Ísrael Lík látinna Ísraelsmanna eftir hryðjuverkaárásina í Beeri.
Ísrael Lík látinna Ísraelsmanna eftir hryðjuverkaárásina í Beeri. — AFP/Jack Guez
Íslensk stjórnvöld hafa fylgt fordæmi annarra þjóða og fryst greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar þess að nokkrir starfsmenn stofnunarinnar voru reknir, sem viðbragð við ásökunum Ísraelsmanna um að þeir hafi átt aðild að árás Hamas-vígamanna þann 7

Íslensk stjórnvöld hafa fylgt fordæmi annarra þjóða og fryst greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar þess að nokkrir starfsmenn stofnunarinnar voru reknir, sem viðbragð við ásökunum Ísraelsmanna um að þeir hafi átt aðild að árás Hamas-vígamanna þann 7. október.

Aðeins ein önnur Norðurlandaþjóð, Finnar, hefur tekið sömu ákvörðun en Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland hafa öll lýst því yfir að greiðslur til UNRWA verði stöðvaðar tímabundið.

Í skýrslu frá UN Watch, svissneskum félagasamtökum sem hafa eftirlit með SÞ, segir að stjórnendur í Telegram-hópi með um 3.000 kennurum á vegum UNRWA á Gasaströndinni hafi fagnað árás „heilagra stríðsmanna“ Hamas-samtakanna þegar fyrstu fréttir af hryðjuverkunum bárust. „Ó, Guð, rífðu þá í sundur,“ er einn stjórnandi sakaður um að hafa sent á hópinn. „Taktu fyrstu landnámsmennina af lífi í beinni útsendingu,“ á annar að hafa sagt.

Bandaríkin voru fyrst til þess að frysta fjárframlög til UNRWA en þau hafa til þessa veitt mestu fé til stofnunarinnar. Áður en fréttir bárust af ásökunum Ísraelsmanna í garð UNRWA hafði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hrósað starfi UNRWA og stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta ákvað að endurlífga fjármögnun til flóttamannaaðstoðarinnar, sem var stöðvuð í forsetatíð Donalds Trumps.

„Árum saman hef ég varað Biden-stjórnina við því að halda fjárframlögum áfram til UNRWA, sem hefur um hríð ráðið fólk sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Hamas,“ sagði repúblikaninn Jim Risch, samkvæmt umfjöllun Reuters.