Örlagavaldur Bæjarútgerðartogaranir Bjarni Benediktsson (t.h.) og Snorri Sturluson (t.v.) í heimahöfn í Reykjavík. Eftir ákveðna byrjunarörðugleika reyndust togararnir vel og skiluðu miklu hráefni til útgerðarinnar.
Örlagavaldur Bæjarútgerðartogaranir Bjarni Benediktsson (t.h.) og Snorri Sturluson (t.v.) í heimahöfn í Reykjavík. Eftir ákveðna byrjunarörðugleika reyndust togararnir vel og skiluðu miklu hráefni til útgerðarinnar. — Ljósmynd/Þjóðminjasafnið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Deildar meiningar um Bæjarútgerð Reykjavíkur Eins og aðrar togaraútgerðir hafði Bæjarútgerð Reykjavíkur átt við langvarandi erfiðleika að etja á sjötta og sjöunda áratugnum. Öðru hvoru veltu menn vöngum yfir því hvort rétt væri að leggja fyrirtækið niður eða breyta því í hlutafélag

Deildar meiningar um Bæjarútgerð Reykjavíkur

Eins og aðrar togaraútgerðir hafði Bæjarútgerð Reykjavíkur átt við langvarandi erfiðleika að etja á sjötta og sjöunda áratugnum. Öðru hvoru veltu menn vöngum yfir því hvort rétt væri að leggja fyrirtækið niður eða breyta því í hlutafélag. Árið 1957 lagði útgerðarráð BÚR til að rekstur fyrirtækisins yrði efldur með því að það byggði og ræki frystihús í Reykjavík. Einn af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson, var andvígur tillögunni og sagði að ef það væri skoðun manna að útgerð og frystihúsarekstur yrði að fara saman, væri rétt að selja togara Bæjarútgerðarinnar til fyrirtækja í bænum sem rækju frystihús. Geir sagði það skoðun sína að „einkafyrirtæki væru ávallt rekin betur en opinber fyrirtæki, þótt BÚR væri vafalaust best rekna opinbera togaraútgerðin í landinu, eins og reynslan hefði einnig sýnt.“

Karfaævintýrið á Nýfundnalandsmiðum 1958 og 1959 reyndist góð búbót fyrir togaraútgerðina á Íslandi. Kom þá enn til tals að nota tækifærið og selja togara BÚR en þegar á reyndi höfðu útgerðarmenn meiri áhuga á að kaupa ný skip en gömul. Ævintýrið stóð stutt og eftir það sótti í sama horf og áður með togaraútgerðina, jafnt hjá Bæjarútgerðinni og öðrum. Togarar hennar lágu stundum langtímum saman í höfn og söfnuðu ryði og útgerðin safnaði skuldum. Á árinu 1964 gerðu framkvæmdastjórar Bæjarútgerðar Reykjavíkur, þeir Hafsteinn Bergþórsson og Þorsteinn Arnalds, úttekt á stöðu útgerðarinnar og skiluðu greinargerð um möguleika hennar í náinni framtíð þar sem þeir töldu að um þrjá kosti væri að ræða: Í fyrsta lagi að halda áfram togararekstri með halla, í öðru lagi að leggja skipum útgerðarinnar í höfn og halda þeim þannig við að þau gætu haldið til veiða með skömmum fyrirvara. Þriðji valkosturinn væri að leggja skipunum við múrningar inni á Sundum, sem þýddi að þau myndu ganga úr sér á tiltölulega stuttum tíma.

Hugsanleg skuttogarakaup BÚR komust fyrst til umræðu opinberlega á borgarstjórnarfundi í janúar 1963 er Guðmundur Vigfússon borgarfulltrúi sósíalista flutti tillögu um að útgerðinni yrði falið að kanna möguleika á að láta smíða að minnsta kosti eitt slíkt skip og jafnframt yrðu kannaðir möguleikar á útgerð verksmiðjutogara. Tillaga Guðmundar fékk ekki mikinn hljómgrunn í borgarstjórn. Geir Hallgrímsson borgarstjóri hafði leitað umsagnar framkvæmdastjóra BÚR sem taldi að meiri reynsla þyrfti að vera komin á þessa gerð skipa erlendis áður en lagt væri í kaup á þeim til landsins. Þá væri fjárhagur BÚR svo bágborinn að ekki væri svigrúm til fjárfestinga og skuld fyrirtækisins við framkvæmdasjóð borgarinnar væri tæpar 60 milljónir króna. Fyrst og síðast taldi borgarstjóri að það væri í verkahring útgerðarráðs og stjórnenda BÚR að gera tillögu til borgarstjórnar um hvenær væri hagkvæmt að huga að skuttogarakaupum. Með þessari röksemdafærslu var tillögu Guðmundar vísað frá.

Sveinn Benediktsson var maður einkaframtaksins en var ætíð eindreginn andstæðingur þess „að Bæjarútgerðinni yrði slátrað“ eins og hann sagði við Kristin Baldursson. „Hann sá ekki hvernig hægt væri að einkavæða útgerðina,“ sagði Benedikt Sveinsson, sonur Sveins. Víst er að Sveinn taldi alltaf að fyrirtækið hefði öðrum og veigameiri skyldum að gegna en aðrar útgerðir í borginni en þegar mest var unnu um 400 manns hjá fyrirtækinu og óbeint veitti hún einnig fjölda annarra atvinnu.

