Guðlaug Halldóra Guðmundsdóttir fæddist 18. júlí 1931. Hún lést 4 . janúar 2024.

Útför Guðlaugar fór fram 27. janúar 2024.

Við höfum nú við dánarbeð kvatt elskulega tengdamóður mína, hana Laugu á Hömrum. Ekki lítill hópur sem kveður í dag í kirkjunni hennar, þar sem víðfrægasta fjall Íslands, Kirkjufellið, gnæfir af hógværri tign sinni yfir þau okkar sem búa við Grundarfjörðinn. Og enn stærri er hópur fjölmargra velgjörðarþega Laugu á Hömrum: sveitunga, sveitabarna vina, vandamanna og viðskiptavina verslunar Laugu og annarra sem samferða voru henni á langri lífsleið, nutu örlætis hennar og rausnarskapar. Og ekki síður kátínu Laugu, glaðværðar og smitandi hláturs, sem nú má bara hljóma í hugum okkar sem á eftir henni horfum. Ég verð ávallt þakklátur örlögunum og forsjá lífsins að hafa hagað því svo snilldarlega að fá að eignast dóttur Laugu og Harðar, Hrönn á Hömrum. Þegar ég hitti þau heiðurshjón fyrsta sinni á Hömrum rann ekki einasta upp ný hamingjustund í mínu lífi, heldur opnaðist ný gátt sveitar og byggðar sem gaf mér góða sýn í glæsta fortíð Hamrafjölskyldunnar. Mér gafst tækifæri til að kynnast Laugu sjálfri á heimavelli lífs síns og allri sögu hennar, sem sannarlega er og verður goðsögn í samfélaginu hér um slóðir. Uppvöxtur hennar á Berserkjahrauni í Helgafellssveit er ótrúleg saga bjartsýni og elju foreldra Laugu og systkina hennar við kröpp kjör. Enn óma þó hlátrasköll barnahópsins milli veggja gamla eyðibýlisins á Hrauni, sé lagt vel við eyru.

Ég hef líka haft kynni af nokkrum borgarbarnanna sem Lauga og Hörður fóstruðu. Það var alltaf pláss fyrir viðbótarbörnin á Hömrum, þótt húsrými hafi lengi vel vart hrokkið til, í ofanálag við systkinin fimm sem þau sjálf eignuðust og uxu þar úr grasi. Lauga sá til þess að næra allan barnahópinn, auk hjartahlýju, með yfirdrifið nægum og kjarngóðum íslenskum mat og uppáhaldsviðurgjörningnum, annálaðri hjónabandssælu Laugu, Hamrasælunni sem ávallt var á boðstólum á Hömrum meðan hennar naut við fram á níræðisaldurinn. Flestir þeirra sem til þekktu renndu við í kaffi og meðlæti á Hömrum hvenær sem leiðin lá þar um. Þar var opið hús öll búskaparár þeirra hjóna, hvernig sem á stóð, langvökur í sauðburði, gegningar, heyskapur, sláturtíð – Lauga opnaði dyrnar sérhverjum ferðalangi, sem birtist á hlaðinu. Tungumálaörðugleikar vöfðust aldrei fyrir Laugu og komu ekki í veg fyrir að ókunnir, erlendir ferðamenn sem að garði bar væru drifnir í kaffi eða mat. Lauga talaði nefnilega alþjóðlegt tungumál örlætis og brosmildi – viðmóts sem flestir enn skilja.

Það var auðvelt að heillast af Laugu og Herði, Hömrum, Hamramön, Grundarbotni og -fossi. Síðast en ekki síst Árbrekkum þar sem við Hrönn njótum öllum mögulegum stundum á öðru heimili okkar. Virðum fyrir okkur af pallinum Örninn, Helgrindur, Kirkjufell og fossinn við hann kenndan, Setbergskirkju og Framsveitina allt yfir á Barðaströnd. Þetta var sjóndeildarhringur Laugu og Harðar sem við Hrönn fáum enn að njóta.

Takk, elsku Lauga, fyrir alla þína velvild, visku og glaðværð. Blessuð sé minning þín og Harðar, Kristmundar og Birnu heitinna.

Sigurður Örn.

Það var einn sólríkan sumarmorgun sem ég sat fyrir utan íbúðina hennar Laugu, í Grundarfirði, stuttu eftir að hún flutti í Fellaskjól, þegar tvær stelpur voru að skottast í kringum mig. Þær spurðu mig svo hvar gamla konan væri sem átti heima þarna og ég sagði þeim að hún væri flutt. Þá sögðu þær „hún gaf okkur alltaf kex“. Þá varð ég hálfvandræðaleg því ég átti ekkert kex. En svona var hún Lauga tengdamóðir mín. Hún hafði alltaf eitthvað upp á að bjóða, sama hverjir voru og hvenær maður sótti hana heim. Hjónabandssælan hennar er auðvitað orðin víðfræg.

Ég man eftir því þegar ég í kom í fyrsta skiptið að Hömrum að hitta Laugu og Hörð þegar við Hilmar vorum nýbyrjuð saman. Ég var svolítið stressuð auðvitað en hún Lauga tók mér afskaplega vel. Það kom fljótt í ljós að við náðum saman í gegnum húmorinn en hún hló hátt og innilega að einhverri vitleysu sem ég lét út úr mér. Það þurfti ekki meira til.

Já það var gott að koma að Hömrum. Maður fann að maður var alltaf svo velkominn þangað. Það geislaði af Laugu góðmennskan og kærleikurinn. Ég fór oft með börnin í heimsókn á Hamra þegar Hilmar var að keppa einhvers staðar í crossfit og þá áttum við Lauga góðar stundir saman. Hún tók börnunum mínum svo yndislega vel allt frá byrjun, sýndi þeim sína hlýju og væntumþykju.

Það var líka ómissandi að vera á Hömrum þegar réttirnar voru. Þá stóðum við Lauga saman í eldhúsinu og gerðum heitt súkkulaði í margar kaffikönnur og fórum með í fjárhúsið. Það stóð ekki á kræsingunum þar.

Lauga var einstök manneskja, sterkur persónuleiki, með eindæmum listræn, orkumikil, alltaf á ferðinni, hjartahlý og með húmorinn á réttum stað. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst henni og að eiga þessar minningar af henni.

Kveðja,

Unnur.

Ég vil minnast elsku ömmu minnar, Laugu á Hömrum eins og hún var kölluð. Amma var engin venjuleg kona, amma gat allt, sama hvort það var að sauma bútasaumsteppi, prjóna vettlinga eða baka og elda besta mat í heimi. Hjónabandssælan hennar var vinsælust og var kölluð Hamrasæla því amma breytti uppskriftinni og gerði að sinni. Ég verð stundum spenntur fyrir því að smakka hjónabandssælu þegar hún er í boði en það er bara enginn með tærnar þar sem amma hafði hælana. Amma var með búð í Grundarfirði í mörg ár, verslunina Hamra, og þar naut hún sín, seldi byggingarvörur og allt milli himins og jarðar og svo var alltaf kaffi og með því á bak við, hún málaði og veggfóðraði og flísalagði ef hún var í stuði, eins og fyrir jólin. Amma átti svo marga vini, hún var góð við alla og gaf mikið af sér og gaf líka þeim sem áttu lítið. Amma spilaði á harmonikku og það var eins og hún væri alltaf í góðu skapi og glöð.

Það var svo gaman að koma í sveitina til ömmu og afa, það var alltaf hlýtt og tekið vel á móti öllum, alltaf eitthvað nýbakað og ömmuknús og afi spurði um fótboltann, skólann og hafði áhuga á öllu sem ég var að gera.

Ég sagði víst þegar ég var lítill í leikskólanum að það væru svo mikil forréttindi að eiga ömmu og afa í sveit og ég stend við það.

Ég hef undanfarið heyrt orðið „ofurkona“ í kringum mig og hún amma hefði svo sannarlega átt þá nafnbót skilið því hún var sko sannkölluð ofurkona. Amma gat gert allt og ég skil ekki hvernig hún hafði tíma og orku í þetta allt saman en var samt alltaf hress og glöð með bros á vör. Ég man þegar ég var yngri ætlaði ég mér að reyna vakna á undan ömmu en það tókst aldrei því amma var alltaf komin á fætur og byrjuð að stússa.

Elsku amma, takk fyrir allar frábæru minningarnar og ævintýrin í sveitinni. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að eiga þig sem ömmu og mun alltaf geyma minninguna um þig.

Takk fyrir allt elsku amma mín og hvíldu í friði.

Þinn ömmustrákur,

Grétar Þór.

Á ljósmynd er lítill fiskibátur við flæðarmálið neðan við túnfót Hamra.

Um borð er kona í gulum sjóstakki. Hún togar net full af fiski upp úr sjó og reigist aftur á bak við átökin. Báturinn er að fyllast. Aflinn breiðir úr sér á dekki. Í bakgrunni rammar Kirkjufellið inn myndina.

Konan á myndinni er Lauga á Hömrum. Hún lá ekki á sínu þegar bera skyldi björg í bú.

Úr albúmi minninganna:

Ung kona á opinni dráttarvél brunar áfram í kalsa og slyddu. Hún er á leið frá Hömrum til vinnu út í Nes. Á frumbýlisárum ungra hjóna var dráttarvél eini vélvæddi fararkostur Hamra. Lauga ók á honum til vinnu. En hún vildi líka tolla í tísku og fannst ekki móðins að mæta til vinnu á dráttarvél, sem stamaði og sagði du … du … dunk.

Því faldi hún fákinn rétt við bæjarmörkin og gekk síðasta spölinn. „Því ég var svo pjöttuð,“ sagði hún seinna í kímni.

Auk útivinnu rak Lauga heimili og búskap með bónda sínum á Hömrum. Hvernig hún kom öllu þessu í verk er ráðgata „níu til fimm“-nútímafólks.

Seinna á ævinni opnaði Lauga eigin búð og afgreiddi sveitunga sína um langt árabil. Vöruúrvalið var annálað. Eins og hjá kaupfélögum fyrri tíma var þar allt til. Nema þá einhver óþarfi. Hann var aldrei á lager hjá Laugu.

Lauga fékk í vöggugjöf verklagni og fádæma dugnað. Það kom sér vel. Hún var ekki fædd við ríkidæmi og ekki var mulið undir hana í æsku.

Ofangreindum mannkostum er stundum úthlutað á kostnað mannlegra samskipta. En Lauga var jafn fær félagslega. Málleysingjar hændust að henni. Hún náði sambandi við unga sem aldna, óháð uppruna eða stöðu.

Um það getum við sumarbörn vitnað. Bæði sem börn og fullorðin.

Það var oft gestkvæmt á Hömrum. Nöfn í gestabókinni gátu skipt tugum um helgar. Ekki var í kot vísað í veitingum. Enda uppskriftir Laugu þekktar innan og utan sveitar.

Í hannyrðum var Lauga listamaður. Forláta altarisklæði í Setbergskirkju er eitt óteljandi verka sem fóru um hendur hennar. Fyrr á árum saumaði hún fínustu flíkur upp úr erlendum blöðum.

Lífslistakonan Lauga var í raun sendiherra sinnar byggðar. Við skipakomur lék hún á harmonikku. Og sló upp balli á bryggju. Ásamt öðrum kjarnakonum í Kvenfélaginu Gleym-mér-ei. Þar var Lauga virk um langa hríð.

Réttarkaffi Laugu var einnig rómað innan sveitar. Þar bauð Lauga gestum og gangandi upp á heitt súkkulaði og hlaðborð kræsinga í hlöðunni á Hömrum.

Við systurbörn Harðar eigum ljósar minningar frá dvöl okkar á Hömrum í æsku, sem eru eins og horfinn ævintýraheimur. Þar blönduðust saman börn og unglingar. Heyskapur, dýrahald. Skin og skúrir. Sögur og leikir á björtum sumarkvöldum.

Í þessum ljúfu æskuminningum er Lauga aldrei langt undan. Eitthvað að sýsla, inni eða úti.

Þannig minnumst við hennar. Eins og þegar hún bar fram bakkelsi í kaffitíma með kaldri mjólk, beint frá býli. Sumarbörn þökkuðu fyrir sig. Yfir andlit Laugu færðist hennar fallega bros.

Elsku Lauga, takk fyrir allt.

Við kveðjum þig í kærleik og friði.

Guðmundur Páll Guðmundsson, Kristín Helga Guðmundsdóttir, Ólöf Guðmundsdóttir-Huber.