Birgir Breiðfjörð Valdimarsson fæddist 30. júlí 1934. Hann lést 14. janúar 2024.

Útför hans fór fram 27. janúar 2024.

Fallinn er frá Birgir Breiðfjörð Valdimarsson, eða Biggi Vald eins og hann var alltaf kallaður. Löngu áður en ég kynntist Valdimar syni hans vissi ég sem barn hver Biggi Vald var.

Hann var kallinn sem réði öllu á Ísafjarðarflugvelli en ég var snemma heillaður af flugi og öllu sem gerðist á Ísafjarðarflugvelli. Sem barn sá ég hann oft þar og fannst alltaf að hann ætti flugvöllinn með Grími í turninum. Síðar varð hann útgerðarstjóri eins af mestu aflatogurum bæjarins og þar af leiðandi einn af stórmennum bæjarins í huga mér sem átti smáútgerðarmann sem föður.

Biggi var athafna- og atorkumaður og það var eftir honum tekið alls staðar sem hann fór enda glaðlyndur og skemmtilegur. Eftir að ég kynntist Valla sem ungur strákur kom ég oft á heimili Bigga og Erlu sem stóð vinum hans og systra hans alltaf opið. Þar var gott að vera og Bigga þótti gaman að rugla í okkur strákunum.

Þegar við vinirnir vorum komnir á unglingsár og ætluðum að frelsa heiminn með sósíalisma á milli þess sem við hlustuðum á rokktónlist þótti Bigga gaman að þrátta við okkur. Hann espaði okkur upp og hló að vitleysunni í okkur, en alltaf góðlátlega og í bróðerni.

Hann kenndi okkur að spila bridds. Gekk hringinn í kringum borðið og gaf sögnum og útspilum einkunn með látbragði og grettum. Eftir að spili lauk fór hann yfir leikinn og sagði okkur til, hrósaði okkur og gagnrýndi á víxl. Þannig var hann einhvern veginn ekki bara pabbi hans Valla heldur félagi okkar allra.

Mér fannst aðdáunarvert hvað hann studdi Valla mikið þegar hann var sem unglingur keppnismaður á skíðum. Hann var stoltur af sigrum sonar síns og fór ekki leynt með það.

Biggi var úr Aðalvík og af þeirri kynslóð sem mundi tímana tvenna og þrenna. Tíma þegar lífsbaráttan fyrir vestan var virkilega hörð og hafa þurfti fyrir lífinu. Þetta var kynslóðin sem byggði upp nútíma atvinnu- og menningarlíf á Ísafirði og verðleikar fólks fólust í dugnaði og fórnfýsi.

Nú þegar hann er genginn minnist ég hans með hlýju og virðingu. Ég sendi Erlu, Valla og systrum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Heimir Már.