Gudmundur Johnsen
Gudmundur Johnsen
Íslenskt menntakerfi ætti að auka vægi stafræns textaumhverfis sem auðveldar fleirum nám.

Gudmundur Johnsen

Á síðustu mánuðum hefur verið þörf umræða um skólastarf á Íslandi. Sumt hefur verið óvægið og jafnvel vegið að skólakerfinu og starfsfólki þess vegna alþjóðlegs samanburðar PISA. Efalítið má margt bæta en ástæða er til að benda á það sem vel hefur tekist.

Árið 2006 fékkst það í gegn fyrir hvatningu Félags lesblindra á Íslandi að taka upp skimun og lesblindugreiningar í skólakerfinu. Allt frá stofnun félagsins höfðum við lagt áherslu á að þessi skimun hæfist við tíu ára aldurinn svo dregið yrði úr kvíða barnanna. Þetta var mikilvægur áfangi í að tryggja betur jöfn tækifæri og aukið jafnrétti til náms. Tveimur árum síðar var með lögum um grunnskóla kveðið á um að allir nemendur eigi rétt á kennslu við hæfi og komið sé til móts við þá sem glíma við sértæka námsörðugleika svo sem lesblindu. Þessi breyting var til umtalsverðra bóta og hefur skilað miklu þótt enn sé nokkuð í land.

Ástæða er til að rifja upp viðamikla þriggja ára rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Félag lesblindra meðal barna og ungmenna. Niðurstaða rannsóknarinnar var afgerandi þegar kom að kvíða lesblindra: Einn af hverjum tíu nemendum í efri bekkjum grunnskóla sögðu lesblindu hafa haft afgerandi áhrif á frammistöðu í námi.

Fimmti hver er lesblindur

Að sama skapi kom fram að fimmti hver nemandi á aldrinum 18-24 ára hefur nú fengið lesblindugreiningu. Sú staðreynd að rúmlega tuttugu prósent nemenda eigi við alvarlega lesörðugleika að stríða er mikil áskorun fyrir skólakerfið. Ætla má að hópurinn sé stærri því greiningu fá frekar nemendur í verulegum vanda.

Skólarnir verða að mæta þessum stóra hóp bæði hvað varðar kennsluhætti og á hvaða hátt nemendur megi skila verkefnum og prófum. Taka þarf tillit til þess að lesblindir, einkum stúlkur, eigi við mikinn kvíða að etja. Lesblindir upplifa vanmátt gagnvart bekkjarfélögum og efasemdir um eigin hæfni.

Mikilvægi Félags lesblindra: Þrjú verkefni

Rannsóknin innsiglaði mikilvægi Félags lesblindra á Íslandi gagnvart skólakerfinu. Það hefur skilað árangri í baráttu félagsins fyrir skimum og greiningu sem aftur hefur dregið úr kvíða nemenda.

Að mörgu þarf að hyggja: Í fyrsta lagi að gæta að því að lesblindugreining séu framkvæmd á 10. aldursári en ekki seinna. Að greinast seint hefur mikil og neikvæð áhrif á skólagöngu til lengri tíma. Með greiningu fyrr er hægt að huga betur að þeim sem eru líklegri til að glíma við kvíða vegna lesblindu.

Í annan stað ætti að innleiða og auka vægi stafræns texta. Núverandi textatækni brýtur suma lesblinda niður og veldur miklum erfiðleikum. Íslenskt skólakerfi ætti að bjóða aukna valmöguleika varðandi texta. Það á að opna öllum nemendum textasamfélagið með því að nota meir stafrænan texta. Þá geti menn valið lestur eða hlustun námsefnis. Þannig auðveldum við fleirum nám.

Stöndum vörð um skólana

Í þriðja lagi eigum við að standa vörð um skólakerfið. Stöndum með kennurum og skólastjórnendum og hvetjum þá áfram til góðra verka. PISA-samanburður ætti að verða okkur hvatning en jafnframt áminning um það sem vel hefur verið unnið. Menntun þarf að byggjast á jöfnum tækifærum, lesblindra sem annarra. Það bætir samfélagið og skapar betra og sterkara Ísland.

Höfundur er formaður Félags lesblindra á Íslandi.