Nálægð Snæviþakin Bláfjöll ber við himin handan Hafnarfjarðar. Upptök skjálftanna eru enn nær borginni en þessi skjannahvíti fjallabálkur.
Nálægð Snæviþakin Bláfjöll ber við himin handan Hafnarfjarðar. Upptök skjálftanna eru enn nær borginni en þessi skjannahvíti fjallabálkur. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Skúli Halldórsson sh@mbl.is Hrina jarðskjálfta, sem hófst skammt suðaustur af Heiðmörk á föstudag og jókst að umfangi um helgina, kann að gefa til kynna kvikusöfnun á töluverðu dýpi.

Baksvið

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Hrina jarðskjálfta, sem hófst skammt suðaustur af Heiðmörk á föstudag og jókst að umfangi um helgina, kann að gefa til kynna kvikusöfnun á töluverðu dýpi.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Umfjöllun mbl.is um hrinuna og upptakasvæði hennar vakti mikla athygli um helgina. Skjálftarnir eiga enda upptök sín undir Húsfellsbruna, því hrauni sem næst rann Reykjavík á síðasta gosskeiði Reykjanesskagans.

„Þetta gætu hugsanlega verið skjálftar vegna uppbyggingar spennu neðst í jarðskorpunni,“ segir Þorvaldur. „En þeir gætu líka gefið til kynna einhverja samansöfnun kviku á mörkum deigu og stökku skorpunnar, þarna undir.“

Raunsætt og gaumgæfilega

Húsfellsbruni, eins og skjálftarnir sem nú verða, tilheyrir Brennisteinsfjallakerfinu, einu nokkurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Þorvaldur kveðst efast um að skjálftarnir leiði til einhverra umbrota á næstunni.

„En ég held að þetta sé í raun að segja okkur að þessi kerfi eru komin í gang. Og þau eru farin að undirbúa sig.“

Hann heldur áfram:

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við horfum raunsætt og gaumgæfilega á það og förum að hugsa líka aðeins meira um fyrirbyggjandi aðgerðir og áætlanir, ef það kemur til einhverra atburða á þessum stöðum – á óhentugum stöðum á þessum gosreinum. Þá er ágætt fyrir okkur að vera búin að velta því fyrir okkur – hvað gæti gerst og hvernig við getum brugðist við því.“

Því fyrr, því betra, segir eldfjallafræðingurinn.

„Og það þýðir ekkert að setja það á sem eitthvert aukaverkefni. Það verður bara að fara í þá vinnu af alvöru og láta hana hafa pínulítið forskot. Af því að við erum komin á þennan stað með þetta allt saman.“

Í síðustu goshrinu var þetta það hraun sem rann næst Reykjavík?

„Já, það er alveg hárrétt. Það getur gerst aftur og getur meira að segja farið lengra, ef það gýs á þessum stað. Síðast þegar gaus svona norðarlega á Brennisteinsfjallareininni þá rann hraun næstum því til sjávar við Straumsvíkina. Og eins líka í Rjúpnadyngjuhrauni, eitt af hraununum sem kom þar niður náði nú yfir vegstæði þjóðvegar 1.“

Framleiðir lengstu hraunin

Gætum við verið að sjá þarna eins ferli og við sáum við Svartsengi fyrir fjórum til fimm árum?

„Eitthvað svoleiðis,“ svarar Þorvaldur, en tekur fram að það þýði ekki endilega að það séu einungis nokkur ár til eldgoss. „Við bara vitum það ekki. En það hefur verið frekar rólegt yfir Brennisteinsfjallareininni. Þannig að það er eftirtektarvert að skjálftar eru komnir á hana. Mér finnst það vera kannski vísbending um að þetta sé komið til að vera. Við þurfum að læra að lifa með því.“

Það er ekki aðeins fyrir sakir nálægðar Brennisteinsfjallakerfisins við höfuðborgarsvæðið, sem vert er að veita því athygli, heldur eru Brennisteinsfjöll það kerfi sem að meðaltali býr til stærstu hraun Reykjanesskagans. Að minnsta kosti þau lengstu, segir Þorvaldur.

„Þau virðast oft búa til það sem við köllum helluhraun. Slík hraun eru með einangrað flutningskerfi, sem þýðir að hraunið helst heitt frá upptökum sínum og til áfangastaðarins. Þegar það kemur út úr flutningskerfinu þá er það heitt og getur því breitt aðeins úr sér á þeim stað sem það brýst út, sem lengir síðan enn þetta einangraða flutningskerfi. Þú getur þá flutt heita kviku enn lengra. Öll langlengstu hraun á Íslandi eru helluhraun.“

Fengjum einhverja viðvörun

Þorvaldur svarar því játandi, spurður hvort frekari vísbendinga sé þörf áður en hægt sé að tala um að gos vofi yfir.

„Þá myndum við þurfa að sjá landlyftingu og svo kæmu náttúrulega einhverjar skjálftahrinur og læti. Við fengjum einhverja viðvörun. Það er ekkert að fara að gerast á morgun. En það er athyglisvert að fylgjast með þessu og sjá hvernig kerfin búa sig undir þetta.“

Hann beinir augum sínum einnig að Reykjaneskerfinu, ysta eldstöðvakerfi skagans sem dregur jú allur nafn sitt af því jarðhitasvæði.

„Það kerfi hefur verið með hrinur og annað sem ekki hafa endað í eldgosum, en benda nú til þess að það sé líka að taka við sér. “