Svala Sigtryggsdóttir fæddist í Reykjavík 3. desember 1956. Hún lést á heimili sínu 10. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sigtryggur Runólfsson, f. 11. júlí 1921, d. 7. september 1988, og Guðbjörg Sigurpálsdóttir, f. 9. nóvember 1926, d. 1. desember 2014. Svala var 10. í röðinni af hópi 11 systkina.

Svala giftist Ólafi Finnbogasyni, þau skildu.

Sonur þeirra er Arnar Þór Ólafsson, maki Adda Magný Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru Linda Björk, Arnar Máni, Steinunn María og Sóldís Svala. Svala og Ólafur eignuðust einnig stúlkubarn árið 1979 sem lést skömmu eftir fæðingu.

Svala giftist Þóri Sigurðssyni, þau skildu.

Synir þeirra eru: 1) Þórir Þórisson, maki Magndís A. Waage. Börn Sigurðar eru Tanya Berg, Þórir Snævarr og Birgitta Íren. 2) Magnús Þór Þórisson, maki Sandra Júlíusdóttir. Börn þeirra eru Júlía Rún og Patrik Leó. 3) Sigtryggur Þór Þórisson, maki Fríða Dögg Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Henry Leon, Emelía Ýr og Oliver Liam.

Svala giftist Gísla Ásgeirssyni, þau skildu.

Svala var fædd og uppalin í Reykjavík, bjó alla sína barnæsku í Heiðargerði 11. Að loknu skyldunámi fór hún strax að vinna og vann við hin ýmsu störf, þó aðallega við verslunarstörf. Svala æfði handbolta af kappi með Val á árunum 1970-1977 og þótti mjög efnileg en lagði boltann á hilluna þegar barneignir tóku við.

Útför Svölu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 29. janúar 2024, klukkan 13.

Með sorg í hjarta kveð ég elskulega tengdamóður mína hana Svölu eða ömmu Svölu eins og hún var nú oftast kölluð af okkur öllum.

Það var árið 1999 að tvítug mær skottaðist upp tröppurnar í Álakvíslinni með hnút í maganum yfir að hitta væntanlega tengdamóður sína í fyrsta skipti. Ég komst fljótt að því að þessi hnútur var algjör óþarfi, strax frá fyrstu kynnum tók Svala mér opnum örmum og við urðum mjög góðar vinkonur og Svala reyndist mér besta tengdamóðir sem ég hefði getað óskað mér.

Meira að segja þegar leiðir okkar Arnars skildi um nokkurra ára skeið var hún samt alltaf fastagestur á heimili mínu og Lindu. Hún þreyttist seint á að heimsækja okkur mæðgurnar og færa henni Lindu sinni eitthvert dótið sem hún hafði keypt í Kolaportinu eða Góða hirðinum. Svala gaf heldur aldrei upp vonina um að við Arnar tækjum aftur saman og reyndist svo sannspá með það að lokum. Þegar við sögðum henni fréttirnar þá gargaði hún „ég vissi það, ég vissi það“ og hló og skríkti af gleði.

Svala var einstaklega glæsileg og falleg kona sem vakti verðskuldaða athygli hvert sem hún fór. Það var ekki oft sem maður sá Svölu sína öðruvísi en með maskara, varalit og fullt af gulli og glingri en krummagenið var ríkt í henni og hún laðaðist að öllu sem glitraði og gljáði og ef það glitraði ekki þá spreyjaði hún það bara, oftast með gylltum lit. Hún var með brjálaðan húmor, gat bæði gert grín og tekið gríni enda var hún oft og iðulega skotspónn strákanna sinna sem fannst fátt skemmtilegra en að gantast í mömmu sinni og þeim fannst sérstaklega gaman að bregða henni, sumir bræðurnir stunduðu þann leik þó meir en aðrir.

Svala var öflug á samfélagsmiðlum og þá einna helst á Facebook. Þar var hún manna duglegust að deila öllum minningum og myndum sem poppuðu upp hjá henni, lækaði allt, varð vinur allra og deildi lögum sem áttu hug hennar. Síðasta lagið sem hún deildi aðeins nokkrum dögum fyrir andlátið var The End Of The World með Skeeter Davis sem mér finnst mjög táknrænt, hún var komin á sinn leiðarenda.

Lífið var því miður ekki alltaf dans á rósum hjá Svölu, hún átti sínar hæðir og lægðir og það var greinilegt að síðustu árin tóku sinn toll af henni. Hún háði erfiða baráttu mestallt sitt líf og svo þegar veikindi bættust við sem og önnur áföll þá reyndist það líkama hennar um megn. Nú er hún frjáls eins og fuglinn, laus við alla verki og kvalir og búin að fá innri frið og hvíld í faðmi sinna nánustu sem hún saknaði svo mikið.

Að kallið sé komið svona snemma skilur okkur, litla kjarnann hennar, eftir í sárum og djúpum söknuði. En við minnumst hennar með hlýju í hjartanu og rifjum upp sögur liðinna ára.

Elsku hjartans Svala mín, þú skilur eftir risastórt fótspor í mínu lífi, spor sem ég mun varðveita að eilífu. Ég þakka þér samfylgdina síðustu 25 árin, takk fyrir allt og allt.

Þín

Adda.