem þarf að laga.

Langþjálfaða höndin haga,

hjartans blómið aftur fær,

sem Drottinn tók til geymslu í gær.

(K.Á.)

Elsku pabbi, við kveðjum þig með ljóðinu sem samið var til þín í tilefni sjötugsafmælis þíns með hjartans þökk fyrir allt það sem þú varst okkur og það sem þú gafst okkur á langri ævi.

Ólafur, Ingi, Svandís, Arnar og Bryndís.

Elsku afi.

Það eru mörg falleg orð sem lýsa þér: Gleðigjafi, söngvari, stoltur og húmoristi, svo nokkur séu nefnd. Svo varstu líka með ótrúlega sköpunargleði sem við hin fengum að njóta.

Þú varst afar skemmtilegur og duglegur maður, dugnaðurinn skein fram í stórkostlega garðinum sem þú skapaðir á Kópavogsbrautinni, það var hvergi skemmtilegra að leika sér en þar. Dugnaðurinn skein einnig fram þegar þú keyptir Tröðina og gerðir hana upp, svo gott sem alveg sjálfur. Enda barðirðu þér á brjóst með bros á vör og sagðist vera seigur þegar að þú sýndir Tryggva húsið fyrst.

Það sem ég var heppin að fá tækifæri til að búa hjá ykkur ömmu um skeið þegar við fluttum í bæinn frá Hofsósi, að fá að lúlla á milli ykkar ömmu eftir að þú last fyrir mig voru ómetanlegar stundir. Að fá svo að búa svo gott sem í næsta húsi við ykkur árin á eftir voru einnig alger forréttindi, enda var ég ansi oft hjá ykkur í yndislega húsinu ykkar (takk fyrir allt klinkið).

Píanóspil einkenndi þig og auðvitað söngurinn, það var æðislegt að hlusta á þig spila og syngja enda nýttirðu hvert tækifæri til þess að gera akkúrat það. Þú samdir líka svo fallegar vísur og eigum við fjölskyldan nokkrar frábærar vísur um okkur eftir þig, en þær ylja okkur svo sannarlega og kalla fram bros.

Ég hef aldrei vitað neinn jafn stoltan af sínum afkomendum eins og þig. Þú nefndir í hvert sinn sem við hittumst undanfarin ár hvað allir afkomendur þínir væru flottir og heilbrigðir. Þar þakkaðir þú nú oftast Pálsættinni góðu um.

Ég fæ að kveðja þig með einni af þínum fjölmörgu vísum en þér leiddist nú aldrei að fá athygli út á það sem þú skapaðir:

Inga Dís þriggja ára á Hofsósi:

Þótt árin líði eitt, tvö, þrjú,

ég aldrei verð í vafa.

Þú ert alltaf eins og nú,

elsku drottning afa.

Takk, elsku besti afi minn, fyrir allt sem þú gafst okkur. Ég elska þig,

Inga Dís.