Meistarar Frakkar eru Evrópumeistarar í fjórða skipti og í fyrsta skipti í áratug. Nikola Karabatic, fyrirliði Frakklands, tók við verðlaunagripnum.
Meistarar Frakkar eru Evrópumeistarar í fjórða skipti og í fyrsta skipti í áratug. Nikola Karabatic, fyrirliði Frakklands, tók við verðlaunagripnum. — AFP/Kirill Kudryavtsev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland er Evrópumeistari karla í handbolta eftir 33:31-sigur á Danmörku í stórskemmtilegum úrslitaleik í Köln í Þýskalandi í gærkvöldi

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Frakkland er Evrópumeistari karla í handbolta eftir 33:31-sigur á Danmörku í stórskemmtilegum úrslitaleik í Köln í Þýskalandi í gærkvöldi. Úrslitin réðust í framlengingu eftir æsispennu og handbolta í allra hæsta gæðaflokki.

Var staðan í hálfleik 14:14 eftir miklar sveiflur, þar sem liðin skiptust á að ná forystunni eftir góða kafla. Danmörk var yfir stærstan hluta seinni hálfleiks, en Frakkland náði að jafna í 27:27 í blálokin og knýja fram framlengingu.

Ekki tókst að skilja liðin að í fyrri hálfleik framlengingarinnar, því staðan eftir hann var 29:29. Í seinni hálfleiknum tókst Frökkum að slíta sig frá Dönum og vinna tveggja marka sigur.

Langt síðan síðast

Þrátt fyrir gríðarlega gott gengi beggja liða síðasta áratuginn voru þau bæði að leika til úrslita í fyrsta skipti á EM frá því þau mættust í úrslitum í Danmörku árið 2014. Þá vann Frakkland 41:32-sigur og var því að vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil í áratug. Danir þurfa að bíða lengur, en þeir unnu mótið í Serbíu árið 2012.

Frakkland hefur nú unnið Ólympíuleika, Evrópumót og heimsmeistaramót í 13 skipti. Hófst sigurgangan í Reykjavík árið 1995 er liðið varð heimsmeistari í fyrsta skipti. Síðan þá hefur liðið unnið hvern stóra titilinn á fætur öðrum.

Fyrsti sigur Frakklands á EM var í Sviss árið 2006. Þá spilaði Nikola Karabatic afar vel. Nú átján árum síðar varð hann Evrópumeistari í fjórða skipti. Karabatic sló Evrópumet Guðjóns Vals Sigurðssonar þegar hann skoraði sitt 289. mark á Evrópumóti er Frakkland mætti Króatíu.

Mikkel Hansen skoraði níu mörk í leiknum í gær og sló Evrópumet þess franska. Karabatic er nú með 294 mörk og Hansen 295. Þá hefur Hansen skorað flest mörk allra í úrslitaleikjum á EM, eða 27. Karabatic er þar einnig í öðru sæti með 22.

Hansen sló því tvö Evrópumet í gær, en hann hefði líklegast skipt þeim báðum út fyrir einn Evrópumeistaratitil.

Dagur náði síðast í verðlaun

Svíþjóð nældi í bronsverðlaun með 34:31-sigri á lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi. Svíar hafa nú náð í sjö verðlaun á EM og sín fyrstu bronsverðlaun. Með árangrinum tryggði Svíþjóð sér sæti á Ólympíuleikunum en Þýskaland fer í undankeppnina.

Þýskaland hefur ekki náð í verðlaun á stórmóti síðan Dagur Sigurðsson gerði þýska liðið að Evrópumeistara árið 2016 og náði í brons á Ólympíuleikunum í Ríó sama ár.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson