Ólympíufari Anton Sveinn náði í tvö gull á Reykjavíkurleikunum.
Ólympíufari Anton Sveinn náði í tvö gull á Reykjavíkurleikunum. — Morgunblaðið/Óttar
Ólympíufararnir Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee voru með mikla yfirburði í sínum sterkustu greinum í sundi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalslaug í gær. Snæfríður keppti í 100 og 200 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi

Ólympíufararnir Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee voru með mikla yfirburði í sínum sterkustu greinum í sundi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalslaug í gær.

Snæfríður keppti í 100 og 200 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi. Hún kom fyrst í mark í öllum greinunum. Byrjaði hún á að gera mótsmet í 200 metra skriðsundi er hún synti á 2:01,44 mínútum og var fjórum sekúndum á undan Völu Dís Cicero.

Sigurinn var öllu naumari í 50 metra flugsundi, sem hún synti á 28,11 sekúndum. Hin danska Anna Munk Fuglsang varð önnur á 28,22 sekúndum. Í 100 metra skriðsundi kom hún í mark á 56,33 sekúndum og var tæplega tveimur sekúndum á undan Fenju Romanski frá Danmörku.

Snæfríður er Íslandsmethafi í skriðsundsgreinunum en var nokkuð frá metum sínum. Metið í 100 metra skriðsundi er 54,74 sekúndur og 1:57,98 mínúta í 200 metra skriðsundi.

Anton Sveinn keppti 100 og 200 metra bringusundi. Vann hann nauman sigur í 100 metrunum er hann kom í mark á 1:02,92 mínútu. Snorri Dagur Einarsson var aðeins 0,2 sekúndum á eftir. Íslandsmet Antons í greininni er 1:00,32 mínúta.

Anton var svo með gríðarlega yfirburði í 200 metra bringusundi en Anton vann silfur á EM í desember í greininni. Hann kom í mark á 2:14,85 mínútum, tæpum 15 sekúndum á undan Hólmari Grétarssyni sem varð annar. Íslandsmet Antons er 2:08,74 mínútur.

Nánar er fjallað um mótið á mbl.is/sport/reykjavikurleikar