Elínborg Sturludóttir
Elínborg Sturludóttir
Sr. Elínborg Sturludóttir, prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, hefur ákveðið að taka við tilnefningum í biskupskjöri. Nú í byrjun febrúar, á fárra daga tímabili, geta prestar og djáknar skilað kjörnefnd Þjóðkirkjunnar tilnefningum um frambjóðendur í embætti biskups Íslands

Sr. Elínborg Sturludóttir, prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, hefur ákveðið að taka við tilnefningum í biskupskjöri. Nú í byrjun febrúar, á fárra daga tímabili, geta prestar og djáknar skilað kjörnefnd Þjóðkirkjunnar tilnefningum um frambjóðendur í embætti biskups Íslands. Tilnefnd ráða hvort þau svara kalli eða ekki, en skv. fyrirliggjandi reglum verða þau þrjú, sem flestar tilnefningar fá, í kjöri sem fer fram í mars.

„Ég vil vinna gagn með öllum störfum mínum og gef því kost á mér,“ segir Elínborg. „Hef því síðustu daga verið í sambandi við starfsystkini mín og látið vita af mér í tilnefningarferlinu. Oft vill næða um starf Þjóðkirkjunnar sem nú starfar eftir lögum sem tóku gildi fyrir fáum árum. Þar er verkefnum að mæta og einnig þarf kirkjan að koma vel til móts við sífellt fjölbreyttara samfélag á landsvísu.”

Elínborg er fædd árið 1968 og hefur verið prestur í Grundarfirði, Stafholti í Borgarfirði og sl. sex ár í Dómkirkjunni í Reykjavík. „Að hafa þjónað í sveit, sjávarþorpi og miðborginni skapar fjölbreytta reynslu,“ segir hún.

Sex prestar

Elínborg er sjötti presturinn sem kveðst taka tilnefningum um að vera í kjöri sem biskup. Hin eru Helga Soffía Konráðsdóttir, Ninna Sif Svavarsdóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson, Svavar Alfreð Jónsson og Kristján Björnsson. sbs@mbl.is