Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Hóflegur hluti fjármuna eldri borgara sem fallnir eru frá til að bæta síðustu æviár og tryggja velferð eldri borgara – hvað gæti passað betur saman?

Ole Anton Bieltvedt

Þegar aldur færist yfir menn og þeir standa andspænis ellinni, sjá hana færast yfir sig, ættingja, vini og aðra samferðamenn, opnast augun fyrir því betur en áður að hún er ansi laskað æviskeið hjá mörgum.

Staðan verður auðvitað hvað erfiðust ef heilsan bilar. Hvernig eiga menn þá að sjá sér farborða og bjarga sér í gegnum það öldurót kvaða, skyldna og fjárkrafna sem þjóðfélagið leggur þeim á herðar?

Konur lifa lengur en karlmenn og verða því margar ekkjur. Allt í einu þurfa þær þá á eigin spýtur að standa fyrir fjármálum og öðrum skyldum við þjóðfélagið sem þær hafa kannski komið lítið nálægt áður.

Á síðustu árum hefur undirritaður horft upp á hvernig eldri borgarar hafa hvað eftir annað setið eftir þegar þeim fjármunum sem þjóðfélagið hefur til skiptanna hefur verið úthlutað.

Yngri kynslóðirnar virðast jafnan hafa tilhneigingu til að skammta sér fyrst. Fatlaðir, sjúkir og aldnir, þeir sem minnst mega sín, koma svo aftar á merinni.

Í nýlegri heilsíðuauglýsingu segir LEB, Landssamband eldri borgara, m.a. þetta:

„20 þúsund manns undir eða við lágmark – LEB bendir á að um tuttugu þúsund manns (eldri borgarar) lifa rétt við eða undir lágmarksmörkum og þola engar óvæntar uppákomur. Kjör og aðstæður þeirra sem verst eru sett eru einu ríkasta samfélagi heims til skammar. Þetta er fólk sem hefur litlar sem engar lífeyristekjur, hefur alla tíð haft lítil laun, er að hluta aðflutt og að miklum meirihluta konur.“

Landssambandið gerir kröfu um sérstakar skattaívilnanir fyrir þennan hóp til að grundvallarafkoma hans verði alla vega að nokkru tryggð.

Ekki er þetta vísbending um að vel sé farið með fólkið sem byggði að miklu leyti þetta land og innviði þess upp. Það mikla framlag er af ráðamönnum okkar tíma greinilega ekki mikils metið. Nánast lítilsvirt og smánað.

Ef menn fara um stræti og torg þorpa og bæja eða um sveitir landsins vítt og breitt blasa við innviðir – margvísleg verk manna og mannvirki; vegir, brýr, hafnir, flugvellir, virkjanir, gróðursvæði og skógar, skólar, sjúkrahús og byggingar hvers konar – sem yngri kynslóðirnar, ráðandi kynslóðir, nota sér og nýta til síns lífs, þarfa og athafna; til sinnar velferðar.

Að verulegu leyti eru það eldri borgararnir sem lögðu þessa innviði af mörkum, gerðu yngri kynslóðunum fært að njóta lífsins í þeim mæli sem þær gera með miklu vinnuframlagi, útsjónarsemi og úrræðum, svo og skattgreiðslum.

Hver byggði Borgarspítalann, Landspítalann, lagði Hringbraut-Miklubraut, Laugaveg-Suðurlandsbraut, byggði Háskólann, Þjóðleikhúsið, Hallgrímskirkju og Sjómannaskólann og svo Búrfellsvirkjun? Rétt fáein dæmi.

Mat undirritaðs er að eldri borgarar hafi þá þegar jafnað skyldur sínar og skuld við samfélagið eftir 50 ára vinnu- og skattaframlag og að tími sé til kominn þegar menn verða 75 ára að þeir fái frið fyrir fjárhagslegri kröfugerð og framlagi til samfélagsins. Losni út kröfukrumlu hins opinbera. Nógur sé líka oft annar vandi.

Ég vil leggja fram þá tillögu að þegar 75 ára aldri er náð verði skattaskyldur við þjóðfélagið felldar niður. Menn greiði þó áfram fjármagnstekjuskatt, en á bak við hann standa jafnan nokkur efni.

Ætla má að þeir eldri borgarar sem vettlingi geta valdið myndu nýta aukin fjárráð til eyðslu og neyslu. Flestir vita að þeir fara ekki með neitt með sér og myndi niðurfelling beinna skatta á 75 ára og eldri skila sér í aukinni neyslu, sem um leið þýddi ákveðna viðbótargrósku fyrir efnahagslífið; auknar skatt- og virðisaukaskattstekjur á móti.

Hagfræðideild Háskóla Íslands reiknaði út fyrir undirritaðan hvað þetta skattleysi myndi kosta opinbera aðila í tekjumissi. Með hóflegri hækkun á erfðafjárskatti upp í svipað hlutfall og fjármagnstekjuskatturinn er/stefnir í, 25%, mætti dekka þessa tekjuskerðingu.

Hóflegur hluti af fjármunum eldri borgara sem fallnir eru frá, farnir í annan heim, til að bæta síðustu æviár og tryggja velferð eldri borgara sem enn lifa; hvað gæti passað betur saman?

Menn geta velt fyrir sér réttmæti erfðafjárskatts en staðreyndin er annars vegar að eigur hvers og eins verða til í eða koma úr því samfélagi sem viðkomandi hefur lifað og hrærst í. Fer því ekki illa á því að þær renni, a.m.k. að hluta, þangað aftur og hins vegar að þegar arfleifandi hefur yfirgefið þennan blessaða heim skipta jarðneskar eigur hans hann engu máli lengur.

Auk þess á arfleifandi alla möguleika á að ráðstafa sínum fjármunum áður en hann yfirgefur heiminn ef hann vill og hefur sérstakar óskir um hvert þeir skuli renna.

Skattlagning erfðafjármuna er alls staðar talin eðlileg tekjulind ríkisins. Í BNA t.a.m. er þessi skattur almennt 40% eftir að ákveðin skattlaus fjárhæð hefur verið dregin frá og í Þýskalandi fer þessi skattur upp í 50%.

Undirritaður hefur lagt þetta mikla velferðar- og jafnréttismál eldri borgara fyrir Viðreisn með áskorun um að flokkurinn taki málið upp sem sérstakt og þýðingarmikið baráttumál fyrir kosningarnar 2025.

Forystan hefur tekið því afar vel enda fellur málið vel að jafnréttishugsjónum og velferðarstefnu flokksins. Stefnir allt í að næsta landsþing hans muni staðfesta upptöku málsins sem eins stærsta og mikilvægasta baráttumáls fyrir þingkosningar 2025. Væri það vel fyrir land og þjóð og kynnu önnur lönd menningar og jafnréttis að fylgja.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt