Bóndi Forréttindastarf, segir Herdís Magna Gunnarsdóttir.
Bóndi Forréttindastarf, segir Herdís Magna Gunnarsdóttir. — Ljósmynd/Sigurbjörn Þór Birgisson
„Umræða um landbúnað hefur verið mjög þung upp á síðkastið og margar ástæður eru fyrir því. En ekki má þó gleymast hve gaman er að vera bóndi. Vinnuálag er oft mikið en á móti kemur mikil umbun og frelsi sem felst í þessu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Umræða um landbúnað hefur verið mjög þung upp á síðkastið og margar ástæður eru fyrir því. En ekki má þó gleymast hve gaman er að vera bóndi. Vinnuálag er oft mikið en á móti kemur mikil umbun og frelsi sem felst í þessu. Við erum öll misjöfn og áhugasviðin ólík en ég lít á það sem forréttindi að vinna tengt við dýr og náttúru, að því gefnu að ég hafi sæmandi afkomu,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Héraði og varaformaður Bændasamtaka Íslands.

Miklar framfarir í vöruþróun

Aukin sjálfvirkni og nákvæmnisbúskapur munu leika stærra hlutverk í landbúnaði á næstu árum, tiltekur Herdís. Bændur segir hún þurfa að mæta miklum kröfum til gæða, aðbúnaðar og framleiðsluhátta enda sé fólk stolt af framleiðslu sinni.

„Þá hafa orðið miklar framfarir í vöruþróun á íslenskri landbúnaðarvöru og íslenskar vörur margar fengið alþjóðlegar viðurkenningar. Íslenska grænmetið er stórkostlegt og alltaf að koma fleiri spennandi tegundir á markað, íslenska lambið hefur fengið PDO-vottun, skyrið hefur slegið í gegn og íslensk ostagerð hefur einnig hlotið alþjóðleg verðlaun.“

Landbúnaður er langhlaup

Seint á síðasta ári var kynntur fjölþættur stuðningur við bændur af hálfu stjórnvalda. Þetta gerðist í kjölfar þess að ungir bændur stigu fram og kynntu stöðu sína: margvíslegan vanda vegna m.a. breyttra forsenda í efnahagsmálum. Þessu var mætt með 2,1 milljarðs kr. framlagi úr ríkissjóði. Þar af fóru 600 milljónir kr. í svokallaðan ungbændastuðning. Í þessu segir Herdís að hafi falist mikilvæg viðurkenning á því hver rekstrarvandi landbúnaðarins sé. Þannig teljist fólki til að 12 milljarða kr. vanti í greinina til að landbúnaðurinn geti staðið undir rekstrarlegum skuldbindingum.

Á dögunum var svo undirritað samkomulag um endurskoðun búvörusamnings milli ríkis og Bændasamtaka Íslands. Ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á samningnum, sem Herdís telur þó að þurft hefði. „Þetta var síðasta endurskoðun núverandi búvörusamnings og næstu ár verða nýtt til að undirbúa nýjan. Ég tel mikilvægt að við séum opin fyrir breytingum, þó án þess að koma rekstrarumhverfi landbúnaðarins í stórkostlegt uppnám. Rekstur í landbúnaði er langhlaup og stöðugleiki í starfsumhverfinu bændum því mikilvægur. Nýir samningar verða að taka mið af nútíma neysluháttum; styðja við fleiri greinar matvælaframleiðslu og tryggja að stuðningurinn sé í samræmi við innanlandsþörf,“ segir Herdís

Hækkanir í rétta átt

Beingreiðslur í mjólk eru nú miðaðar við 106 milljónir lítra sem var innanlandsþörfin 2005 en greiðslumark þessa árs er 151,5 milljónir lítra. Því þynnist stuðningur á lítra út með aukinni eftirspurn. Stjórnvöld eru því ekki að nýta verðbólguletjandi verkfæri sem þau eiga í stuðningi við mjólkurframleiðslu og opinberri verðlagningu, að mati Herdísar.

„Búvörusamningar eiga að mínu mati fyrst og fremst að styðja við matvælaframleiðslu. Byggðastuðningur og stuðningur til nýsköpunar, þróunar og loftslagsmála á mögulega að vera í öðrum samningum. Endurskoða þarf innflutningsvernd og leita tækifæra í einföldun á regluverki.“

Nú um áramótin hækkaði lágmarksverð á mjólk til bænda um 2,25%, úr 129,76 kr. l í 132,68 kr. Fram hefur komið í máli bænda að þetta sé skref í rétta átt til bættrar afkomu, en meira þurfi til. Þeir eins og margir aðrir atvinnurekendur finna fyrir almennum verðhækkunum á ýmsum aðföngum, olíu, launum og aðkeyptri þjónustu.

„Aðföng hafa flestöll hækkað, svo sem rúlluplast og sáðvara, en hækkanir á kjarnfóðri og áburði vega þyngst. Hækkanir á áburðarverði og fleiru sem fylgdu Úkraínustríðinu eru hvergi nærri gengnar til baka. Þetta telur mjög á búum sem hafa nýlega ráðist í miklar fjárfestingar, oftast til að bæta aðbúnað og tækni, þar er fjármagnskostnaður stærsta áskorunin. Sömuleiðis veldur efnahagsástandið nú því að bændur sem höfðu hug á að endurnýja, stækka og auka framleiðslu sína hafa þurft að halda að sér höndum,“ segir Herdís og að síðustu:

Öðrum til fyrirmyndar

„Auðvitað er mjög jákvætt að eftirspurn eftir íslenskri búvöru almennt eykst stöðugt. Því eru stórkostleg tækifæri í íslenskum landbúnaði til að sækja fram og vera öðrum þjóðum til fyrirmyndar í matvælaframleiðslu. Til að það megi verða þarf þó að búa landbúnaðinum betra starfsumhverfi, ekki aðeins með auknum ríkisstuðningi og innflutningsvernd, heldur líka með því að einfalda regluverk heilt yfir matvælakeðjuna og auðvelda okkur að lækka framleiðslukostnað og hagræða eins og svigrúm er til.“

Hver er hún?

  • Herdís Magna Gunnarsdóttir er 36 ára kúabóndi á Egilsstöðum á Héraði. Hún er þar uppalin og af 5. ættlið sem stendur að rekstri Egilsstaðabúsins. Herdís er stúdent frá MA, lauk svo sameiginlegu BS-námi frá LbHÍ og Háskólanum á Hólum árið 2012.
  • Herdís hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi bænda. Varaformaður Bændasamtaka Íslands síðustu tvö árin.