Ekkert bendir með skýrum hætti til að breytinga sé að vænta í borginni

Nýr borgarstjóri svarar því nokkuð drjúgur í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins að hann óttist ekki að fyrrverandi borgarstjóri andi ofan í hálsmálið á sér. „Þetta eru skýr skipti, hér er bara einn borgarstjóri,“ svarar Einar Þorsteinsson spurður um þetta.

Það á eftir að koma í ljós hvort Einar verður sá borgarstjóri sem hann gefur í skyn en þegar hann er spurður út í það hvaða breytingar muni fylgja borgarstjóra flokks breytinganna frá síðustu kosningum verður heldur fátt um svör. Hann segir að sá meirihluti sem nú situr sé „miklu miðjusinnaðri“ en meirihlutinn sem sat fyrir síðustu kosningar, en ekki verður séð í hverju sá munur liggur. Þá telur nýr borgarstjóri að hagrætt hafi verið á annan hátt og betri en áður, sem kann að vera og á eftir að koma í ljós, en enn sem komið er að minnsta kosti sjást ekki nein merki þess að fjárhagsstaðan hafi batnað.

Það eina sem segja má að bendi til að nýr borgarstjóri vilji breytingar er áherslan í skipulagsmálum, þó að þar þurfi nokkuð ríkan vilja til að lesa áform um breytingar út úr fyrrnefndu viðtali. Einar segir að hann vilji „halda áfram að þétta byggð kringum almenningssamgöngur en á sama tíma verðum við líka að ryðja land og stækka borgina til austurs“.

Þetta gefur ákveðnar vonir um að ekki sé útilokað að uppbygging borgarinnar geti orðið með eðlilegri hætti en verið hefur í tíð Dags B. Eggertssonar. Þegar vilji nýs borgarstjóra virðist veikur og aðrir flokkar í meirihlutanum sitja enn við sama keip, þá er þó afar varhugavert að gera ráð fyrir breytingum sem nokkru nema við stjórn borgarinnar. Því miður.