[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mun spila tvo umspilsleiki gegn annað hvort Eistlandi eða Úkraínu um laust sæti á HM 2025 sem fer fram í Danmörku, Noregi og Króatíu. Eistland og Úkraína mætast 13

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mun spila tvo umspilsleiki gegn annað hvort Eistlandi eða Úkraínu um laust sæti á HM 2025 sem fer fram í Danmörku, Noregi og Króatíu. Eistland og Úkraína mætast 13. og 17. mars og Ísland mætir sigurvegara einvígisins í tveimur leikjum sem verða spilaðir 9. og 11. maí á þessu ári.

Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir verður frá keppni í einhvern tíma en hún handarbrotnaði í leik Zwickau og Bad Wildungen í þýsku 1. deildinni í handbolta á laugardaginn. Þrátt fyrir brotið hélt Díana leik áfram og var markahæst í sínu liði með fimm mörk

Knattspyrnukonan Jordyn Rhodes er komin í raðir Tindastóls og mun leika með liðinu á komandi tímabili. Hún kemur til Tindastóls frá háskólaboltanum í Bandaríkjunum en hún skoraði níu mörk og gaf fjórar stoðsendingar í 19 leikjum með Kentucky-háskólanum á síðasta ári. Hún er markahæsti leikmaður í sögu skólans með 45 mörk. Tindastóll var í fallbaráttu á síðasta tímabili en átti frábæran lokakafla og endaði mótið með 26 stig, fimm stigum frá fallsæti.

Ingi Darvis Rodriguez og Guðrún G. Björnsdóttir báru sigur úr býtum í einliðaleik í borðtennis á Reykjavíkurleikunum í gær. Ingi vann 4:1-sigur á Magnúsi Gauta Úlfarssyni í úrslitum. Guðrún vann 4:3-sigur á Ársólu Arnardóttur í úrslitum í kvennaflokki.

Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur bætti eigið Íslandsmet í skotfimi með loftskammbyssu á Reykjavíkurleikunum á laugardag. Jórunn sló metið í fyrri riðli undankeppninnar. Jórunn náði 567 stigum en fyrra met hennar var 560 stig. Ívar Ragnarsson varð meistari í opnum flokki fullorðinna, Jón Ægir Sigmarsson varð annar og Jórunn tók bronsið.

Norski knattspyrnumaðurinn efnilegi Antonio Nusa gengur til liðs við enska félagið Brentford í sumar frá belgíska félaginu Club Brugge. Hafa félögin komist að samkomulagi um kaupverðið en það er um 25 milljónir punda.

María Ólafsdóttir Gros tryggði Fortuna Sittard eitt stig gegn Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardag. Hún skoraði jöfnunarmark Fortuna Sittard á 81. mínútu en hún kom inn á sem varamaður á 63. mínútu. Hildur Antonsdóttir lék fyrstu 83 mínúturnar og Lára Kristín Pedersen leysti hana af hólmi og lék sinn fyrsta leik fyrir Fortuna.

Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson skoraði jöfnunarmark Vis Pesaro gegn Entella í 1:1-jafntefli liðanna í ítölsku C-deildinni á laugardag. Kom jöfnunarmarkið á 87. mínútu. Óttar hefur skorað fimm mörk í tólf leikjum með Vis Pesaro.

Spánverjinn Xavi hættir sem knattspyrnustjóri stórveldisins Barcelona eftir leiktíðina. Hann tilkynnti fregnirnar eftir 3:5-tap liðsins gegn Villarreal í spænsku 1. deildinni á laugardag. Barcelona er í fjórða sæti deildarinnar með 44 stig. Þá féll liðið úr leik í átta liða úrslitum spænska bikarsins á dögunum.

Knattspyrnukonan Henríetta Ágústsdóttir er komin til Stjörnunnar frá HK. Hin 18 ára gamla Henríetta hefur spilað ellefu landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim eitt mark. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Henríetta leikið 28 leiki í 1. deild með HK.

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir bar sigur úr býtum í fullorðinsflokki í listskautum á Reykjavíkurleikunum í gær en keppt var í Skautahöllinni í Laugardal. Skráði Júlía sig í sögubækurnar með sigrinum því hún er fyrsti Íslendingurinn til að fá gullverðlaun í fullorðinsflokki á alþjóðlegu móti.

Kristian Nökkvi Hlynsson lagði upp eitt mark og skoraði annað þegar Ajax vann 4:2-útisigur á Heracles í hollensku úrvalsdieldinni í fótbolta. Kristian lék allan leikinn og lagði upp annað mark Ajax á Steven Berguis. Hann gerði svo fjórða markið sjálfur. Kristian hefur nú skorað í tveimur leikjum Ajax í röð og alls sex mörk í 15 leikjum í deildinni.