Grafarvogur Borgarstjóri í sal þar sem fólk bæði spurði og sagði frá.
Grafarvogur Borgarstjóri í sal þar sem fólk bæði spurði og sagði frá. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mikilvægt er að bæta samgöngumál í Grafarvogi í Reykjavík, að því er fram kom í máli íbúa á hverfafundi sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri hélt í Rimaskóla sl. laugardag. Einar tók við embættinu fyrr í þessum mánuði og ætlar á næstunni að halda opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að bæta samgöngumál í Grafarvogi í Reykjavík, að því er fram kom í máli íbúa á hverfafundi sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri hélt í Rimaskóla sl. laugardag. Einar tók við embættinu fyrr í þessum mánuði og ætlar á næstunni að halda opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar. Heyra hugmyndir og sjónarmið íbúa og samkvæmt því verða áherslur mótaðar. Íbúaráð hvers borgarhverfis munu einnig rýna þau sjónarmið sem fram koma.

Í byrjun fundar var kallað eftir því hvað fólki þætti best við hverfið. Þar nefndu margir öflugt íþróttastarf, góða nærþjónustu, nálægð við opin svæði og rólegt samfélag í lágreistri byggð. Þegar svo var spurt um hvað betur mætti fara nefndi fundarfólk sérstaklega samgöngurnar. Leiðir fyrir einkabílinn mættu vera greiðari og þjónustu strætisvagna mætti bæta. Þar vantaði betri tengingu milli einstakra hluta hverfis. Einnig mættu matvöruverslanir vera víðar en í Spönginni. Þá kom fram að íbúar eru langeygir eftir að heilsugæslustöð í hverfinu verði opnuð á ný – auk þess sem kallað var eftir körfuboltavelli og sjósundaðstöðu.

Á laugardag fundaði Einar einnig með íbúum í Breiðholti og voru umræður þar ekki síður líflegar.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson