Fé Verndandi arfgerð gegn riðu fannst í lambhrút í Dalasýslu
Fé Verndandi arfgerð gegn riðu fannst í lambhrút í Dalasýslu — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Afar mikilvægt er að genasamstæðan ARR, sem er verndandi fyrir riðu og viðurkennd af Evrópusambandinu, hafi fundist í lambhrút í Dalasýslu.“ Þetta segir Þorvaldur H. Þórðarson, settur yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, um uppgötvunina í Hörðudal sem Morgunblaðið greindi frá á laugardag

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Afar mikilvægt er að genasamstæðan ARR, sem er verndandi fyrir riðu og viðurkennd af Evrópusambandinu, hafi fundist í lambhrút í Dalasýslu.“ Þetta segir Þorvaldur H. Þórðarson, settur yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, um uppgötvunina í Hörðudal sem Morgunblaðið greindi frá á laugardag.

„Reynist lambhrúturinn að Vífildal í Hörðudal í Dalasýslu óskyldur fénu á Þernunesi í Reyðarfirði, þar sem genasamstæðan ARR fannst árið 2022, gæti þessi niðurstaða auðveldað að rækta upp hjarðir í landinu sem bera verndandi arfgerð fyrir riðu. Þá hefur þetta mikil áhrif í þá veru að minnka skyldleikaræktun í fjárstofninum,“ segir Þorvaldur og bendir á að þessi niðurstaða hafi áhrif á genabreidd, sem skipti miklu máli varðandi aðra erfðaþætti, svo sem líkamsbyggingu, ullargæði og fleira.

Bundnar eru vonir við að arfgerðin finnist í fleira fé sem myndi hjálpa í baráttunni gegn riðu.

„Ötullega er unnið að því að rækta upp fé sem getur varist riðu. Þá skiptir miklu máli að ná sem hæstu hlutfalli af verndandi arfgerð í sem flestum hjörðum í landinu. Því fleira fé sem finnst með verndandi arfgerð, því betur gengur að rækta upp ónæma stofna. Þá eru jafnframt líkurnar meiri að ná í fjölbreyttari genasamsetningu á öðrum sviðum. Vonandi leiðir áframhaldandi leit að verndandi arfgerð til þess að arfgerðin finnist í fleira fé í landinu. Hugsanlegt er að fleira fé í Hörðudal sé með arfgerðina. Því fleiri einstaklingar sem finnast með verndandi arfgerð, því fyrr næst að vernda fjárstofna í landinu fyrir riðu.“