Fundahöld Frá samningafundi með sáttasemjara í lok síðasta árs.
Fundahöld Frá samningafundi með sáttasemjara í lok síðasta árs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján Jónsson kris@mbl.is Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist hafa fengið mikil viðbrögð við hugmyndinni sem hann kastaði fram í Spursmálum á mbl.is á föstudag. Þar sagði Vilhjálmur að heppilegast væri ef hækkanir sem urðu um áramót hjá opinberum og einkaaðilum yrðu dregnar til baka og launahækkanir í nýjum kjarasamningum yrðu þá 0% fyrstu tólf mánuðina.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist hafa fengið mikil viðbrögð við hugmyndinni sem hann kastaði fram í Spursmálum á mbl.is á föstudag. Þar sagði Vilhjálmur að heppilegast væri ef hækkanir sem urðu um áramót hjá opinberum og einkaaðilum yrðu dregnar til baka og launahækkanir í nýjum kjarasamningum yrðu þá 0% fyrstu tólf mánuðina.

„Ég leyfi mér að segja hreinskilnislega að viðbrögðin við þessu hafa verið mjög mikil. Ég hef svo sem talað um þetta, bæði í okkar hópi á undanförnum vikum og hef nefnt þetta við Samtök atvinnulífsins. Mér finnst mjög ánægjulegt að finna þessi jákvæðu viðbrögð víða við þessari hugmynd. En það segir okkur hvað þessar miklu gjaldskrárhækkanir og verðhækkanir eru farnar að hafa mikil áhrif á fólk,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að mjög ánægjulegt hafi verið að heyra Samband íslenskra sveitarfélaga taka vel í hugmyndina því til þess að hægt verði að hrinda hugmyndinni í framkvæmd þyrftu allir að vera með.

Miklar hækkanir um áramótin

Forystufólk í breiðfylkingu stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði mun koma saman í dag og fara yfir málin.

„Þegar ég rýni í allar þær hækkanir sem urðu um áramótin þá er ábati fyrir okkar félagsmenn meiri að fara þessa leið sem ég legg upp með heldur en að fara leiðina sem skilar okkar fólki í kringum 16.700 krónum í vasann eftir skatta. Ávinningurinn af þessu yrði sá að verðbólga myndi að öllum líkindum ganga mjög hratt niður og vextir myndu væntanlega fylgja hratt með. Ávinningurinn væri að mínum dómi æpandi ef þannig má að orði komast.“

Vilhjálmur nefnir dæmi um hækkanirnar. „Ég og Sólveig Anna fengum tölvupóst frá fimm barna föður úr ónefndu sveitarfélagi. Frá áramótum hafa þrír liðir hækkað greiðsluþjónustuna hjá þeim hjónum um 41.700 krónur. Þessir liðir eru fasteignagjöld, hiti og rafmagn og leikskólagjöld. Til þess að hafa ráðstöfunartekjur upp á 41.700 krónur þyrfti að hækka launin um 65 þúsund krónur,“ segir Vilhjálmur. Spurður hvort snúið geti orðið að ná niðurstöðu segir hann að svo geti farið.

„Já, ég held þetta geti orðið dálítið snúið en okkar markmið eru alveg skýr. Við viljum sjá ráðstöfunartekjur félagsmanna okkar aukast með fleiru en beinum launahækkunum.“

Þegar fréttin var skrifuð í gær hafði ríkissáttasemjari ekki boðað til fundar í kjaraviðræðum Breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA segist reikna með því að boðað verði til fundar á næstu dögum.

Semja þarf um mörg atriði

„Við höfum sett viðræðurnar við Breiðfylkinguna í forgang og þær eru enn í gangi. Ég myndi orða það sem svo að ekki beri mikið í milli. En til að ljúka samningum þurfa allir að gefa eitthvað eftir og það þarf að vera samtal í gangi. Þegar unnið er að langtímakjarasamningum með skýr markmið þá eru fjölmörg atriði sem ná þarf samkomulagi um. Ég held að við séum öll sammála um að gera langtímasamninga og leggja grunn að efnahagslegum stöðugleika. Þegar mikið er í húfi er ekki óeðlilegt að menn takist á og vilji vanda sig,“ segir Sigríður Margrét.