[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stórliðið Manchester United komst í hann krappan er það mætti Newport County úr D-deildinni á útivelli í 32-liða úrslitum enska bikarsins í fótbolta í Wales í gærkvöldi. Stefndi í þægilegt kvöld fyrir United þegar Bruno Fernandes og Kobbie Mainoo komu liðinu í 2:0 eftir aðeins 13 mínútur

Enski bikarinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Stórliðið Manchester United komst í hann krappan er það mætti Newport County úr D-deildinni á útivelli í 32-liða úrslitum enska bikarsins í fótbolta í Wales í gærkvöldi.

Stefndi í þægilegt kvöld fyrir United þegar Bruno Fernandes og Kobbie Mainoo komu liðinu í 2:0 eftir aðeins 13 mínútur. Heimamenn neituðu hins vegar að gefast upp og Bryn Morris og Will Evans jöfnuðu með mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn.

United bjargaði hins vegar andlitinu því Antony gerði þriðja mark liðsins á 68. mínútu og Rasmus Höjlund það fjórða í uppbótartíma. United mætir annað hvort Bristol City úr B-deildinni eða Nottingham Forest úr úrvalsdeildinni í næstu umferð.

Liverpool vann öllu öruggari 5:2-sigur á Norwich úr B-deildinni á heimavelli. Var leikurinn sá fyrsti hjá Liverpool síðan Jürgen Klopp gaf það út að hann myndi hætta með liðið eftir leiktíðina. Curtis Jones og Darwin Núnez komu Liverpool í tvígang yfir í fyrri hálfleik en Ben Gibson jafnaði þess á milli.

Diogo Jota og Virgil van Dijk breyttu stöðunni í 4:1 fyrir Liverpool, áður en Borja Sainz minnkaði muninn í 4:2. Ryan Gravenberch gulltryggði Liverpool þriggja marka sigur með marki í uppbótartíma.

Liverpool mætir öðru B-deildarliði í næstu umferð en það verður annað hvort Watford eða Southampton.

Slegist í Wolverhampton

Wolves er einnig komið áfram eftir 2:0-útisigur á WBA í viðburðaríkum leik. Stöðva þurfti leikinn í um hálftíma í seinni hálfleik vegna slagsmála stuðningsmanna. Að lokum tókst að ljúka leiknum. Wolves mætir Brighton í úrvalsdeildarslag í næstu umferð, en Brighton vann 5:2-sigur á Sheffield United í öðrum úrvalsdeildarslag á laugardag.

Þá gerði Maidstone úr F-deildinni sér lítið fyrir og vann 2:1-útisigur á Ipswich, sem hefur verið í toppbaráttu í B-deildinni allt tímabilið. Maidstone, sem George Elekobi stýrir, mætir Sheffield Wednesday eða Coventry úr B-deildinni á útivelli í 16-liða úrslitunum.

Dramatík í Liverpool

Luton gerði góða ferð til Liverpool og vann dramatískan 2:1-útisigur á Everton í úrvalsdeildarslag. Everton skoraði sjálfsmark á 39. mínútu en Jack Harrison jafnaði á 55. mínútu fyrir Liverpool-liðið. Luton átti hins vegar lokaorðið því Cauley Woodrow skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu uppbótartímans. Luton mætir ríkjandi meisturum Manchester City á heimavelli í næstu umferð.

Loks vann Newcastle sanngjarnan 2:0-útisigur á Fulham. Sean Longstaff og Dan Burn gerðu mörkin sitt hvoru megin við hálfleikinn. Newcastle mætir Blackburn úr B-deildinni eða Wrexham úr D-deildinni á útivelli í næstu umferð, en þau mætast klukkan 19.30 í kvöld.