Þegar skuttogaravæðingin hófst var enn varpað fram þeirri kenningu að rétt væri að leggja Bæjarútgerð Reykjavíkur niður. Því var Sveinn algjörlega andvígur. Hann taldi að borgin ætti að halda sömu stefnu og í upphafi útgerðarinnar að fá til sín tvo af hverjum þremur togurum sem rætt var um að kaupa og jafnframt lagði hann áherslu á að haldið yrði sama rekstrarformi og áður. Það myndi í engu bæta stöðu fyrirtækisins að breyta því í hlutafélag heldur væri þvert á móti líklegt að það myndi minnka tiltrú lánardrottna á greiðslugetu þess.

Þegar Geir Hallgrímsson var orðinn borgarstjóri ítrekaði hann þá skoðun sína að ríki og sveitarfélög ættu að öllu jöfnu aðeins að skapa viðunandi skilyrði fyrir atvinnurekstur einkaframtaksins og þau afskipti ættu að nægja – en svo hafði hins vegar ekki verið í útgerðarmálum Reykjavíkinga eftir stríð.

„Ef þau afskipti eru hins vegar ekki nægileg, hygg ég að sveitarfélaginu beri skylda til þess á hverjum tíma að taka málið til meðferðar og binda sig þá ekki við eina eða neina fræðikenningu, heldur gera það sem heppilegast og hagkvæmast er fyrir allan almenning í borginni.“

Í borgarstjórn Reykjavíkur hafði Sjálfstæðisflokkurinn sett sér þá reglu að fulltrúar flokksins í fastanefndum borgarinnar létu af störfum þegar þeir urðu sjötugir. Það kom því af sjálfu sér að Sveinn hætti í útgerðarráði frá og með 12. maí 1975. Hann fylgdist þó áfram náið með útgerðinni og birtist til dæmis viðtal við hann í Morgunblaðinu þegar haldið var upp á 30 ára afmæli fyrirtækisins í febrúar árið 1977.

Það eru gömul sannindi og ný að allt á sinn tíma, líka Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þegar árin liðu minnkaði vægi hennar í atvinnulífi Reykjavíkur og árið 1985 var útgerðarfyrirtækið Grandi hf. stofnað með samruna Bæjarútgerðarinnar og Ísbjarnarins hf., fyrirtækis Ingvars Vilhjálmssonar og fjölskyldu hans. Systursonur Sveins, Benedikt Blöndal hrl. átti drjúgan þátt í framkvæmd sameiningarinnar en hann sá um lögfræðileg atriði hennar ásamt Jóni G. Tómassyni borgarritara.

Þar með lauk sögu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Hlutverk hennar var Reykjavík mikilvægt meginhluta þeirra tæpu fjörutíu ára sem hún starfaði. Enginn átti eins veigamikinn þátt í sögu fyrirtækisins og Sveinn Benediktsson.

Sveini þakkað á borgarstjórnarfundi

Þegar Sveinn lét af formennsku í útgerðarráði brá borgarstjórn út af vana sínum og fjallaði sérstaklega um starfslok hans. Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri flutti ræðu á borgarstjórnarfundi 6. nóvember 1975 og sagði þá meðal annars: „Störf Sveins að útgerðarmálum í Reykjavík og þá ekki síst í þágu Bæjarútgerðar Reykjavíkur eru það mikil og giftudrjúg að ég vil minnast þeirra nokkrum orðum um leið og ég þakka Sveini hans miklu störf. Slíkt er óvanalegt hér í borgarstjórn, en það er einnig óvanalegt, að sami maður starfi óslitið í 35 ár á vegum borgarinnar að jafn mikilvægum málaflokki og útgerðarmál eru.“ Birgir Ísleifur rakti síðan störf Sveins fyrir Bæjarútgerðina og lauk máli sínu með því að segja: „Ég veit að ég mæli fyrir munn allrar borgarstjórnar þegar ég nú flyt Sveini Benediktssyni bestu þakkir fyrir þessi frábæru störf. Ég veit, að hugur hans verður áfram hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur, og ég vona, að við megum áfram njóta hans góðu ráða, þótt hann hverfi nú úr útgerðarráðinu.“

Skuttogaravæðingin var enn ein byltingin í íslenskri útvegssögu. Þótt mesta athyglin beindist að Spánartogurunum fjórum, og þá sérstaklega að þeim fyrsta, Bjarna Benediktssyni, var mikið um að vera í smíði skuttogara fyrir Íslendinga. Fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga mun hafa verið botnvörpungurinn Barði sem keyptur var notaður til Neskaupstaðar í desember 1970. Auk Spánar voru skuttogarar Íslendinga meðal annars smíðaðir í Japan og Póllandi. Þótti það miður að stærstu íslensku skipasmíðastöðvarnar skyldu ekki taka þátt í skuttogarasmíðinni en úr því var bætt árið 1977 er botnvörpungnum Stálvík var hleypt af stokkunum hjá Skipasmíðastöðinni Stálvík í Garðabæ. Nokkrir fleiri skuttogarar voru smíðaðir hérlendis, meðal annars Ottó N. Þorláksson sem Stálvík smíðaði fyrir BÚR og þótti eitt fullkomnasta skip flotans. Skuttogaravæðingin tók ótrúlega skamman tíma því um áramót 1978–1979 voru 79 slík skip komin í flota landsmanna.